Samræmið seiðir

Samræmið getur verið fýsilegt samræmisins vegna en samræmið getur líka verið fýsilegt framfaranna vegna. Hér skulu tínd til fimm dæmi þar sem samræming gæti verið til bóta. Samræmið getur verið fýsilegt samræmisins vegna en samræmið getur líka verið fýsilegt framfaranna vegna. Hér skulu tínd til fimm dæmi þar sem samræming gæti verið til bóta:

a) Innlent sjónvarps- og kvikmyndaefni verði textað, rétt eins og erlent. Með því fengju heyrnarlausir og heyrnarskertir greiðara aðgengi að upplýsingum, fræðslu og afþreyingu og útlendingar ættu hægara með að læra íslensku – fyrir nú utan það að í háreysti og skarkala gæti verið einfaldara að rýna í skjátexta en spreyta sig á varalestri.

b) Áfengiskaupaaldur lækki úr tuttugu árum í átján. Þá þyrftu átján og nítján ára einstaklingar ekki að brjóta lög í hvert einasta sinn sem þeir verða sér úti um áfengi eða fá sér neðan í því – á skemmtistöðum eða annars staðar. Við átján ára aldur verða menn lögráða: mega giftast sínum heittelskaða, steypa sér ofan í skuldafen, kjósa Flokkinn eða Listann, já, meira að segja bjóða sig fram til Alþingis og sveitarstjórna. Kannski er ekki út í hött að í leiðinni verði löglegt og aðeins auðveldara að útvega sér áfengi í Ríkinu en landa eða fíkniefni á götunni.

Þó gæti verið hyggilegra, alla vega til reynslu, að samræmið yrði ekki skilyrðislaust heldur bundið við bjór og léttvín.

c) Reykingar verði bannaðar á veitinga- og skemmtistöðum, rétt eins og á öðrum opinberum stöðum. Frelsi manna til að anda að sér reyklausu lofti á almannafæri ætti að ganga fyrir frelsi annarra til að púa yfir þá heilsuspillandi reyk. Með öðrum orðum: Á almenningsstöðum ætti rétturinn til að vernda heilsuna að vega þyngra á metunum en rétturinn til að kveikja í eigum sínum. Haldi menn annað vaða þeir vísast reyk – og það jafnvel í tvennum skilningi.

d) Opinberir starfsmenn sæti sömu refsiábyrgð og aðrir fyrir misferli. Eða hvar er réttlætið í því að nokkur hljóti helmingi þyngri dóm fyrir það eitt að vinna á RÚV en ekki á 365 ljósvakamiðlum eða í Menntaskólanum í Reykjavík en ekki í Menntaskólanum Hraðbraut? Ef ríkisstarfsmaður væri á annað borð reiðubúinn að fórna æru og embætti léti hann það varla heldur aftra sér þótt árin í svartholinu yrðu tvö í stað eins eða sektin tvær milljónir í stað einnar og þar fram eftir götunum.

Auðvitað bera sumir opinberir starfsmenn mikla ábyrgð en það á við um fleiri í samfélaginu, svo sem stjórnendur einkarekinna banka og fyrirtækja. Í eðli sínu eru ríkisstarfsmenn ekkert öðruvísi en Jón og Gunna og ættu því að sitja við sama borð; annað ýtir undir stéttarvitund og sundurlyndi.

e) Auk þess legg ég til að lesbísk pör fái að geta börn með tæknifrjóvgun og samkynhneigðir að frumættleiða börn og gifta sig í kirkjum landsins, rétt eins og gagnkynhneigðir. Rannsóknir sýna að samkynhneigðir eru engu síðri uppalendur. Ekki veitir heldur af kærleik og virðingu í garð náungans; ríki og trúfélög ættu því að umbera það og löghelga þegar einstaklingar af sama kyni fella hugi saman og vilja vera eitt fyrir guði og mönnum.

Ef vinnulag á Alþingi væri skilvirkara og sanngjarnara en nú er og tregðan aðeins minni væri jafnvel sumt af þessu orðið að lögum.

Samræmið seiðir.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand