Samkynhneigðir mega vera hjón, giftast upp á títuprjón?

Ef við eigum að vinna í anda stjórnarskrárinnar og uppfylla jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar afhverju er þá blessuðu þjóðkirkjunni ekki leyft slíkt hið sama? Afhverju getur kirkjan blessað skip, flugvélar og jafnvel jarðgöng en ekki hjónaband samkynhneigðra? Afhverju er ekki stigið skrefið til fulls og kirkjunni leyft að gefa saman samkynhneigða? Hví ekki? Er húmar að kveldi…
Í gær fór fram umræða á þingi um réttarstöðu samkynhneigðra. Reyndar komst málið ekki á dagskrá fyrr en kl. 17.20. þar sem mikilvægara þótti að ræða um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, frumvarp sem hafði verið lagt fram á síðasta þingi en var frestað. Reyndar fór fram umræða um störf þingsins vegna þessarar frestunar en því miður náði ég ekki að heyra rökin fyrir málauppröðuninni þennan daginn. Nýttur var fyrir nokkru ráðherrabústaðurinn og boðaði forsætisráðherra til blaðamannafundar til að láta vita af komu þessa frumvarps. Það liggur við að ég verði hálfpartinn reið þegar blaðamannafundurinn og lúðrablásturinn verður að umræðu í rökkurró og þetta mikla mannréttindamál fær umræðu í myrkri. Í myrkri hafa málefni samkynhneigðra mátt liggja og svo virðist vera áfram niðurstaðan! Samtökin ´78 fjalla um komu frumvarpsins á heimasíðu sinni og nefna m.a. að ríkisstjórnin sé reiðubúin til að skipa Ísland í ,, fremstu röð ríkja í heiminum í mannréttindamálum samkynhneigðra“ – en það skal samt ekki fara fremst á dagskrá. En þrátt fyrir þessa reiði mína og pirring vegna þess hvar málið er á dagskrá er ég ánægð með að það skuli vera tekið fyrir. Heyr heyr, þrátt fyrir myrkur og vosbúð.

…. og birtir á ný
Árið 1992 má segja að málefni samkynhneigðra hafi fyrst komist að í sölum þingsins þegar skipuð var nefnd til að kanna stöðu samkynhneigðs fólks sem leiddi til frumvarps um staðfesta samvist sem tók gildi 1996. Nú árið 2005 er komið aftur að mannréttindum samkynhneigðra og á boðstólum er frumvarpapakki sem tekur vonandi á helstu málefnum. Tekið verður af skarið með að samkynhneigð pör geta fengið staðfesta sambúð skráða í þjóðskrá. Réttur til lífeyris, skattalegra meðferðar tekna og eigna verður óháð kynhneigð. Samkynhneigðir mega frumættleiða börn hvort heldur innanlands eða erlendis frá og lesbíur mega gangast undir tæknifrjóvganir. Það kostar um 1-1,5 milljónir að laga forrit Þjóðskrárinnar til að hægt sé að hægt sé að skrá samkynhneigða til jafns á við gagnkynhneigða – ættu að skella inn auka stafafjölda fyrir þá sem hafa of löng nöfn – annar kostnaður liggur ekki fyrir þar sem ekki liggur nákvæmlega fyrir kostnaður vegna tæknifrjóvgana eða töku fæðingarorlofs.

Það eru heilmikil réttindi sem fylgja þessum breytingum þar sem samkynhneigðir eru ekki lengur 90% þegnar heldur hafa þeir 100% réttindi til jafns við gagnkynhneigða. Svo langt sem það nær innan annarra stofnana en þjóðkirkjunnar. Forsætisráðherra telur ekki mögulegt að setja inn í lagagerðina ákvæði er heimili þjóðkirkjunni að gifta samkynhneigða, vilji verður að koma frá henni til að gifta samkynhneigða.

Og verður því hvert eitt og einasta trúfélag að taka þessi mál til skoðunar og komast að niðurstöðu til að ríkisstjórnin geti „lagt“ það á kirkjunnar menn að gefa saman samkynhneigða. Ríkiskirkjur hafa misst fyrir löngu trúverðugleika sinn og ríkisvaldið hefur engin not fyrir ríkiskirkjur – orð þessi eru komin frá mjög mætum manni, Sr. Hirti Magna Jóhannssyni. Engin þjóðkirkja hefur tekið af skarið og leyft giftingu samkynhneigðra. Förum alla leið og veitum samkynhneigðum rétt til jafns á við gagnkynhneigða hér á Íslandi. Ég tel kirkjunnar menn mega fara að takast á við þessa umræðu í stað þess að fela sig alltaf á bakvið lagabókstafi. Því þarf að breyta! Ég veit ekki hversu harðorð ég get verið en leyfum þeim að skríða undan steinum sem telja að samkynhneigðir eigi ekki að hljóta vígða sambúð. Drögum fram þá köldu klerka og uppskrúfuðu siðprúðu postula sem telja að ekki séu allir einstaklingar JAFNIR. Látum á það reyna. Gefum þeim ekki afsökunina að lögin kveði á um annað. Stígum skrefið til fulls og látum þá umræðu sem hefur tekið um 13 ár í sölum Alþingis komast til kirkjunnar. Samkynhneigðir mega ættleiða og eiga börn en vei því! að þeir hljóti trúarlega vígslu.

…..er spurningin samt: Hví?
Jesú Kristur fór ekki í manngreinarálit segir fríkirkjupresturinn og hefur sr. Hjörtur Magni framkvæmt athafnir fyrir samkynhneigða sem eru í eðli sínu ekki ólíkar hjónavígslu gagnkynhneigðra fyrir utan að uppá vantar viðurkenning löggjafans. Ef við eigum að vinna í anda stjórnarskrárinnar og uppfylla jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar afhverju er þá blessuðu þjóðkirkjunni ekki leyft slíkt hið sama? Afhverju getur kirkjan blessað skip, flugvélar og jafnvel jarðgöng en ekki hjónaband samkynhneigðra? Afhverju er ekki stigið skrefið til fulls og kirkjunni leyft að gefa saman samkynhneigða? Hví ekki?

Að lokum smá hugleiðing út í nóttina, með orðum sr. Hjartar Magna fríkirkjuprests í Reykjavík:
„Jesús Kristur kom ekki hingað á jörð til að setja á stofn algilt hjúskaparform karls og konu. Ef svo hefði verið hefði hann eflaust sjálfur gengið í hjónaband með dyggðugri konu og þess hefði eflaust verið getið skýrt og greinilega á síðum guðspjallanna. En það gerði hann ekki. Nokkuð hundruð árum síðar var hjónabandið stofnunarvætt af kirkjustofnuninni sem taldi sig hafa einkarétt á sannleikanum um Krist.“

Segjum sannleikann í þessum málum og leyfum kirkjunnar mönnum að komast að sínum sannleika líka.

tilvitnanir í sr. Hjört Magna Jóhannsson eru teknar af vef Fríkirkjunnar í Reykjavík: www.frikirkjan.is

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand