Ráðherra ber að taka vannýttar tegundir úr kvóta án tafar

Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra stendur nú frammi fyrir stórri ákvörðun. Ætlar hann að halda áfram á þeirri braut sem LÍÚ hefur markað fyrir sína umbjóðendur eða ætlar Jón að standa í lappirnar og feta þá braut sem Alþingi hefur ákveðið með lögum um fiskveiðistjórnun? Nú ríður á að eignarhaldið á fisknum í sjónum verði ekki endanlega flutt í hendurnar á sægreifum.

Í kjölfar þess að gerð var opinber skýrsla mín og Finnboga Vikars um brask í fiskveiðistjórnunarkerfinu höfum við fengið gríðarlega jákvæð viðbrögð við vinnu okkar alls staðar að úr þjóðfélaginu þó því fólki sé vissulega ekki skemmt yfir því sem þar kemur fram varðandi það hvernig búið er að byggja kerfið upp þannig að hægt sé að misnota það á kostnað þjóðarinnar. Á hinum endanum er svo fámennur klúbbur manna sem hefur verið afar óhress með þessa vinnu okkar, þ.e. útgerðarmenn sem hafa yfir kvóta að ráða. Æðsti presturinn þeirra, Friðrik J. Arngrímsson gekk hart fram gegn okkur í morgunútvarpi rásar 2 og sakaði okkur m.a. um fúsk og lélega þekkingu á hagfræði og að það þyrfti augljóslega að endurskoða kennsluna á Bifröst þar sem við stundum nám! Þá hafa einhverjir þeirra gengið svo langt að tala um að við höfum beðið með að koma fram með skýrsluna þar til Icesave málið væri í hámarki til þess að taka athyglina af ríkisstjórninni vegna Icesave!!!
Nauðsyn til takmörkunar ekki til staðar
Það sem er sameiginlegt með þeim fáu sem reynt hafa að verjast efni skýrslu okkar Finnboga er að þeir sjá ekkert athugavert við það að þeim nytjastofnum sem við fjölluðum um í skýrslu okkar sé haldið í kvóta, þrátt fyrir að það séu m.a. engar fiskifræðilegar ástæður til þess að það sé gert. Í lögum um stjórn fiskveiða stendur að sjávarútvegsráðherra skuli, að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunar, ákveða þann heildarafla sem veiða má úr einstökum nytjastofnum sem nauðsynlegt er talið að takmarka veiðar á. Af því leiðir að ef nytjastofn þykir vannýttur þá á ekki að vera ástæða til þess að halda honum inni í aflamarki (kvóta). Það er vart hægt að deila um að stofn eins og úthafsrækja hefur verið stórlega vannýttur undanfarin ár og er það byggt á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og því ber sjávarútvegsráðherra hreinlega að taka hann tafarlaust út úr kvóta. Að öðrum kosti er ráðherra ekki að sinna hlutverki sínu við að framfylgja vilja löggjafans, heldur er hann þá augljóslega að fylgja vilja hagsmunaaðila sem vilja hanga á þessum miklu hagsmunum.
Fer gegn markmiðum laganna
Þetta er einmitt einn meginpunkturinn í umræðunni. Hvers vegna hefur þessum tegundum verið haldið í gíslingu kvótahafanna sem hafa séð sér bestan hag í því að braska með heimildirnar, líkt og rakið var í skýrslu okkar? Í 2. málsl. 1. gr. laga um stjórn fiskveiða er fjallað um markmið laganna, en þar stendur að markmið þeirra sé að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu nytjastofnanna og að tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Af þessu má sjá að augljóst er að sú ráðstöfun að halda þessum tegundum áfram í kvóta fer jafnframt gegn markmiðum fiskveiðistjórnunarlaganna, enda er hvorki verið að stuðla að verndun né hagkvæmri nýtingu þeirra með þessari tilhögun. Líkt og rakið var í skýrslu okkar Finnboga hefur verið borin von að nálgast kvóta í úthafrækju og því fer það í bága við markmið laganna að treysta atvinnu og byggð í landinu, enda er aðilum beinlínis meinað að sækja þessi verðmæti þó þeir treysti sér til þess.
Nýtingin að fullu í forræði LÍÚ
Spurningin er jafnframt þessi: Á það að vera á forræði LÍÚ hvort nægilega hagkvæmt sé að nýta einstaka nytjastofna eða ekki og hverjir fá þá að nýta þá ef LÍÚ ákveða að stofnarnir verði nýttir á annað borð? Þarna má heldur ekki gleyma því að við erum að tala um sameign þjóðarinnar. Þrátt fyrir það ráða Friðrik J. og félagar hvað gert er með þessa svokölluðu sameign og skyldi engan undra af hverju þessir stofnar eru svo illa nýttir sem raun ber vitni þegar skýrsla okkar er skoðuð. Það er einfaldlega gríðarlega hagkvæmt (fyrir útgerðirnar, ekki þjóðina) að geta notað tegund eins og úthafsrækju sem skiptimynt til að búa til aukinn rétt til að leigja út dýrar tegundir eins og þorsk. Aðalatriðið er hins vegar að tegundin er vannýtt og þarf í því sambandi í raun ekki að karpa frekar um ástæðurnar fyrir því.
Hvað gerir Jón Bjarnason?
Við Finnbogi Vikar fórum á fund Sjávarútvegsráðherra fyrir um tveimur vikum síðan til að kynna honum efni skýrslunnar og hann taldi að um gríðarlega alvarlegt mál væri að ræða. Hann virtist augljóslega ekki hafa gert sér grein fyrir vandamálinu fyrir fund okkar, en sagðist ætla að skoða þetta vel. Það er í mínum augum algjörlega augljóst hvað þarf að gera. Ég er hins vegar farinn að gera mér grein fyrir því hvílíkt ógnarvald LÍÚ er og að þá vilja ekki margir styggja. Því reynir á dug Jóns Bjarnasonar og þor. Er Jón í stóli ráðherra til að vinna að hagsmunum þjóðarinnar og framfylgja lögum settum af Alþingi?
Spurningin er hvað Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra hyggst gera í þessu máli? Ætlar Jón að hafa hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi eða hagsmuni núverandi handhafa heimildanna? Það sem Jóni ber að gera lögum samkvæmt er skýrt, en spurningin er hvort hann ætlar að feta í fótstpor fyrirrennara sinna og hunsa augljós fyrirmæli löggjafans? Svar óskast hið snarasta Jón Bjarnason. Þjóðin hefur ekki efni á að bíða eftir að þú veltir fyrir þér hvort þú þorir að framfylgja lögum settum af Alþingi. Það er hlutverk framkvæmdarvaldsins að framkvæma lög, ekki framkvæma vilja LÍÚ.
Þórður Már Jónsson, viðskiptalögfræðingur, annar varaþingmaður Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi. www.thordurmar.blog.is

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand