Pistill um endurreisnina

Það er eitthvað svo “nýþvegið” við nýtt ár – samt horfir þjóðarsálin sífellt um öxl og sér mistök liðinna ára og svo væntingar til þess sem er nýhafið.

Það er eitthvað svo “nýþvegið” við nýtt ár – samt horfir þjóðarsálin sífellt um öxl og sér mistök liðinna ára og svo væntingar til þess sem er nýhafið. Þar sem eitthvað fer jafn hrapalega á hliðina og efnahagskerfi okkar gerði fyrir rúmu ári síðan þar hlýtur eitthvað að hafa verið gert rangt. Mistök af því tagi kalla á víðtækar breytingar – þær breytingar eiga upphaf sitt hvort tveggja í senn hjá almenningi og hjá stjórnvöldum. Breytingar kosta skipulag, vinnu og átök. Nú þegar hefur miklu verið komið í verk af ríkisstjórnarflokkunum og mikið fleira sem bíður framkvæmda, tilbúið á “teikniborðinu”. Þrátt fyrir traust á ríkisstjórninni, og þingmönnum stjórnarflokkanna þá bærist með sá ótti að stjórnarandstaðan muni þvælast fyrir. Ég er helst uggandi um lýðræðis- og stjórnarskrárumbætur og atvinnustefnu og það er ekki að ósekju því bæði Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hafa ítrekað staðið í vegi fyrir umbótum innan þessara málaflokka. Þar held ég að gamalgróin sérhagsmunastefna ráði töluvert miklu á kostnað þeirrar hlýju sem þeim ætti að vera bæði ljúft og skylt að rækja við þjóðina alla og landið.

Ég rétt tæpi á þeim atriðum sem ég hef spáð í rétt nýlega – á hundavaði gæti einhver sagt 🙂

Jafnaðarmönnum hefur lengi verið það ljóst að stjórnarskrána þarf að taka til endurskoðunar og koma þar inn ákvæðum sem hafa í ljósi aðstæðna öðlast trukkavigt – s.s. þjóðareign á auðlindum – og þar hlýtur stofnun stjórnlagaþings að vera upphafið.

Hugtakið “upp á borðið” þarf að vera virt – sérstaklega þegar kemur að fjármálum og fjármögnun stjórnmálaflokka og –manna. Slíkt er stór liður í því að endurheimta traust almennings og svo að öllum geti verið það ljóst hverju sinni – með hliðsjón af vinnu og mögulegum styrkjum – fyrir hverja stjórnmálamenn vinna.

Þjóðaratkvæðagreiðslur þurfa líka að fá sína umfjöllun, ramma og sess sem sá stuðningur við lýðræði þjóðarinnar að fá að eiga síðasta orðið um mörg mikilvæg mál sem hana varða.

Ég held samt að í þessari stuttu upptalningu sé það atvinnustefnan sem ég hef mest velt fyrir mér undanfarið – enda er það ljóst að till þess að takmarka fólksflótta þarf að horfa með verulega opnari huga til atvinnustefnu Íslands til framtíðar en hefur verið vani síðustu ára. Þegar ég segi með opnum huga þá á ég við það að það þarf að gera margt í senn – að gera nýjum atvinnugreinum kleift að ryðja sér til rúms, að ráðast í þær framkvæmdir sem mögulegar eru og svo síðast en ekki síst að endurskoða suma þá atvinnuhætti sem hér hafa viðgengist, og hösluðu sér helst völl á góðæristímanum. Þarna hljótum við kannski helst að fá bágt fyrir það hversu mikla atvinnu við höfum flutt úr landi og svo hitt – hversu mikið við höfum flutt inn af vöru sem við gætum framleitt a.m.k. eitthvað af hér heima.

Á góðæristímanum var um of auðugan garð að gresja í fjölda ársstarfa – í dag er staðan önnur og helber nauðsyn að taka slíkt til endurskoðunar. Það eiga eftir að verða skiptar skoðanir um slíkar breytingar og hagsmunaaðilar munu vilja koma sínum rökum að – sem eðlilegt er að vega og meta. Slíkt þarf þó að vera í samræmi við almenningsréttlæti en ekki sérréttlæti þeirra fáu sem öskra hæst og eiga mest.

Árið 2010 ætti að verða ár “endanlegs” uppgjörs við hrunið og jafnframt árið sem stjórnvöld og almenningur flykkja sér um styrkara áframhald allsherjar endurreisnar í ljósi þess lærdóms sem eftir liggur. Ég tel að til þessarar endurreisnar sé enginn flokkur betur fallinn en Samfylkingin. Ástæðan er sú stefna jafnaðarmanna – sem er reiðubúin til jafnvel erfiðustu breytinga til hagsbóta almennings og framtíðar en kappkostar ekki að taka framyfir sérhagsmuni þeirra fáu fjársterkustu.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand