Á nýju ári er gott að horfa til baka og líta yfir farinn veg, sjá hvað hefur verið afrekað og hvað hefur mistekist, hverju við getum verið stolt af og úr hverju við þurfum að bæta.
Árið 2009 var að mörgu leiti afdrifaríkt, gengið var nokkuð óvænt til kosninga og flokkur jafnaðarmanna, Samfylkingin, varð stærsti flokkur landins. Vinstri stjórn var mynduð og uppgjörið við hrunið og afleiðingar þess hófst. Það var að vitað fyrirfram að þessi ríkisstjórn ætti langa og erfiða daga fyrir höndum við endurreisn landsins og var það líka vitað að margar af þeim ákvörðunum sem að teknar yrðu, yrðu ekki vinsælar meðal almennings. Gagnrýnisraddir hafa verið háar og oft hefur því verið fleygt að ekkert hafi verið gert, engu hafi verið komið í verk og ekkert sé breytt. Þó hafa ráðherrar og þingmenn setið dag og nótt og unnið að því að koma landinu okkar uppúr þessari kreppu sem að sérhagsmunastefna og einkavinavæðing fyrri valdhafa olli. Mörgu hefur verið áorkað og margt hefur breyst til batnaðar, en þó er mikið verk enn óunnið. Það er þó ekki úr vegi að skoða hvað það er sem að hefur breyst:
Árið 2009 sóttu Íslendingar um aðild að ESB, en það er eitthvað sem að hefur verið á stefnuskrá Samfylkingarinnar frá stofnun. Verðbólga lækkaði niður í 7,5% og hefur ekki verið nær verðbólgumarkmiðum Seðlabankans í rúmlega ár. Stýrivextir lækkuð niður í 10% úr þeim 18% sem að þeir voru í stjórnartíð Davíðs Oddsonar í Seðlabankanum. Fjárframlög til nýsköpunar voru aukin og átak hófst til að stemma stigu við langtíma atvinnuleysi ungs fólks, einnig voru ákvæði um ábyrgðamenn á lánum LÍN afnumin, en það ætti að auðvelda ungu fólki aðgengi að námi. Gengi krónunnar náði jafnvægi og var jöfnuður aukinn í skattkerfinu, einnig var halli ríkissjóðs minnkaður um 100 milljarða. Efnahagsmál voru loks sameinuð undir einu ráðuneyti og skipaður var sérstakur saksóknari til rannsóknar á bankahruninu. Mannréttindamálin urðu heldur ekki útundan á árinu og má þar nefna að kaup á vændi voru bönnuð og mansalsáætlunin samþykkt, einnig var þjónusta við langveik börn efld til muna.
Árið 2009 voru bankarnir endurreistir, eftirlauna-ruglinu var hætt, 124 frumvörp urðu að lögum og fundaði Alþingi Íslendinga 191 sinni.
Það skal því enginn halda því fram að sitjandi ríkisstjórn hafi setið með hendur í skauti, þessi upptalning hér fyrir ofan er langt frá því að vera tæmandi, og ótal mörg önnur verkefni bíða þingmanna. Ég er þess þó fullviss að við stjórnvölin sé fólk sem að sé starfi sínu vaxið, og að það sé í raun eina fólkið sem sé treystandi til þess að snúa vörn í sókn, með hagsmuni allra landsmanna að leiðarljósi.