Ótti stjórnvalda við lýðræði

Um þessar mundir eru áhugamenn um lögfræði að upplifa spennandi tíma. Í fyrsta sinn í 60 ára sögu lýðveldisins fær þjóðin að ákveða hvort frumvarp frá Alþingi öðlist lagagildi eða ekki. Hér verður ekki rætt um efni frumvarpsins eða hvort ákvörðun forseta Íslands um að synja lögunum staðfestingar var rétt eða ekki heldur hver grundvöllur 26. gr. stjórnarskrárinnar er. Um þessar mundir eru áhugamenn um lögfræði að upplifa spennandi tíma. Í fyrsta sinn í 60 ára sögu lýðveldisins fær þjóðin að ákveða hvort frumvarp frá Alþingi öðlist lagagildi eða ekki. Hér verður ekki rætt um efni frumvarpsins eða hvort ákvörðun forseta Íslands um að synja lögunum staðfestingar var rétt eða ekki heldur hver grundvöllur 26. gr. stjórnarskrárinnar er.

Strax í kjölfar ákvörðunar forsetans um að synja fjölmiðlalögunum staðfestingar var farið að tala um neitunarvald forseta og að hann hefði stigið skref sem menn hefðu talið óhugsandi að yrði nokkurn tímann stigið. Erfitt er að átta sig á því hvers vegna talið var óhugsandi að málskotsréttinum í 26. gr. yrði beitt, orðalag ákvæðisins er skýrt auk þess sem höfundar stjórnarskrárinnar hefðu ekki sett ákvæðið inn nema þeir hefðu talið ástæðu til þess. Megindrættir stjórnskipulags landsins eru ákveðnir í stjórnarskránni og er henni ætlað að standa af sér tíð veðrabrigði stjórnmálanna og stundarátök þjóðfélagsaflanna. Stjórnarskráin hefur að geyma helstu grundvallarreglur um stjórnskipulag ríkisins og er lýðræðið meðal helstu grundvallarreglna.

Kenningin um að uppspretta ríkisvaldsins sé hjá þjóðinni sjálfri er ótvíræður grundvöllur lýðveldisstjórnarskrárinnar frá 1944 og lýðveldisstofnunarinnar sjálfrar. Stjórnarskráin og stjórnarformið, sem valið var árið 1944, bera vitni þeirri skoðun að ríkisvaldið eigi upptök sín hjá þjóðinni. Sú stefna lýsir sér meðal annars í kjöri þjóðhöfðingja og þings í almennum kosningum og kemur einnig fram í því að tiltekin málefni skal bera undir þjóðaratkvæði, þ.e. um lausn forseta frá embætti (sbr. 3. mgr. 11. gr. stjórnarskrár) og um breytingu á kirkjuskipan ríkisins (sbr. 2. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar). Þessi grundvallarregla kemur einnig skýrlega fram í 26. gr. stjórnarskrárinnar þar sem þjóðinni er fært hið endanlega vald yfir því hvort tiltekin lög fái að halda gildi sínu eða falla úr gildi. Ákvæðið endurspeglar því lýðræðið í sinni hreinustu mynd en orðið lýðræði þýðir einfaldlega að lýðurinn (þ.e. þjóðin eða almenningur) ráði og orðið lýðveldi að valdið sé hjá lýðnum.

Þessum kjarna ákvæðisins virðast stjórnarherrarnir kjósa að gleyma þegar þeir tala um að vegið sé að þingræðinu. Þeir kjósa að gleyma því að þingið fær vald sitt frá þjóðinni og það er þjóðin sem hefur hið endanlega vald, ekki þeir. Ýmsum þjóðum hefur þó tekist að leggja löggjafarvaldið í hendur þegna sinna í ríkara mæli en hér tíðkast án hörmulegra afleiðinga. Má sem dæmi nefna að samkvæmt dönsku stjórnarskránni (nánar tiltekið 1. mgr. 42. gr. hennar) getur þriðjungur þingmanna farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem samþykkt hafa verið af þjóðþinginu. Forsætisráðherra Danmerkur ber skylda til að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvarpið innan 18 daga frá því að honum berast hin nýsamþykktu lög frá þinginu og frestast gildistaka þeirra á meðan.

Þjóðaratkvæðis gætir einnig í ríkara mæli við löggjöf ýmissa ríkja en hefð er fyrir hér á landi. Má þar nefna Sviss sem og Kanada og ýmis önnur samveldislönd Breta. Heimild til þjóðaratkvæðis er í stjórnlögum ýmissa ríkja og tíðkast mikið í einstökum fylkjum Bandaríkjanna. Er stundum stjórnarskrárbundið að almenn atkvæðagreiðsla kjósenda skuli fara fram um tiltekin lög eða lagafrumvörp. Í öðrum tilfellum veita stjórnarskrár skilorðsbundna heimild til þjóðaratkvæðis, fá ákveðnum aðilum, t.d. ákveðnum hópi þingmanna eða tilteknu hlutfalli kjósenda, rétt til þess að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um nánar tilgreind lög eða lagafrumvörp.

Einnig er rétt að benda á þá staðreynd að þó að þjóðaratkvæðagreiðsla hafi aldrei átt sér stað eftir lýðveldisstofnunina eru dæmi um að Alþingi hafi með þingsályktun samþykkt að kanna hug kjósenda til ákveðinna löggjafarmálefna, sbr. þjóðaratkvæðagreiðslur um bannlögin árið 1908 og aftur árið 1933 og um þegnskylduvinnu árið 1916. Löggjafinn tók fullt tillit til úrslita slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í kjölfar ákvörðunar forseta um að beita málskotsréttinum fóru að heyrast raddir um að ef til vill væri tímabært að breyta 26. gr. stjórnarskrárinnar og taka það vald sem ákvæðið veitir þjóðinni frá henni. Slík ákvörðun yrði raunveruleg aðför að lýðræðinu þar sem örfáum mönnum yrði gefið það vald að geta misbeitt þingræðinu eins og reynt var í vor með fjölmiðlafrumvarpinu. Ofangreind dæmi sýna það og sanna að einstaka þjóðaratkvæðagreiðslur eru til þess fallnar að styrkja lýðræðið þar sem upphaflegum valdhafa, þjóðinni, er fengið úrskurðarvald yfir þeim málum sem hana varða. Með því er verið að fela þjóðinni að bera ábyrgð á því samfélagi sem hún býr í sem hlýtur á endanum að stuðla að upplýstara þjóðfélagi þar sem þegnarnir eru meðvitaðir um mikilvæg málefni.

Mín spurning er því þessi: Af hverju óttast stjórnvöld lýðræðið?

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand