Ólög Davíðs og farsinn í kringum þau

Sjálfstæðisflokkurinn gerði nokkrar tilraunir til að drepa umræðunni um fjölmiðlafrumvarpið á dreif. Aumkunarverðasta tilraunin var gjörningur fyrrverandi oddvita minnihluta sjálfstæðismanna í nokkra mánuði fyrir og eftir seinustu borgarstjórnarkosningar þegar hann reyndi að draga athygli frá málinu með því dylgja enn og aftur um meint tengsl Jóns Ólafssonar og R-listans. Birni Bjarnasyni varð ekki kápan úr því klæðinu enda tilraun hans dauðadæmd í upphafi líkt og tilburðir hans í borgarmálum hafa almennt verið hingað til. Stjórnmál seinustu vikna hafa verið afar lífleg svo ekki sé meira sagt – það er jafnvel hægt að líkja þeim við farsa. Þar hefur fjölmiðla- frumvarp Davíðs Oddssonar verið hvað mest til umræðu. Í fyrstu var ríkisstjórninni einungis leyft að lesa skýrslu fjölmiðlanefndarinnar og henni haldið leyndri fyrir Alþingi. Því næst var hluta skýrslunnar lekið til fjölmiðla sem segir eflaust talsvert um hið meinta traust sem ríkir á milli ríkisstjórnarflokkanna þessa dagana. Samhliða því lagði forsætisráðherra fram frumvarpið sitt, en Davíð hefur nú lagt fram nokkrar útgáfur af fjölmiðlafrumvarpinu. Í öll skiptin hefur hann dásamað það, sagt að sátt ríkti um frumvarpið milli stjórnarflokkanna og ennfremur að það þyrfti ekkert að breyta því. Undir þetta hefur tekið tilvonandi forsætisráðherra og núverandi formaður Framsóknarflokksins, Halldór Ásgrímsson.

Í þessum farsa hefur Davíð einnig hjólað í forseta lýðveldisins og hent fram fullyrðingum í svokölluðum stríðsfyrirsögnum um vanhæfni forsetans – hann hefur jafnframt skrifað grein í Morgunblaðið um það. Þess á milli hefur hann talað um það að hann hafi verið að drekka kakó, hvað veðrið væri gott og það að hann og Ólafur Ragnar hefðu spilað badminton þegar þeir voru yngri.

Sjálfstæðisflokkurinn gerði nokkrar tilraunir til að drepa umræðunni um fjölmiðlafrumvarpið á dreif. Aumkunarverðasta tilraunin var gjörningur fyrrverandi oddvita minnihluta sjálfstæðismanna í nokkra mánuði fyrir og eftir seinustu borgarstjórnarkosningar þegar hann reyndi að draga athygli frá málinu með því dylgja enn og aftur um meint tengsl Jóns Ólafssonar og R-listans. Birni Bjarnasyni varð ekki kápan úr því klæðinu enda tilraun hans dauðadæmd í upphafi líkt og tilburðir hans í borgarmálum hafa almennt verið hingað til.

Fylgið hrynur af stjórnarflokkunum
Fréttablaðið hefur birt skoðanakannanir sem sýna að stuðningur við ríkisstjórnarflokkanna tvo hefur hríðfallið. Þessum skoðanakönnunum ber þó að taka með fyrirvara af því að svarhlutfallið í þeim hefur verið heldur lágt. Blaðið hefur einnig birt kannir sem sýna að óánægja með fjölmiðlafrumvarpið hafa aukist eftir því sem liðið hefur á farsann. Það verður forvitnilegt að sjá hvað kemur útúr nýjum Þjóðarpúlsi Gallups sem birtur verður um mánaðarmótin.

Það sem hefur verið hvað athygliverðast við þessar skoðannakannir Fréttablaðsins eru viðbrögð stjórnarþingmannanna eins og t.d. Sigríðar Önnu Þórðardóttur sem verður umhverfisráðherra 15. september ef ríkisstjónarsamstarfið heldur. Hún sagði nýverið að almenningur hefði ekki forsendur til að svara því hvort að það styddi fjölmiðlafrumvarpið eða ekki. Maður fékk þá á tilfinninguna að tilvonandi umhverfis- ráðherra væri að segja að hinn almenni borgari hefði ekkert vit á þessum málum, heldur væru það einungis alþingismenn sem gætu kveðið útúr mál eins og þessi. Ég ætla samt sem áður að vona að þetta hafi ekki verið það sem þingmaðurinn hafi verið að meina með orðum sínum. Viðbrögð þingflokksformannanna, Einars K. Guðfinnssonar og Hjálmars Árnasonar, við nýjustu könnun Fréttablaðsins um fylgi stjórnmálaflokkanna voru á þá leið að niðurstaða þeirra kom þeim félögum ekki á óvart því umræðan hafi verið einsleit og stjórnarflokkarnir hafi mætt mikilli andstöðu.

Við vitum auðvitað öll að það er heljarinnar samsæri í gangi gegn ríkisstjórnarflokkunum þar sem þjóðin hefur ekki vott af sjálfstæðri hugsun og er heilaþveginn dag frá degi af fréttastofum í eigu heimsveldisins Baugs í samvinnu við Samfylkinguna, Vinstri græna og Frjálslynda. Eða er heimsmynd okkar kannski ekki svona einföld?

Ósjálfstæði þingmanna Framsóknarflokksins algjört
Að öllum líkindum verða greidd atkvæði um fjölmiðlafrumvarpið í dag og það verður athyglisvert að sjá hvort að þingmenn Framsóknarflokksins þori að taka svona eins og einu sinni sjálfstæða ákvörðun. Það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með þeim annars ágæta flokki seinustu vikur og þá helst formanninum sem hefur talað um það væri eining um málið innan Framsóknarflokksins. Samt sem áður er einn þingmaður á móti frumvarpinu, annar er ekki viss hvort hann styði það, borgarfulltrúar flokksins eru á móti, það gerir ungliðahreyfing flokksins einnig sem og flokksfélög víða um land. Aukinheldur var miðstjórnarfundi sem átti að vera um helgina frestað af öllum líkindum út af hinu mjög svo umdeilda fjölmiðlafrumvarpi. Halldór hefur eflaust ekki þorað að mæta hinum almenna flokksfélaga á þessum fundi og verja athafnir ríkisstjórnarinnar seinustu misseri.

Þá er spurning hvort að yfirlýsingar Péturs H. Blöndals í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur á Bylgjunni í gær hreyfi eitthvað við þingmönnum Framsóknarflokksins, en í þættinum fullyrti Pétur að snemma á þessu ári hafi verið rætt um það innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins að eigandi Norðurljósa væri orðinn of eignamikill og eitthvað yrði að gera áður en það yrði um seinan. Pétur sagði ennfremur að frumvarpið hefði verið til umræðu innan þingflokksins á sama tíma. Þetta segir manni einfaldlega það að vinna fjölmiðlanefndarinnar og skýrslan sem nefndinn vann hafi ekki verið neitt annað en yfirvarp og Davíð hafi fyrir löngu verið búinn að ákveða þetta án þess að tala við forystu Framsóknarflokksins.

Ég vona svo sannarlega að þingmenn Framsóknarflokksins vakni úr þessum draumkennda farsa og sjái til þess að þessi ólög Davíðs, sem svo sannarlega eru ekki almenn heldur beint gegn ákveðnu fyrirtæki og aðilum, verði ekki samþykkt á Alþingi í dag.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand