Óhreinu pokahornin í alþjóðasamskiptum

Getur verið að hræsni eigi þátt í að skapa jafnvægi í alþjóðasamskiptum? Spyr Eva Bjarnadóttir framkvæmdarstjóri Ungra jafnaðarmanna í grein dagsins. Fídel Kastró vandar Evrópusambandinu ekki kveðjurnar eftir að sambandið aflétti viðskiptabanni við eyríkið á dögunum. Í pistli í ríkisrekna miðlinum Granma sakar hann ESB um hræsni fyrir að ætla að auka samskipti við Kúbu eftir að nýr forseti tók við á sama tíma og verið sé að ræða hertar aðgerðir gagnvart ólöglegum innflytjendum í Evrópu. Samþykki ESB reglugerðina eiga ólöglegir innflytjendur það á hættu að dúsa 18 mánuði í fangelsi eða vera sendir aftur til upprunalands síns. Vandamálin sem innflytjendur flýja í heimalöndum þeirra, segir Fídel, eru afleiðing nýlendustefnu Evrópu og kapítalisma og því ætti Evrópa ekki að refsa þeim. Þá segir hann ákvörðun ESB í raun ekki hafa nein áhrif á efnahag landsins þar sem viðskiptabann Bandaríkjanna ráði þar mestu.

Upphaflega fór ESB í aðgerðir gegn Kúbu árið 2003 í kjölfar þess að 75 manns voru fangelsaðir fyrir að vinna gegn ríkisstjórninni og þrír líflátnir fyrir að reyna að komast úr landi með ólöglegum hætti. Fídel afgreiðir í grein sinni þá litlu staðreynd með hvað-með-það-rökum og gerist sekur um sömu hræsni og hann sakar aðra um.

Bandaríkjastjórn segist ekki ánægð með ákvörðun ESB og heldur sömu harðlínustefnu og áður gagnvart Kúbu. Upprunalega má rekja deilu Bandaríkjanna og Kúbu til nýlendustefnu Bandaríkjamanna. Deilan breyttist síðar í kaldastríðsátök en upp á síðkastið hefur gagnrýni BNA beinst að mannréttindabrotum og einræðisstjórn á Kúbu, eynni þar sem Bandaríkjastjórn rekur hið alræmda Guantanamó-fangelsi fyrir meinta hryðjuverkamenn. Óhreinu pokahornin leynast víða.

Er hræsni leiðarstefið?

Af þessum alþjóðlegu samskiptum að dæma, og svo ótal mörgum öðrum, mætti draga þá ályktun að samskipti milli ríkja einkennist fyrst og fremst af hræsni og uppgerðarsakleysi. Að allir viti allt en enginn viðurkenni neitt. Samskipti Vesturlanda við Íran, Írak og Kína eru annað gott dæmi. Bandaríkin, sem menga einna mest, veiða flesta hvali, eru með einna hörðustu innflytjendastefnuna og eru með herskáustu ríkjum, eru enn annað.

Ef til vill skapar hræsnin og hljóðlát, almenn viðurkenning á henni jafnvægi í alþjóðasamskiptum. Ef það er alkunna að allir hafi eitthvað óhreint í pokahorninu en leyfist þó samt að gagnrýna aðra fyrir nákvæmlega það sama skapast rými til þess að benda á vandamálin. Það hindrar aftur á móti nauðsynlegar úrbætur ef hægt er að benda á sams konar brot í því ríki sem setur fram gagnrýnina og þannig viðhelst ríkjandi ástand, þótt að sjálfsögðu séu fleiri þættir sem skipta máli í því samhengi, til dæmis auðlindir og viðskipti.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand