Ný starfstétt: ÞENSLUBANAR

Ungir jafnaðarmenn í Reykjavík sendu, eins og frægt er orðið, forsetaembættinu fyrirspurn fyrir skemmstu þar sem beðið var um upplýsingar um kostnað við veislu sem haldin var til heiðurs Þýskalandsforseta á veitingastaðnum Perlunni. Til að fyrirbyggja misskilning þá skal tekið fram að með þessari aðgerð vorum við ekki að halda því fram að forsetinn megi ekki halda veislur eða heiðra erlenda gesti. Ungir jafnaðarmenn í Reykjavík sendu, eins og frægt er orðið, forsetaembættinu fyrirspurn fyrir skemmstu þar sem beðið var um upplýsingar um kostnað við veislu sem haldin var til heiðurs Þýskalandsforseta á veitingastaðnum Perlunni. Til að fyrirbyggja misskilning þá skal tekið fram að með þessari aðgerð vorum við ekki að halda því fram að forsetinn megi ekki halda veislur eða heiðra erlenda gesti. Það er vissulega hlutverk hans sem forseti að sýna gestum okkar þá gestrisni sem hefð er fyrir hjá þjóðinni.

Getum við fengið reikninginn?
Við erum ekki heldur að halda því fram að þessi veisla hafi endilega verið fram úr hófi dýr. Við ákváðum einungis að grípa tækifærið núna þegar matseðill og gestalisti fyrir þessa tilteknu veislu var birtur í fjölmiðlum og undirstrika mikilvægi þess að fyllsta aðhalds sé almennt gætt í slíkum útgjöldum. Við teljum jafnframt að brýn þörf sé fyrir umræðu um forgangsröðun nú þegar hætt er við ýmsar framkvæmdir og fyrirheit gefin um niðurskurð á útgjöldum ríkisins. Því höfum við beðið um að reikningurinn sé birtur svo almenningur geti fengið hugmynd um kostnaðinn sem er samfara slíkum veisluhöldum.

Í lýðræði gegna kjósendur mikilvægu eftirlitshlutverki
Það er í samræmi við upplýsingalögin og sjálfsagður réttur okkar sem skattborgara að geta fengið að vita hvernig almannafé er varið. Kjósendur hljóta að gera mjög miklar kröfur til opinbera embættismanna um að þeir séu hagsýnir í allri skipulagningu og við ákvörðun útgjalda.

Við lögðum í fyrirspurn okkar til forsetaembættisins ríka áherslu á það að útreikningar sem birtast munu í svari þess endurspegli kostnaðinn eins og ef venjulegur einstaklingur stæði fyrir henni. Öll gjöld sem lögð eru á áfengi séu innifalin og að endalegur reikningur sé í engu fegraður heldur þoli gaumgæfilega skoðun. Það gæti svo verið áhugavert ef embættið tæki það svo upp hjá sjálfu sér að útskýra við hvað er miðað þegar stærð slíkra veislna er ákveðin og hverjum skuli boðið til þeirra.

Við erum vinnuveitandinn
Víða erlendis eru menn duglegari að þrýsta á um sparnað hjá hinu opinbera. Þar eru embættismenn og stjórnmálamenn sífellt að reyna að sýna fram á að þeir leiti allra leiða til að spara. Á Íslandi virðist þessu oft öfugt farið. Hér þykir mönnum það sumum hálfgerður dónaskapur að spyrja um hvað hlutirnir kosti og kjörnir fulltrúar okkar láta sér það oft í léttu rúmi liggja þótt keyrt sé endurtekið fram úr áætlunum.

Meginreglan er sú að að einstaklingurinn fer betur með peningana sína en hið opinbera. Í fjármálaheiminum eru notuð hugtök eins og: „stupid money“ og „smart money“. Allt of oft er ríkið að eyða „heimsku fé“ með því að fara inn á svið þar sem það á ekki heima eða með því að forgangsraða vitlaust og eyða í óþarfa.

Það er frumeðli báknsins að það blæs stöðugt út
Hjá ríkinu starfar margt gott fólk og stjórnmálamenn eru margir ágætir og vel meinandi. Það er hinsvegar ekki hluti af eðli ríkiskerfisins að skera niður eigin starfsemi. Nefndir, embætti og stofnanir sem einu sinni hafa verið settar á fót eru mjög sjaldan lagðar niður og þá gjarnan alltof seint þegar að engin verkefni eru eftir eins og dæmi Löggildingarstofunar sýnir.

Tilgangslaus apparöt geta lifað óáreitt innan kerfisins langdvölum saman því það er einfaldlega ekki nógur hvati til að leita þau uppi og leggja niður. Menn vilja ekki að rugga bátnum og vita kannski ekki almennilega hver ber ábyrgðina. Byggingarnefnd Þjóðleikhússins er kannski eitt óhugnalegasta dæmið af þeim málum sem komið hefur upp á síðustu árum en ef miðað er við athugun á fjölgun nefnda á vegum ríkisins þá má vænta þess að fleiri svartir sauðir leynist í skrifræðinu.

Það er sama hvaðan gott kemur
Í Danmörku hefur verið sett á stofn sérstök tímabundin nefnd sem hefur það eina verkefni að skera niður ýmiskonar óþarfa apparöt og nefndir sem orðið hafa til í valdatíð fyrri ríkisstjórna. Það er reyndar ríkisstjórn hægri flokkanna í Danmörku sem setti nefndina á fót og báknið hafði m.a. blásið mikið út í langri stjórnartíð jafnaðarmanna, en það gerir þetta frumkvæði auðvitað engu minna merkilegt. Það er bara einföld staðreynd að völd hafa vond áhrif á menn til lengdar. Þeim finnst með árunum þeir eiga ýmsan munað skildan fyrir „fórnir“ sínar og verða of þreyttir til að skera niður mistök fortíðarinnar.

Þarf að sporna við þenslu?
Því spáð að miklar verkframkvæmdir muni valda þenslu á næstu misserum og skilaboð berast frá stjórnmálamönnum um að skera þurfi niður á ýmsum sviðum til að koma í veg fyrir að hagkerfið ofhitni. Sem jafnaðarmanni sem lengi hefur sviðið að horfa upp á illa skipulagt heilbrigðiskerfi og afskipt menntakerfi þá er ekki laust við að maður fái smá sting í magann við þessar yfirlýsingar. Á nú enn og aftur að þrengja að undirstöðum jafns og heilbrigðs samfélags með því að draga úr fjármagninu til þessara mála. Skilja menn ekki að það er menntunin sem tryggir börnunum okkar góða framtíð og heilbrigðiskerfið sem gætir hinna mestu lífsgæða sem er heilsa okkar.

Væri ekki rétt að líta í aðrar hirslur ríkiskassans í þetta sinn? Ef við gerðum átak í að skera niður risnu, ferðakostnað, fundakostnað, starfslokasamninga o.s.frv. gæti það skilað okkur milljónum ef ekki milljörðum sem ekki þyrfti að taka af grunnþjónustu ríkisins sem er svo mörgum mikilvæg.

Ráðum þá þenslubana!
Ég er með hugmynd að einni mögulegri útfærslu á slíku átaki. Ég legg til að við ráðum til tímabundinna starfa sérstaka þenslubana. Þenslubanarnir þyrftu ekki að gæta sérhagsmuna eins og ef við létum einhverjum innan kerfisins þetta verkefni eftir og eina hvatning þeirra væru hin ríflegu árangurstengdu laun sem þeim yrðu greidd. Þeim yrði sleppt lausum innan kerfisins og uppálagt að leita uppi verkefni og útgjaldaliði sem standast ekki nánari skoðun. Loks myndu þeir leggja fram tillögur um þau ónauðsynlegu ríkisbatterí sem loka má fyrir.

Hver króna sem þannig myndi sparast yrði sannarlega dýmætari en aðrar. Ég legg til að við endurnýtum slagorðið, „Báknið burt“ sem sjálfstæðismenn héldu eitt sinn á lofti en hafa fyrir löngu hent fyrir róða. Og þegar báknið er á burt þá mun þenslunni verða banað um leið.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið