Nú fær Ísland sér kaffi og vaknar almennilega

Góðan daginn Ísland. Það er erfitt að vera vakin harkalega, án þess að vera tilbúin til að takast á við það sem dagurinn ber með sér. Þannig líður okkur núna. Slæmu fréttirnar berast eins og einhver fái greitt fyrir að búa þær til, segir Anna Pála Sverrisdóttir, formaður UJ í grein dagsins.

Góðan daginn Ísland.
Það er erfitt að vera vakin harkalega, án þess að vera tilbúin til að takast á við það sem dagurinn ber með sér. Þannig líður okkur núna. Slæmu fréttirnar berast eins og einhver fái greitt fyrir að búa þær til.

Í dag skrifa ég ekki bara um að það eina í stöðunni sé að halda þétt hvert utan um annað og sjá tækifærin í stöðunni. Það er reyndar mjög mikilvægt. En við almenningur erum miklu reiðari en það. Ég á ekki penari orð en þetta: Andskotinn!

Landið sem við erfum
Byrjum á að tala um hvernig hlutirnir horfa við núna. Ríkissjóður, einnig þekktur sem íslenska þjóðin, kominn  í skuldir upp fyrir haus.Við heyrum um sífellt fleiri ógeðfelldar eða einfaldlega heimskulegar ákvarðanir sem voru teknar í viðskiptalífinu. Raddir sem áður píptu um að styrkja opinbera geirann, Fjármálaeftirlit og Samkeppniseftirlit, eru orðnar að röddum skynseminnar sem betur hefði mátt hlusta á fyrr. Það gerir ábyrgð hinna svokölluðu útrásarvíkinga ekki minni, eins og Ungir jafnaðarmenn hafa bent á. Orðspor Íslendinga er í svaðinu.

Það er engin þörf á að rekja betur ástandið á Íslandi í dag. Ég vil tala um það sem hefur verið að og hverju mér finnst við þurfa að breyta í hugsunarhætti.

Það sem hefur vantað á Íslandi er að hugsa til lengri tíma. Að skilja mikilvægi þess að byggja húsið sitt ekki á sandi. Að skilja að hagvöxtur þarf að vera hægur og stöðugur því annars fylgja slæmir vaxtarverkir og sveiflur. Skilja að það er ekki hlutverk stjórnmálanna að sjá fyrir reglulegum patentlausnum fyrir atvinnulífið (svo hægt sé að benda á þær í næstu kosningabaráttu) heldur að búa til jarðveginn sem atvinnuuppbygging sprettur úr með áherslu á menntun, nýsköpun og sjálfbærni í öllum skilningi þess orðs. Að það er hlutverk stjórnmálanna og hins opinbera að setja reglur og sjá til þess að þeim sé framfylgt.

Hættum að tala um „sérstöðu Íslands“og ímynda okkur að allt önnur lögmál gildi hjá okkur en annars staðar. Hlustum á gagnrýni og metum hvort hún sé réttmæt en bregðumst ekki við með hroka og látum sem allt sé í lagi þegar það er það ekki. Almannatengslavitleysunni nenni ég ekki lengur. Það eru léleg almannatengsl þegar upp kemst um síðir að gefnar voru misvísandi upplýsingar. Þarna eiga fyrirtæki sök en líka ríkisstjórnin sem á pínlegan hátt beindi athygli heimsins  að því að eitthvað mjög slæmt væri í uppsiglingu í íslenskum efnahag með því að fara sérstakar ferðir til útlanda til að láta vita að ekkert væri að.

Ofan á allt sem hefur gerst að undanförnu hefur Ísland sýnt rækilega fram á hversu ungt og vanþróað lýðræði er hér, með þeirri staðreynd að enginn hefur axlað ábyrgð! Enginn segir af sér eða viðurkennir einu sinni að hafa gert mistök. Mun Sigríður Ingibjörg Ingadóttir virkilega komast í sögubækurnar sem eina manneskjan sem sá sóma sinn í að segja af sér í mestu efnahagskreppu seinni tíma á Íslandi?

Gildin sem við þurfum
Nú beinum við reiðinni í þann farveg að byggja upp, lærum af reynslunni og endurhugsum.

Þetta er svona einfalt: Við höfum byggt á röngum gildum og þurfum að endurskoða þau. Við þurfum að halda á lofti gildum og gagnsæi sem felast í alvöru lýðræði og sem kunningjaspilling á Íslandi, græðgi, hroki og vanvirðing fyrir þekkingu hafa fengið að valta yfir.

Skiptum hrokanum út fyrir virðingu. Stöndum saman um að jafna kjör fólks og höfnum pólitík síðustu ríkisstjórnar sem fól í sér að sundra okkur með auknum ójöfnuði. Hættum bulli á borð við pólitískar skipanir í dómarastöður og leggjum áherslu á hæfni fólks til starfa frekar en tengslanetið. Við þurfum meiri áherslu á og virðingu fyrir sérþekkingu. Virðingu fyrir og stuðning við hverja einustu manneskju til að láta ljós sitt skína.

Norræn velferðarsamfélög sem ég og aðrir jafnaðarmenn í heiminum horfum til sem þeirra best heppnuðu, voru einmitt byggð á þess háttar gildum. Þau hafa alið af sér mannvænlegri og þar með öruggari, sterkari samfélög sem standast áföll vel. Þannig vil ég sjá landið okkar í framtíðinni. Frjálshyggjuna út, félagshyggjuna inn. Þannig verður okkar samfélag sterkara.

Einn sterkan, takk

Í nútíðinni vil ég sjá aðgerðir. Nú þarf að skella í sig kaffi, vakna almennilega og takast á við verkefni dagsins. Eins og stendur eru þau nær óbærilega erfið og það fólk í ríkisstjórn sem ber þungann ekki öfundsvert. Góðir hlutir hafa vissulega verið gerðir til hjálpar fólki sem lendir verst í kreppunni.

En það gerist ekki nógu mikið. Í stóru málunum er það eina sem heyrist frá ríkisstjórninni, vandræðalegur þeytingur milli landa til að betla lán. Á meðan sama ríkisstjórn starfar í skugga óverjandi stöðu með Seðlabankann og bara einn maður á Íslandi hefur axlað ábyrgð, er maður næstum ekki hissa yfir að mögulegir lánveitendur skuli hrista hausinn og segja „Gangi ykkur vel elskurnar. Segið okkur fyrst hvað þið ætlið að gera og komið svo aftur.“

Að vakna almennilega núna strax er að hreyfa sig í Evrópuátt. Að ákveða samningsmarkmiðin, að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið og sýna heiminum að við lifum ekki enn í þeirri sjálfsblekkingu að íslenska krónan eigi von um lengri lífdaga. Þetta strandar á Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn.

Að vakna almennilega núna strax er að búa til faglegri Seðlabanka. Það getur ekki beðið. Sjálf lét ég þau orð falla fyrir margt löngu að Davíð Oddsson þyrfti frá – hann væri eins og gereyðingarvopn fyrir efnahagslífið. Þessi orð fóru því miður aðeins of nálægt veruleikanum eins og hann hefur þróast. Ég vil hins vegar bæta því við núna að einn maður getur ekki verið vandamálið. Það sem er vandamál er meðvirkni. Til styttri tíma þarf að skipta út bankastjórn Seðlabankans til að reyna að öðlast þá trú sem er löngu farin. Þetta strandar á Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn.

Að vakna almennilega núna strax þýðir fyrir Samfylkinguna að hafa hugrekki til að standa á sínu í stjórnarsamstarfinu og fá það fram sem er nauðsynlegt: Breytta stefnu og endurritun stjórnarsáttmálans.

UJ hefur kallað eftir kosningum til Alþingis. Ég deili þeirri skoðun með félagsmönnum að þolinmæði flokksforystunnar okkar geti ekki verið endalaus gagnvart samstarfsflokki sem neitar að horfast í augu við raunveruleikann.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand