Niðurskurður Íslenska ríkisins til þróunarhjálpar

Það er sorglegt að hugsa til þess að á Íslandi þurfa margir að gleypa stolt sitt og stíga þau þungu skref sem liggja að dyrum hjálparstofnanna.

Það er sorglegt að hugsa til þess að á Íslandi þurfa margir að gleypa stolt sitt og stíga þau þungu skref sem liggja að dyrum hjálparstofnanna. Það er þungbært að vita til þess að fólk nái ekki endum saman og þurfi að leita til Mæðrastyrksnefndar, Fjölskylduhjálpar eða annarra samtaka til að sjá fjölskyldu sinni fyrir mat og öðrum nauðsynjum. Það tekur á að hugsa til þess að margir stefna nú óðfluga í gjaldþrot og þurfa að reiða sig á fjármálastofnanir landsins og þau úrræði sem þar er boðið uppá. Þessar aðstæður eru vissulega ömurlegar og úr þeim þarf að bæta, það er ekki spurning og hefur aldrei verið spurning.

Þó erum við að ótrúlega mörgu leyti heppin, við höfum úrræði, þó að það sér sárt að þurfa leita þeirra. Við höfum stofnanir einsog Fjölskylduhjálp og Mæðrastyrksnefnd, við höfum heilbrigðis- og menntakerfi, við getum leitað eitthvert, þó að vissulega sé það sárt að þurfa að standa í röð og bíða eftir matarúthlutun, geta ekki gefið börnum sínum allt það sem að þeim langar í og allt það sem að manni langar að gefa þeim. Við höfum að minnsta kosti börnin okkar.

Þessar spurningar og þessi vandi í þessari mynd er nefninlega ekki til staðar hjá um það bil helmingi jarðarbúa.

Á degi hverjum deyja 22.000 börn undir 5 ára aldri, það eru 803.000 börn á ári, eða 825.000 börn á hlaupári. Þessi börn eru ekki tölfræði, þessi börn eru synir og dætur, systur og bræður, frændsystkin, barnabörn, vinir og leikfélagar. Þessi börn eru börn foreldra, foreldra sem hafa engin úrræði og standa valdalausir frammi fyrir aðstæðum sínum. Þessi börn hafa ekki unnið sér það annað til saka en það að fæðast í þeim hluta heimsins sem að býr við hvað mesta fátækt. Þau fæðast í Namibíu, Súdan, Kongó, Sri Lanka og Malaví. Ef að þau fengju að ráða, þá myndu þau að öllum líkindum frekar vilja búa á Íslandi og þurfa að bíða í röð eftir matnum sínum, fá fátæklegar jólagjafir og þurfa að nota fötin af eldri bróður sínum þegar að þau fara í skólann.

Í núverandi árferði þarf að horfa uppá stórfelldan niðurskurð á mörgum sviðum. Ríki heims hafa öll orðið fyrir barðinu á því þverþjóðlega fjármála fárviðri sem hófst árið 2008 og ekki sér fyrir endann á. Verðlag hefur hækkað og þróunaraðstoð hefur ekki farið varhlutann af þeim niðurskurði sem að orðið hefur. Niðurskurður til þróunaraðstoðar hefur þó í raun verið mun meiri en prósentutölur segja til um. Flutningskostnaður hefur aukist, verð á korni, hrísgrjónum og öðrum matvörum hefur hækkað og á sama tíma lækka þau framlög sem að þróunarsamvinnustofnanir og frjáls félagasamtök fá.

Þróunaraðstoð hefur vissulega verið gagnrýnd og er það vel, enda hefur oft á tíðum illa verið staðið að henni.  Á seinustu árum hafa aðferðir við þróunaraðstoð gjörbreyst og er hún nú ekki lengur í formi millifærslu fjármagns frá einu ríki til annars, þar sem að valdhafar móttökuríkisins eru oft á tíðum spilltir, heldur hefur hún í miklum mæli orðið að þróunarsamvinnu. Hún byggir á því að unnið er beint með þegnum þeirra ríkja sem í hlut eiga og þeim gefin verkfæri til að lifa af. Þessi verkfæri geta verið allt frá því að vera mismunandi notkun beiti og ræktunarlands, áveitur, gerð brunna, ný fiskveiðitækni, tæki og fleira. Þarna er veit hjálp til að fólk geti hjálpað sér sjálft, sem dreifir svo úr sér og hefur svokölluð “dómínó áhrif” – það er að þeir sem læra nýja tækni kenna öðrum hana og svo framvegis. Þessi aðferð hefur gefið góða raun og hefur mikið og öflugt starf verið unnið.

Aðrar aðgerðir sem að unnar eru í þróunarstörfum og þróunarsamvinnu eru bólusetningar, uppsetning nokkurskonar heilsugæslustöðva þar sem að hægt er að fá einföld lyf og læknishjálp. Sameinuðu Þjóðirnar hafa unnið gott starf á þessum vettvangi og þurfa slíkar aðgerðir ekki að kosta mikil fjárútlát. Árið 2008 voru 106 milljón börn bólusett og hafa nú rúmlega 80 % barna í heiminum verið bólusett. Þessar aðgerðir, eins einfaldar og þær eru, hafa bjargað milljónum lífa og minnkað barnadauða umtalsvert. Þessi börn eru heldur ekki bara tölfræði, þetta eru börn sem að fá að lifa, dafna, læra og elska. Þetta eru börn sem að gætu átt bjarta framtíð, orðið næsti forseti landsins, virkir mannréttindaleiðtogar. Þetta eru að minnsta kosti börn sem að fá tækifæri.

Í þeirri heimsmynd sem að við búum í dag lifir rúmlega helmingur mankyns á undir 2 dollurum á dag. Það eru meira en þrír milljarðar fólks. Þrátt fyrir að þessi prósenta sé talsvert lægri í dag heldur en fyrir um 40 árum hafa alþjóðleg áföll á fjármálamarkaði haft þau áhrif að nú er hærra hlutfall fólks sem að lifir rétt við þessi mörk og er í hættu á að falla niður fyrir 2$ mörkin. Ef að ekkert er gert horfum við fram á að hlutfall fólks sem lifir við fátækt hækki.

Það þarf enginn að segja mér að Íslendingar séu upp til hópa sjálfselskir, að þeir hugsi ekki um meðbræður sínar og þeim sé sama um örlög fólks í heiminum. Íslendingar hafa sannað það trekk í trekk að svo er ekki. Í söfnunum einsog vegna afleiðinga flóðanna í Pakistan, jarðskjálftans á Haíti og núna síðast á degi Rauða Nefsins, þá sést skýrt og greinilega að svo er ekki. Okkur er ekki sama, við viljum ekki hundsa vandan og lifa í heimi þar sem að enginn hjálpar þeim sem að verst standa. Íslendingar eru gjafmildir, hugaðir og umhyggjusamir. En fyrst að svo er, hví hafa þá íslensk stjórnvöld aldrei staðið við skuldbindingar sínar við alþjóðasamfélagið? Hví hafa íslensk stjórnvöld aldrei komist nálægt því að uppfylla kröfur um framlag af vergri þjóðarframleiðslu, sem að er þó ekki nema skitin 0,7%? Nú horfum við fram á enn meiri niðurskurð, framlög til þróunarsamvinnustofnunar hafa minnkað um 32% á tveimur árum, raunverulegur niðurskurður var þó meiri, þar sem að útgjöld stofnunarinnar voru flest í bandaríkjadölum þá nam niðurskurðurinn 52%. Þetta er óásættanlegt – neyð okkar er ekkert miðað við neyð þeirra.

Ég sá áhugavert myndband um daginn. Þar var talað við almenna ameríska borgara og rætt við þá um framlag landins til þróunarmála. Þar var spurt hvort að þeim fyndist að veita ætti meira eða minna af vergri þjóðarframleiðslu til þróunarmála. Margir voru á þeirri skoðun að veita ætti minna, þegar að þeir voru beðnir um kasta fram tölu um hversu stórri prósentu ætti að veita til þessara mála, þá sögðu flestir að veita ætti á milli 5-10 prósentum í þróunaraðstoð. Þegar að fólki var sagt að í raun og veru væri veitt minna en 1% til þróunarmála, urðu flestir mjög hissa.

Það ber að minnast á það aftur að Íslendingar búa við aðstæður í dag sem að eru óásættanlegar að mörgu leyti, margir hafa það mjög slæmt. En hvað sýnir meiri karakter en að halda áfram að gefa þegar illar árar? Sýnir það í raun ekki meiri mennsku, samúð og samkennd heldur en að gefa þegar maður hefur meira en nóg.

Ég persónulega þekki konu sem að lenti illa í hruninu, hún er 3ggja barna móðir í illa launuðu hlutastarfi, hún þarf að greiða lán af bíl sem að er löngu orðinn ónýtur og hún nær varla endum saman, hún getur ekki gefið börnunum sínum það sem að þau vilja og það sem að hún vill gefa þeim, þrátt fyrir það er hún heimsforeldri, hún borgar undir tvö börn í skólum ABC og henni langar að gera meira.  Þetta er kona sem að ég ber ómælda virðingu fyrir, því einsog hún segir sjálf, þá á hún ennþá börnin sín og hún getur lifað með þau í öryggi, sýnt þeim umhyggju og ást. Það er meira en margir geta sagt.

Ásdís Sigtryggsdóttir, formaður UJ, Akranesi

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand