Á stjórnlagaþingi sem kosið var á nú í nóvember á þessu ári kom fram sterkur vilji fólksins í landinu að innleiða persónukjör. Persónukjör virtist vera góð hugmynd, alla vega við fyrstu sýn, eða þar til ég skoðaði nánar persónukjör í samhengi við lýðræði og kosningaþáttöku þeirra landa sem hafa persónukjör. Þá kom ég auga á gallana.
Ísland er í 3. sæti á lista The Economist yfir lýðræðisleg lönd, á eftir Svíþjóð og Noregi, og fær einkunina 9,65 af 10. Á topp 10 lista eru 9 lönd með hlutfalls- og listakosningu. Sem sagt, ekki persónukjör.
Einn galli persónukjörs er sá að það býður ekki upp á kynjakvóta nema á mjög ólýðræðislegan hátt, eins og með því að fjölga þingmönnum, ef ekki er svipað kynjahlutfall í kosningunum. Sem dæmi ef í einum kosningum væru 63 þingmenn kjörnir en 69 í næstu því ekki var jafnt á kynjum. Það hefur líka takmörkuð áhrif.
Lönd með persónukjör eiga það líka til samkvæmt Duvergers reglunni að vera tveggja flokka kerfi og tel ég það ekki vera eitthvað sem við Íslendingar sækjumst eftir. Persónukjör gerir það að verkum að stjórnmálaflokkar líkt og í Bretlandi hvetja til tactical voting, sem dæmi ef við í UJ myndum kjósa framsóknarmann því hann á mesta möguleika á að vinna sjálfstæðismann í NV-kjördæmi.
Ef við gerum landið að einu kjördæmi og afnemum flokka eigum við þá að kjósa 63 einstaklinga á Alþingi? Þá hlýtur að verða erfitt að mynda meirihluta fyrir málum ef þá þarf að sannfæra 63 mismunandi einstaklinga sem hafa ekkert félagslegt taumhald. Þá hlýtur einnig að verða erfitt að stjórna landi af ábyrgð.
Þær aðferðir sem komið hafa fram um persónukjör eru margar. Ég ætla að leyfa mér að fara yfir tvær leiðir sem ræddar hafa verið hvað mest.
Fyrst er það persónukjör með einmenningskjördæmum. Það kerfi er meðal annars notað í Bretlandi. Það gerir fólki auðveldara fyrir að velja frambjóðendur sem eru frá þeirra svæði og þekkja vandamál kjördæmisins. Kerfið býður upp á tactical voting eins og sést í Bretlandi. Í öðru lagi er ekki víst hvort meirihluti atkvæða á landsvísu fari til flokksins sem vinnur. Dæmi um þetta eru síðustu kosningar Tony Blairs þar sem flokkurinn fékk ekki nema 35% atkvæða á landsvísu en fékk samt meirihluta á þingi.
Önnur leið sem ég hef heyrt mikið af er sú að afnema flokka og kjósa einstaklinga eins og gert var til stjórnlagaþings. Það kerfi vona ég að verði aldrei tekið upp því þar sýndi það sig að allt of fáir kusu. Kenni ég að stórum hluta því um að kerfið bauð upp á of marga frambjóðendur sem gerðu kjósendum erfitt fyrir að velja milli. Þetta kerfi virkar líka ekki ef við viljum halda jöfnum kynjahlutföllum á þingi. Við viljum væntanlega ekki sjá þingmannafjölda breytast milli kosninga eftir því hversu mikill kynjamunnur er. Eitt er samt öruggt og það er að það munu alltaf vera til flokkar, það er bara spurning hvort við viljum kjósa þá eða leyfa þeim að myndast á þingi.
Ég hef þó ekki tekið allar hugmyndir um persónukjör af borðinu. Ég tel að með því að kjósa lista þar sem fólk raðar sjálft þeim frambjóðendum sem flokkurinn hefur gefið möguleika á, t.d. með prófkjörum, getum við sett upp kerfi sem hefur kosti persónukjörs en fækkar valkostum til muna. Þannig væri hægt að koma í veg fyrir tveggja flokka kerfi líkt og listakosningar gera.
Natan Kolbeinsson, Málefnastjóri UJ