Menningarmósaík

Þannig virðist það vera stefnan hér á landi að aðlaga önnur menningarsamfélög kjarnanum, kenna öllum rétta íslensku, íslenska siði, íslensk viðmið og gildi. Það er allt í lagi að vera öðruvísi, en bara upp að vissu marki. Það er t.d. allt í lagi að borða exótískan mat en þegar fólk er farið að ganga með eitthvað skrýtið höfuðfat eða banna börnunum sínum að borða pulsur, þá er nú nóg komið! Fjölmenningarlegt samfélag. Þetta er hugtak sem við höfum verið að heyra æ ofan í æ undanfarin ár. En hvað þýðir það? Er Ísland fjölmenningarlegt samfélag? Viljum við að Ísland sé fjölmenningarlegt samfélag? Skilgreiningar varðandi hugtakið eru býsna mikið á reiki, – í bókinni Rethinking Multicultarlism
eftir Bhikhu Parekh er að finna ansi góða skilgreiningu sem hægt er að nýta í umræðunni hér.

Vissulega er fólk á Íslandi frá fjöldamörgum menningarheimum, hér búa Bandaríkjamenn, Japanir, fólk frá Ghana, kaþólikkar, búddhistar, lútherstrúarmenn o.s.frv o.s.frv. En það er ekki þar með sagt að samfélagið á Íslandi aðhyllist fjölmenningarhyggju. Ég er hrædd um að því sé þveröfugt farið, Ísland sé einmenningarþjóðfélag.

Fjölmenning-einmenning
Samkvæmt skilgreiningu Parekh er fjölmenningarlegt samfélag þar sem tvö eða fleiri menningarsamfélög (cultural communities) eru til staðar. Samfélagið getur brugðist við þessari menningarlegu fjölbreytni með tvennum hætti: Það getur tekið henni opnum örmum og gert hana miðlæga sjálfsmynd sinni, eða það getur reynt að aðlaga menningarsamfélögin kjarnanum, eða „mainstream“ menningunni. Bæði samfélög eru fjölmenningarleg, en aðeins annað aðhyllist fjölmenningarhyggju. Dæmi um land sem lítur á fjölbreytni sem hluta af sjálfsmynd sinni er Kanada, en oft er talað um menninguna þar sem mósaíkmynd, -ólík brot myndi heildarmyndina. Parekh nefnir sem dæmi um lönd sem aðhyllast einmenningu Bretland og Frakkland og ég held að Ísland tilheyri þeim flokki líka. Parekh segir um viðhorfið í Bretlandi:

,,To call it multicultural is to imply that its traditional culture should not be given pride of place, that the minority cultures are equally central to its identity, that they should be respected and even cherished and not encoureged to disappear over time, and that the ethnic minorities consist not of individuals but of organized communities entitled to make collective claims.”

Sjálsmyndarkomplexar
Þannig virðist það vera stefnan hér á landi að aðlaga önnur menningarsamfélög kjarnanum, kenna öllum rétta íslensku, íslenska siði, íslensk viðmið og gildi. Það er allt í lagi að vera öðruvísi, en bara upp að vissu marki. Það er t.d. allt í lagi að borða exótískan mat en þegar fólk er farið að ganga með eitthvað skrýtið höfuðfat eða banna börnunum sínum að borða pulsur, þá er nú nóg komið! Íslensk menning (hvað svo sem það nú er nákvæmlega) má ekki breytast of mikið samkvæmt þessu einmenningarviðhorfi. Sjálfsmynd þjóðarinnar byggist á einhverjum niðurnjörvuðum hugmyndum, síendurteknum tuggum um hreint mál, sterka karla og fallegar konur. Er sjálfsmynd okkar virkilega svo brothætt að aukin menningarleg fjölbreytni geri út af við hana?

Ég held ekki. Ég er Íslendingur og mér finnst það fínt. Auðvitað hefur landið mótað mig, – fámennið, landslagið, veðráttan, sagan- og mér finnst gaman að segja útlendingum frá heimkynnum mínum, þeim sem hafa áhuga. En ég efast um að þessi atriði skipti mestu máli varðandi persónuleika minn og sjálfsmynd. Þar hefur fólkið í kringum mig, fjölskyldan mín og eigin lífsreynsla (á Íslandi og annars staðar) meira að segja.

Hvernig á myndin að vera?
Alveg eins og manneskjur eru mótaðar af mörgum þáttum getur þjóð eða samfélag samanstaðið af ólíkum menningarsamfélögum og samt sem áður fúnkerað sem heild. Auk þess sem það er óvinnandi verk í heiminum eins og hann er í dag að ætla að halda menningunni stöðugri. Við verðum að taka afstöðu til þessarar staðreyndar, taka afstöðu til þess hvernig við viljum lifa á breyttum tímum. Hvernig á nýja sjálfsmyndin að vera? Samfélagið tapar á því að reyna að bræða allt í sama mót, menningarleg fjölbreytni auðgar það, -myndin verður stærri, litríkari og skemmtilegri.

Heimildir:

Parekh, Bhikhu. 2002. Rethinking Multiculturalsim, Cultural Diversity and Political Theory. Harvard University Press, Cambridge.

Auk þess voru hugmyndir fengnar í kennslustund í Háskóla Íslands, Jaðarbókmenntir heitir námskeiðið, kennari er Rúnar Helgi Vignisson.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand