Maður ársins

Jón Skjöldur Níelsson fjallar í grein dagsins um fjölmenna göngu Ómars Ragnarssonar í miðbæ Reykjavíkur. Hann segir stemninguna hafa magnaðist eftir því sem nær dró Austurvelli enda bættist fólk stöðugt í gönguna. Kliðurinn og lófatakið hafi vakið ákveðið þjóðarstolt.

Jökulsárganga Ómars Ragnarssonar er sennilega fjölmennasta mótmælaganga sem fram hefur farið á Íslandi síðan árið 1973. Það hefur heyrst að allt að því 15.000 manns hafi mætt niður í miðbæ Reykjavíkur ásamt einhverjum fjölda sem kom saman á Akureyri, Ísafirði og á Egilsstöðum.

Ég skellti mér niður í bæ rétt fyrir átta og átti satt að segja ekki von á mjög miklu fjölmenni, enda Íslendingar ekki þekktir fyrir mikinn blóðhita og mótmælahvöt. Strax og ég fór að nálgast miðbæinn fann ég að það lá eitthvað í loftinu. Mikill straumur af bílum var niður í bæ og sjá mátti á klæðnaði fólks í bílunum að það var ekki bara að fara hinn hefðbundna kvöldrúnt. Fólk streymdi bókstaflega niður í bæ og þegar komið var á Hlemm blasti við dásamleg sjón. Gríðarlegur fjöldi fólks hafði safnast saman, miklu fleiri en ég hafði þorað að ímynda mér. Stemmningin var mikil og góð og fannst greinilega að mikill hugur var í fólki. Kyndlar voru á lofti og mörg skilti sem báru afdráttarlaus og skýr skilaboð. Fólk er ekki tilbúið að láta bjóða sér hvað sem er.

Stemningin magnaðist eftir því sem nær dró Austurvelli enda bættist fólk stöðugt í gönguna. Ekki er laust við að kliðurinn í fólkinu og lófatakið sem bergmálaði hafi vakið upp þjóðarstoltið, sem annars fær sjaldan að njóta sín þessa daganna. Ég var stoltur af því að vera staddur í þessari friðsamlegu en jafnframt magnþrungnu göngu.

Á Austurvelli kom svo allt fólkið saman og hlustaði á manninn sem hefur lagt allt í sölurnar fyrir landið sitt og náttúru þess. Maður sem mitt í allri græðgisgeðveikinni stendur fast í báðar lappirnar og hefur sýn á framtíðina sem nær lengra en yfir næstu efnahagslegu þennsluskeið. Maður sem þorir að koma með djarfar og róttækar hugmyndir. Maður sem vill lausnir sem allir geta sætt sig við. Ég tek hattinn ofan fyrir Ómari Ragnarssyni og hans hugrekki.

Ég ætla ekki að dæma um hvort kröfurnar um að hætta við fyllingu Hálslóns séu yfir höfuð raunhæfar eða þá að láta mannvirki uppá milljarðatugi standa ónotuð. Það verða aðrir og gáfaðri menn að dæma um. Mest fór ég til að styðja við bakið á sannri íslenskri hetju sem hefur lagt allt í sölurnar fyrir góðan málstað. Einnig til að sýna að svona umhverfisslys megi aldrei koma til framkvæmda aftur.

Með þessari göngu og þeirri samstöðu sem þar var sýnd tel ég einsýnt að fleiri og fleiri Íslendingar eru að vakna af vondum draumi. Fleiri eru að vakna til meðvitundar um að ekki er hægt að fórna hverju sem er fyrir skjótfenginn og kannski skammvinnan gróða.

Ef við ætlum virkilega að horfa til framtíðar þurfum við lausnir sem ekki eru teknar frá vanþróaðri ríkjum sem hafa mjög svo takmarkaða möguleika aðra en að taka við öllu sem býðst. Við Íslendingar erum þeirra gæfu aðnjótandi að hafa mannauðinn og auðlindirnar sem þarf til að móta bjarta framtíð fyrir alla Íslendinga. Það er hægt að gera án þess að veita landinu okkar þvílíkt svöðusár eins og nú stefnir í.

Í lokin vil ég enn og aftur taka ofan fyrir Ómari Ragnarssyni. Hann á alla virðingu skilið frá landi og þjóð.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið