Lissabon-hvað?

lisbon

Nú stefnir í að nýr sáttmáli Evrópusambandsríkjanna um stjórnskipan sambandsins, svonefndur Lissabon-sáttmálinn, verði fullgildur eftir langan aðdraganda. Greinarhöfundur fer yfir helstu atriðin sem munum breytast með tilkomu sáttmálans. Ekki er annað hægt en að fagna því að öll aðildarríki Evrópusambandsins hafi nú samþykkt Lissabon-sáttmálann. Við getum því búist við enn skilvirkara og lýðræðislegra Evrópusambandi á næstunni.lisbonAðdragandinn að Lissabon-sáttmálanum
Þann 13. desember árið 2007 í Lissabon, Portúgal, undirrituðu leiðtogar Evrópusambandsins nýjan sáttmála fyrir sambandið. Þann 1. desember næstkomandi mun sáttmálinn taka gildi, næstum tveimur árum eftir að leiðtogarnir komu saman í Portúgal.

Sáttmálinn á sér langa sögu, en áður en Lissabon-sáttmálinn varð til í núverandi mynd höfðu leiðtogar Evrópusambandsins unnið árum saman að því að smíða nokkurs konar stjórnarskrársáttmála fyrir sambandið. Slíkur sáttmáli fékk hins vegar ekki mjög miklar undirtektir hjá aðildarríkjum sambandsins og Frakkar og Hollendingar felldu tillöguna í þjóðaratkvæðagreiðslu vorið 2005. Þá var hætt við stjórnarskrársáttmálann og hafið vinnu við Lissabon-sáttmálann.

Flest aðildarríki samþykktu Lissabon-sáttmálann án vandkvæða. Á Írlandi var sáttmálinn borinn undir þjóðaratkvæði, en Írland var eina landið sem gerði slíkt en á Írlandi er krafa, byggð á dómi Hæstaréttar Írlands, um að sáttmálar séu bornir undir þjóðaratkæði. Írar felldu samninginn í júní 2008, en í síðasta mánuði var kosið á ný um sáttmálann og hann samþykktur með meirihluta atkvæða eftir að írska ríkisstjórnin samdi um nokkur tiltekin atriði eins og til dæmis að Evrópusambandið færi ekki að skipta sér af innanlandsmálum eins og banni við fóstureyðingum og hjónabandi samkynhneigðra.

Annars staðar hefur sáttmálinn verið samþykktur af þjóðþingi og/eða forseta, nú síðast af Vaclav Klaus, forseta Tékklands, en hann hann á heiðurinn af því að hafa haldið samningnum hvað lengst í gíslingu.

Hvað felst í Lissabon-sáttmálanum?
Eftir stækkun Evrópusambandsins árið 2004 þegar tíu ný aðildarríki bættust í hóp þeirra fimmtán sem fyrir voru var ljóst að smíða þyrfti sáttmála sem tæki á þeim breytingum sem Evrópusambandið hefur verið að ganga í gegnum. Slík stækkun kallaði á nauðsynlegar stjórnsýslubreytingar. Markmiðið með Lissabon-sáttmálanum er því að gera Evrópusambandið lýðræðislegra og skilvirkara auk þess sem völd sambandsins eru gerð skýrari.

Ein helsta breytingin sem felst í Lissabon-sáttmálanum er að stjórnskipulag sambandsins mun ekki lengur byggja á þremur stoðum eins og það gerir nú. Þá mun Evrópuþingið fá aukin völd í gegnum hið svokallaða samákvörðunarferli, en þannig mun Evrópuþingið fá jöfn tækifæri á við Ráðherraráðið til að móta nýja löggjöf og þar að auki mun þessi tegund ákvarðanatöku innan sambandsins ná til fleiri málaflokka en áður. Þingmönnum á Evrópuþinginu mun fækka og hámarksfjöldi þingmanna á hvert aðildarríki verður 96 og lágmarksfjöldi þingmanna verður 6. Þjóðþingin munu fá aukið hlutverk sérstaklega er varðar svokallað nálægðarreglu sem hefur það að markmiði að ákvarðanir séu teknar eins nálægt borgurunum og hægt er. Þá er ákvæði um beina þáttöku borgaranna til að hafa áhrif á ákvarðanatöku að finna í sáttmálanum.

Leiðtogaráð Evrópusambandsins fær forseta sem kosinn verður til tveggja og hálfs árs í senn. Endurkjósa má hann einu sinni. Aðildarríkin munu áfram skiptast á með formennsku í sex mánuði í senn en sú breyting sem á sér stað er sú að samstarfið mun fara fram í gegnum þriggja ríkja samráðsvettvang. Saman munu starfa það ríki sem gegnir formennsku hverju sinni, það ríki sem gegndi formennskunni hálfa árinu á undan viðkomandi ríki og það ríki sem taka á við formennskunni sex mánuðum síðar.

Þá fær Evrópusambandið einn sameiginlegan talsmann í utanríkis- og varnarmálum, sem mun starfa sem fulltrúi fyrir þennan málaflokk. Í núverandi fyrirkomulagi eru það tveir aðilar sem fara með utanríkismál. Skýrt er kveðið á um rétt aðildarríkja um að halda úti sinni eigin utanríkisþjónustu og stefnu í þeim málaflokki.
Aðilum í framkvæmdastjórn sambandsins fækkar. Í stað þess að aðildarríkin hafi hvert sinn framkvæmdastjóra mun fjöldi þeirra vera 2/3 af fjölda aðildarríkja. Löndin munu skiptast jafnt á að hafa fulltrúa í framkvæmdastjórninni. Þá verður forseti framkvæmdastjórnarinnar valinn af Evrópuþinginu.

Atkvæðavægi ríkja mun breytast þannig að það endurspegli betur íbúafjölda ríkjanna. Þetta felur í sér að til að meirihluti náist þarf 55% aðildarríkja, með 65% af samanlöguðum fólksfjölda sambandsins á bakvið sig, að samþykkja tillöguna.

Loks er greint frá nokkrum grundvallar markmiðum og gildum sem Evrópusambandið leitast við að ná og standa vörð um. Til að mynda er sérstaklega tilgreint að ríkin snúi skilyrðislaust bökum saman ef vá, svo sem vegna náttúruhamfara eða hryðjuverka, ber að dyrum. Þá er í fyrsta skipti er tekið skýrt á því að ríki geta sagt upp samstarfinu. Í 50. gr. sáttmálans er gert ráð fyrir að aðildarríki geti dregið sig út úr sambandinu með því að beina tilkynningu til ráðsins þar um.

Lengi má gott bæta
Lengi væri hægt að halda áfram að fjalla um innihald Lissabon-sáttmálans. Hér hefur þó verið stiklað á stóru um aðalatriðin sem munum breytast þegar sáttmálinn tekur gildi. Evrópusambandið hefur breyst mikið síðustu árin, sérstaklega eftir að aðildarríkjum fjölgaði mjög. Það er því mikilvægt að stjórnskipulagið breytist að sama skapi. Að því gefnu er ekki annað hægt en að fagna því að öll aðildarríki Evrópusambandsins hafi nú samþykkt Lissabon-sáttmálann og að hann muni taka gildi þann 1. desember næstkomandi. Við getum því búist við enn skilvirkara og lýðræðislegra Evrópusambandi á næstunni.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand