Leysum landfestar lýðræðis!

Um þessar mundir fara fram fylkiskosningar innan Þýska sambandsríkisins. Þýsku fylkin (Länder) kjósa til fylkisþinga sem fara með málefni nær borgurunum.

Um þessar mundir fara fram fylkiskosningar innan Þýska sambandsríkisins. Þýsku fylkin (Länder) kjósa til fylkisþinga sem fara með málefni nær borgurunum. Það sem er nýtt á nálinni í þessum fylkiskosningum er að svokallaðir sjóræningjaflokkar eru að sækja í sig veðrið og taka sér stöðu sem „þriðja aflið“ milli hefðbundnu stóru flokkanna CDU (Kristilegir Demókratar) og SPD (Jafnaðarmannaflokkurinn). Sjóræningjaflokkurinn hefur í mörgum fylkjum tekið fram úr Græningjum og algerlega upprætt fylgi Frjálslynda flokksins sem iðulega stóð í u.þ.b. 15% og er núverandi samstarfsflokkur CDU í ríkisstjórn Merkel.

Evrópskir fjölmiðlar telja velgengni sjóræningja stafa af langþreytu á hefðbundnum stjórnmálaöflum sem eru föst í íhaldssömu stofnanaveldi 20. aldar. Formerki sjóræningjaflokkanna er að færa lýðræði inn í 21. öldina með hjálp internetsins og virkri þátttöku almennings í ákvarðanatökuferli. Þau þykja afar framsýn miðað við hefðbundnu stjórnmálaöflin og því álitlegur kostur meðal ungra kjósenda í Þýskalandi. Margir telja þó að vaxtaverkir sjóræningjanna muni verða þeim að falli að lokum og sumir telja framboð þeirra „viðvaningsvæðingu“ þýskra stjórnmála. Burtséð frá því eru hugmyndir þeirra afar áhugaverðar og falla augljóslega vel í kramið hjá þýskum kjósendum, sem hefur orðið til þess að hefðbundnu risaflokkarnir þurfa að enduruppgötva sig til þess að halda í við kröfur og þarfir kjósenda.

Eru Íslandsmið vinveitt sjóræningjum?

Það þarf varla að fletta blöðum til að átta sig á því að íslendingar hafa fengið sig fullsadda af hefðbundnum stjórnmálaöflum, og líkt og í Þýskalandi á tuttugustu aldar kaldastríðspólitíkin hlut að sök. Ný framboð hafa reynt að feta svipuð spor og sjóræningjarnir. Þar má t.d nefna Besta flokkinn, Dögun og Bjarta Framtíð. Einnig má nefna verkefni eins og vefsvæðið Betri Reykjavík og störf Stjórnlagaráðs sem fyrirbæri í anda sjóræningjanna.

Það mætti segja að Besti flokkurinn sé í dag sjóræningjaflokkur okkar íslendinga þó svo að hann skorti það skipulag og stoðgrind sem Sjóræningjaflokkurinn í Þýskalandi hefur náð að koma sér upp. Besti flokkurinn tröllreið kosningum í Reykjavík árið 2010 með álíka viðhorf og sjóræningjarnir að vopni. Það sem hefur hins vegar ekki gerst á Íslandi er að hin hefðbundnu stjórnmálaöfl hafa ekki náð að endurnýja sig og aðlagast til að minnka hið gráa tómarúm sem stækkar með hverri skoðanakönnuninni.

Það er mín skoðun að allir flokkar sem úthrópa sig sem andstöðu íhalds geti tekið höndum saman um að endurnýja sig að hætti þeirra sem sitja í fylkisþingum ásamt Sjóræningjaflokknum. Jafnframt geta flokkar eins og Dögun og Besti flokkurinn skerpt enn frekar á vilja sínum í að nútímavæða lýðræðið. Flokkar umbóta eins og Samfylkingin, Dögun, Björt Framtíð, Besti flokkurinn og Vinstri Græn eiga að geta siglt í sama fleyi undir seglum nútímavæðingar. Sömu flokkar gefa sig út fyrir að geta kjöldregið afturhaldssamar hugmyndir um takmarkanir lýðræðis og tök eiginhagsmunaafla á stjórntækjum samfélagsins. Því tel ég tíma til kominn til að taka alvöru skref til að leysa landfestar lýðræðis á sjóræningajafleyi framsýnna flokka!

Undirritaður Stefán Rafn Sigurbjörnsson á sæti í miðstjórn Ungra jafnaðarmanna.

Skoðanir höfundar þurfa ekki að endurspegla stefnu Ungra jafnaðarmanna

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand