Látum Olíuna liggja

Óskar Steinn Ómarsson skrifar um olíuleit íslendinga og varar við þeim leiðangri og þeim afleiðingum sem hann gæti haft í för með sér.

Látum Olíuna liggja

September 2012 var sögulegur mánuður á Norðurheimskautinu. Þann mánuð mældist minnsta útbreiðsla hafíss frá upphafi mælinga árið 1978. Hafísinn bráðnar ógnvænlega hratt, með alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir dýrategundir sem lifa á ísnum, svo sem ísbirni.

Okkur að kenna

Vísindamenn eru sammála um að þessa bráðnun hafíss megi rekja til loftslagsbreytinga af mannavöldum. Heimur hlýnandi fer, og það er okkur að kenna. Við losum út meira af gróðurhúsalofttegundum en loftslagið þolir, og það hefur áhrif á hitastig jarðar. Aðal drifkrafturinn á bakvið þessa þróun er brennsla jarðefnaeldsneyta. Síðan við byrjuðum að nota olíu, gas og kol sem orkugjafa fór magn koltvísýrings (CO2) í andrúmsloftinu hækkandi, og það hefur aldrei verið hærra.

Alvarlegar afleiðingar

Þessi þróun hefur í för með sér gríðarlega alvarlegar afleiðingar, og ekki bara fyrir ísbirnirnina. Vísindamenn telja loftslagsbreytingar eina helstu ógn sem steðjar að mannkyni í dag. Þær ógna vatnsbirgðum og matarframleiðslu, þær auka tíðni og styrkleika náttúruhamfara, þær gera stóra hluta jarðar óbyggilega fyrir menn og dýr, og þær hafa í för með sér umfangsmestu útrýmingu dýra- og plöntutegunda á jörðinni síðan á tímum risaeðlanna.

Hversu margar gráður þolum við?

Samkvæmt Alþjóða Orkumálastofnuninni (IEA) mun meðalhitastig jarðar hækka um 3,6-5,3°C ef við höldum áfram á þeirri braut sem við erum á nú. Nú þegar er hækkunin orðin 0,7°C, og þjóðarleiðtogar heimsins hafa sammælst um að reyna að halda hækkuninni fyrir neðan 2°C.

Vísindamenn hafa reynt að teikna upp mynd af afleiðingum þessarar hlýnunar. Einnar gráðu hækkun þýðir að færri hafi aðgang að hreinu vatni og að hætta á skógareldum, stormum, flóðum og þurrkum eykst verulega. Dæmi um þetta erum við þegar byrjuð að sjá í kvöldfréttum reglulega. Tvær gráður setja 20-30 prósent allra plöntu- og dýrategunda í heiminum í útrýmingarhættu, kórallar (regnskógar hafsins) eyðileggjast og fleiri manneskjur látast af völdum hita, flóða og þurrka. Þrjár gráður valda útbreiddum dauða kóralla, setja milljónir manna í flóðahættu, og aukin útbreiðsla alvarlegra sjúkdóma auka byrðina á heilbrigðiskerfi heimsins. Við fjórar gráður minnkar matarframleiðsla heimsins verulega og 40 prósent plöntu- og dýrategunda verða komnar í bráðri útrýmingarhættu, og við 5 gráðu hækkun getur sjávarborð jarðar hækkað um fleiri metra.

Óbrennanlegt eldsneyti

Þar sem brennsla olíu, kola og gass er stærsti áhrifavaldurinn í þróuninni sem hér á sér stað gefur auga leið að verulega þarf að draga úr hlutdeild þessarra eldsneyta í orkuforða heimsins. Við getum ekki ætlast til þess að vinna bug á loftslagsbreytingunum án þess að minnka framleiðslu á þessum eldsneytum.

Spurning um olíuna eða jörðina

Mannkynið þarf, samkvæmt IEA, að láta tvo þriðju hluta allra þekktra kola-, gas- og olíulinda heimsins liggja, ætlum við að eiga einhverja möguleika (50 prósent séns) á að ná tveggja gráðu markmiðinu. Ríki heims verða með öðrum orðum að setja olíufyrirtækjunum miklar skorður, og hleypa þeim ekki inn á sum svæði. Yrði þetta að veruleika, gæti markaðsvirði margra fyrirtækja á þessu sviði, t.d. norska olíufélagsins Statoil, minnkað um helming. Með öðrum orðum: ætli mannkynið og jörðin að vinna, verða olíufyrirtækin að tapa.

Íslenskt bensín á bálið?

Þá skýtur skökku við að íslendingar ætli, með alla þessa kunnáttu um ástand loftslagsmála og orkumarkaða í heiminum, að fara í framleiðslu þessara sömu jarðefnaeldsneyta og eru að steikja hnöttinn. Við tilheyrum nefnilega þeim hópi landa í heiminum sem bera hvað mesta ábyrgð á loftslagsbreytingunum. Það erum við sem eigum bílana, flugvélarnar, og verksmiðjurnar sem hafa fyllt andrúmsloftið af koltvíoxíði, á meðan milljarðar manna, kvenna og barna í þriðja heiminum þurfa nú að glíma við afleiðingarnar. Að fara í framleiðslu og útflutning olíu á þessum tímapunkti væri vægast sagt móðgandi við þetta fólk.

Samfylkingin í þágu umhverfisins

Fyrr á þessu ári undirritaði Steingrímur J Sigfússon atvinnuvegaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands leyfi til leitar og vinnslu olíu og gass á Drekasvæðinu svokallaða. Þetta gerði ríkisstjórn tveggja flokka sem kenna sig báðir við umhverfisvernd, þvert á stefnu þeirra um svokallað grænt hagkerfi. Það er synd – og beinlínis hættulegt – að ekki einu sinni grænu flokkarnir í íslenskum stjórnmálum geti staðist þá vanhugsuðu freistingu að gera Ísland að olíuríki. Hér er nauðsynlegt að Samfylkingin – flokkur jafnaðarmanna festi sig í sessi sem öflugt stjórnmálaafl sem horfir til framtíðar, og afneiti þeim gamaldags hugsunarhætti gróða og eiginhagsmuna sem felst í þessari afleitu orkustefnu. Samfylkingin ætti að sýna samstöðu með fórnarlömbum loftslagsbreytinga, og halda íslensku efnahagslífi á þeirri farsælu braut sjálfbærrar þróunar og grænnar orkunýtingar sem það er á í dag. Loftslagsbreytingar og brennsla jarðefnaeldsneyta eru tvær hliðar af sama vandamáli. Ætli því Samfylkingin að berjast af einhverju viti gegn loftslagsbreytingum, verður Samfylkingin líka að nota alla sína krafta í baráttuna gegn jarðefnaeldsneytum.

 

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand