Lánað úr ríkisbönkum til þess að kaupa ríkisbanka!

„Heldur er ótíndum mönnum afhent þetta fyrir ekki neitt, því það hefur komið í ljós að þeir borguðu ekki neitt … Þeim er lánað úr ríkisbönkunum til þess að kaupa ríkisbankana.“

Dr. Jónas Haralz var í stórmerkilegu viðtali í þættinum Sprengisandi sl. laugardag. Jónas er einn reynslumesti hagfræðingur landsins, starfaði m.a. sem hagfræðingur í Alþjóðabankanum á árunum 1955-´57, var efnahagsráðgjafi Viðreisnar-stjórnarinnar frá 1957-´61 og bankastjóri Landsbanka Íslands 1969-´88. Hefur Jónas verið nefndur einn af hugmyndafræðingum Sjálfstæðisflokksins og þeirra helsti efnahagsmógúll á árum áður, áður en stuttbuxnadeildin svokallaða náði völdum í flokknum með nýfrjálshyggjupostulann Hannes Hólmstein Gissurarson og valdasjúklinginn Davíð Oddsson í broddi fylkingar.

Eftir að hafa farið yfir upphaf og aðdraganda fjármálakreppunnar í heiminum á skilmerkilegan hátt, spurði þáttastjórnandinn, Sigurjón Egilsson, hvernig skýra mætti að Íslendingar hefðu orðið jafn illa úti og raun bar vitni. Svaraði Jónas því til að Íslendingar hefðu einfaldlega farið á „stórkostlegt fyllerí.“ Þar kemur svosem ekkert á óvart.

Bankarnir gefnir mönnum sem ekkert vit höfðu!
Það sem er mun merkilegra, er að Jónas lýsti þeirri skoðun sinni að það væri óskiljanlegt ef rétt reynist, að rannsóknarskýrsla Alþingis fjalli ekki um einkavæðinguna sem hluta af aðdraganda hrunsins. Þar væri að finna upphafið að, og höfuðábyrgðina á, því bankahruni sem við hefðum lent í:

„Þar liggur náttúrulega, að því er okkur snertir, verstu afglöpin, að bankarnir eru einkavæddir og það eru ekki valdir nýir eigendur sem hafa vit á bankamálum og þekkingu, hafa reynslu, hafa ábyrgðartilfinningu og siðgæði. Heldur er ótíndum mönnum bara afhent þetta fyrir ekki neitt, því það hefur komið í ljós að þeir borguðu ekki neitt og áttu enga peninga, að því er virðist. Þeim er lánað úr ríkisbönkunum til þess að kaupa ríkisbankana.“

Sagði Jónas það alveg einsdæmi og merki um óstjórnina að þetta skyldi vera að koma í ljós fyrst núna, og einnig að nú væri komið í ljós, sem svosem var vitað, að þeir sem fengu bankana gefins kunnu bara ekkert til verka.

Ja, hann fór nú aldeilis eftir því!
Minntist Sigurjón þá á umræðu sem hefði átt sér stað á Alþingi um einkavæðinguna, þar sem Davíð Oddson, þáverandi forsætisráðherra, hefði látið þau orð falla að okkar litla samfélag myndi aldrei þola það að einhver einn ætti meira en nokkur prósent í bönkunum, að stórir hluthafar gætu verið hættulegir. Ekki vantaði viðbrögðin frá Jónasi, sem fussaði og sagði: „Ja, hann fór nú aldeilis eftir því!“ og hló. Það vantaði ekki eiturpilluna í átt að keisaranum í Hádegismóum!

Sigurjón var þá fljótur að malda í móinn og spurði hvort að hann hefði e.t.v. haft rétt fyrir við það tækifæri. Lýsti Jónas þá reynslu sinni, sem bankastjóri ríkisbanka, af íslenskri bankastarfsemi og þeirri skoðun sem hann hefði haft á þessum málum:

„Þá hafði ég þá sannfæringu að það ætti að einkavæða bankana. Það væri mjög óheppilegt að ríkið væri að reka banka og ég er á því ennþá. Í raun og veru vorum við, sem stýrðum bönkunum í minni tíð, í sífelldri baráttu við ríkið til þess að halda bankastarfseminni í eðlilegu horfi. Í staðinn fyrir að það voru valdir af ríkinu ákveðnir atvinnuvegir þar sem átti að vera opinn aðgangur að fé. … Ég var sannfærður um það að það væri ekki heppilegt að ríkið ætti bankana. En það sem vakti fyrir mér var að fá inn sem kjölfestueiganda, eins og það er kallað – svona 30-40% eiganda – góðan erlendan banka. Ríkið gæti svo verið inni með einhverja litla eign, 10%, og síðan að selja almenningi á dreifðan hátt. Þetta held ég að hefði verið rétta leiðin og það var ákveðinn banki sem að ég hafði fyrst og fremst í huga vegna Landsbankans, það var SEB bankinn sænski … SEB bankinn hafði áhuga; þeir voru búnir að kynna sér starfsemi Landsbankans og voru búnir að senda menn hingað en þeim var sagt af hálfu ríkisstjórnarinnar og forsætisráðherra að fara og ekki halda áfram, því þá var hann [Davíð Oddsson, forsætisráðherra] búinn að gera það upp við sig að fara allt aðra leið.“

Þá leið sem var farinn þekkjum við auðvitað öll; Landsbankinn var fenginn „ótíndum“ mönnum, Björgólfsfeðgum, Kjartan Gunnarsson, framkvæmdarstjóri Sjálfstæðisflokksins fram til 2007 og trúnaðarvinur Davíðs Oddsonar, hélt áfram sem varaformaður stjórnar Landsbankans og tryggði þannig að Sjálfstæðisflokkurinn gæti áfram ákveðið hvaða atvinnuvegir og viðskiptavinir fengju áfram opið aðgengi að lánsfé. Og hinn almenni Íslendingur var leiddur áfram í ölæði spillingarinnar, á eitt alsherjar fyllerí!

Viðskiptahringekja helmingaskiptaflokkanna
Hvaða niðustöðu er hægt að draga af máli Jónasar, annað en að hér byggðu helmingaskiptaflokkarnir – Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur – upp rammpólitískt fjármálakerfi sem gat ekki tekist á við mótbyr eða áföll. Þess í stað  var blásin upp eignabóla með dyggri aðstoð afdrifaríkra hagstjórnarmistaka. Þessi mistök byggðust upp á árunum eftir einkavæðingu bankanna, að því er virðist í þeim eina tilgangi að blása út hagkerfið til að tryggja helmingaskiptaflokkunum áframhaldandi stjórnarsetu eftir kosningarnar 2003. Hver man annars ekki eftir loforðunum um að tekjuskattslækkanir, sem væru til þess fallnar að „færa fjárlagaafgang ríkissjóðs til þeirra sem best fara með hann,“ þ.e. almennings, og hækkun húsnæðislánahlutfalls Íbúðarlánasjóðs í 90% af markaðsvirði, til þess að tryggja öllum „þak yfir höfuðið“?

Við vitum öll hvar við stöndum núna: Fjárlagaafgangurinn reyndist á sandi reistur og fasteignamarkaðurinn er hruninn!

Í þessu ljósi er e.t.v. ekki skrýtið að nú sé róið að því öllum árum að koma núverandi ríkisstjórn frá og helmingaskipta-flokkunum aftur til valda. Viðskiptablokkir gamla tímans sitja nú eins og hungruð ljón og bíða færis, bíða þess að réttir flokkar og réttir stjórnmálamenn, sem hika ekki við að útdeila og úthluta, komist aftur til valda. Ætli þarna sé að finna einhverja slóð sem þarf að fela? Skilaboð Jónasar eru markverð að þessu leyti og nauðsyn að halda á lofti.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand