Kynbundinn launamunur er böl

,,Launamunur kynjanna minnkaði um helming hjá Reykjavíkurborg þegar hún var borgarstjóri, en hefur hins vegar staðið í stað á landsvísu í 12 ára valdatíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Með áframhaldandi dugleysi hægriaflanna mun það taka rúmlega 600 ár að útrýma hinum kynbundna launamun. Að sögn valinkunnra Sjálfstæðismanna er það reyndar vafa undirorpið að kynbundinn launamunur sé í raun og veru til.“ Segir Magnús Már Guðmundsson formaður Ungra jafnaðarmanna.

Nýverið var lögð fram tillaga að lagafrumvarpi nefndar um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sem ætlað er að stuðla að frekara jafnrétti kynjanna. Nefndin var skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokka , en Guðrún Erlendsdóttir, fyrrverandi hæstaréttardómari, veitti henni forystu. Sérlega ánægjulegt er að þverpólitísk sátt náðist um helstu tillögur nefndarinnar enda er ljóst að stórt skref yrði stigið í jafnréttismálum næðu þær fram að ganga. Veigamestu breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru Samfylkingarfólki að góðu kunnar, enda hafa þingmenn flokksins ítrekað lagt fram sambærilegar tillögur, svo sem um afnám launaleyndar og eflingu kærunefndar jafnréttismála.


Gjörólíkar áherslur Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks
Jóhanna Sigurðardóttir hefur þannig lagt fram frumvarp á þingi um að úrskurðir kærunefndar jafnréttismála verði bindandi. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur lagt fram frumvarp og talaða fyrir afnámi launaleyndar og fengið víða bágt fyrir. Gott er að halda því til haga að Ingibjörg Sólrún er eini stjórnmálaleiðtoginn hér á landi sem hefur áorkað einhverju þegar kemur að því að draga úr kynbundnum launamun. Launamunur kynjanna minnkaði um helming hjá Reykjavíkurborg þegar hún var borgarstjóri, en hefur hins vegar staðið í stað á landsvísu í 12 ára valdatíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Með áframhaldandi dugleysi hægriaflanna mun það taka rúmlega 600 ár að útrýma hinum kynbundna launamun. Að sögn valinkunnra Sjálfstæðismanna er það reyndar vafa undirorpið að kynbundinn launamunur sé í raun og veru til. Einn þeirra er Heiðrún Lind Marteinsdóttir, fyrrverandi stjórnarmaður Heimdalls og kosningastjóri Gísla Marteins Baldurssonar, sem hélt því nýverið fram í Kastljósþætti að víðtækar kannanir sem VR og Gallup/Capacent hafa gert undanfarin ár væru einfaldlega rangar.


Valfrelsi launþega tryggt
Núverandi fyrirkomulag kemur í veg fyrir að samstarfsmenn á vinnustað geti borið saman kjör sín og þar með verður ómögulegt að komast að því hvort fyrirtæki mismuna starfsmönnum sínum, m.a. á grundvelli kynferðis, og brjóti þannig jafnréttislög. Afnám launaleyndar er því án nokkurs vafa árangursrík leið til að vinna á kynbundnum launamun. Sjálfstæðismenn, og sér í lagi ungir sjálfstæðimenn, líta á sig sem hina einu sönnu talsmenn einstaklingsfrelsis en þeir hafa risið upp og talað gegn þessum hluta niðurstöðu hinnar þverpólitísku nefndar. Því hefur verið haldið fram að með afnámi launaleyndar verði öllum gert skylt á einhvern hátt að gefa upp laun sín. Það er alrangt. Verði frumvarpið að lögum hefur launþeginn val um hvort hann gefi upp laun sín eða ekki. Afnám launaleyndar þýðir jafnframt að vinnuveitanda verður ekki lengur leyfilegt að krefjast þess að starfsmenn hans haldi launum sínum leyndum. Það er réttur allra, kvenna og karla, að hljóta sömu laun fyrir sama vinnuframlag. Einhverjir myndu halda því fram að verið væri að brjóta á einstaklingsfrelsi þeirra sem hefðu 16% minni laun vegna kynferðis síns. Sjálfstæðismenn virðast því miður ekki vera sammála því.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand