Kveðjuskál Herra Oddssonar

Herra Oddsson eyddi stórum hluta ræðunnar í það að svívirða Samfylkinguna og þá sérstaklega formann hennar, áðurnefnda Ingibjörgu. Það er svo sem ekkert skrýtið að formaður stjórnmálaflokks sé ekki sammála formanni annars, til þess er nú einu sinni flokkaræðið en fyrr má nú rota en dauðrota. Sérstaklega í ljósi þess að formaðurinn, Herra Oddsson, hefur nú um langa tíð ríkt yfir þeim stjórnmálaflokki sem hvað mest hefur varið og stutt íslensk stórfyrirtæki í gegnum tíðina. Það var ekki hægt að láta ræðu fráfarandi formanns Sjálfstæðisflokksins framhjá sér fara, svo fyrirferðamikil var hún. Þó svo að undirritaður sé staddur erlendis þá endurómaði fýlan sem af henni gaus alla leið hingað til Berlínar.

Ekki það, Herra Oddsson hefur líklega fremur en flestir aðrir unnið sér það inn að mega rífa kjaft á pólitískum dánardegi sínum. Hann hefur líka verið duglegur við það alla tíð síðan í Útvarpi Matthildi. Og inn á milli komu þær stundir að manni fannst hann eiga rétt á því að vera stóryrtur- og mynntur.

Afrekin mörg
Sérstaklega minnist ég stórra yfirlýsinga hans þegar aðstoðarforsætisráðherra Taiwan kom hingað í heimsókn um árið. Herra Oddsson básúnaði það þá út um allan bæ að hann „léti ekki stórveldi úti í heimi segja sér fyrir verkum“. Þennan dag dáðist ég að Herra Oddssyni, enda honum hjartanlega sammála. Reyndar læddist að mér sá grunur að þetta væri einvörðungu illa dulbúin sjálfsauglýsing (sem í dag myndi teljast trademark) en ég ákvað að taka hann á orðinu.

Því má með sanni segja að mér hafi heldur betur brugðið í brún þegar tilkynnt var um það, eftir diplómatareisu til Kína stuttu eftir yfirlýsingu Herra Oddssonar (var kannski verið að biðjast afsökunnar?), að á leiðinni hingað væri forseti Kína, Slátrarinn frá Torgi hins Himneska Friðar, Jiang Zemin. Enn þyngra lagðist mér á hjarta að hundruðir manna skyldu vera fangelsaðir fyrir það eitt að berjast fyrir sjálfsögðum mannréttindum. Mér blöskraði svo að menn skyldu sitja undir því að slátrarinn skyldi við himneskt undirspil Atla Heimis Sveinssonar syngja My Way í kringlunni við lófaklapp forkólfa þjóðarinnar. „Hans Way“ var nefnilega að slátra fólki sem barðist fyrir mannréttindum heima fyrir. Ekki heyrði ég múkk frá Herra Oddssyni meðan á heimsókninni stóð, en kannski var hann svo upptekinn á þeirri stundu við að láta „stórveldi út í heimi segja sér fyrir verkum“!

Dæmin gæti ég tekið endalaus. Vinir og frændur í Hæstarétt, níðingskapur og stríð við öryrkja, fordóma og dónaskap við þá sem í sárri neyð stóðu í velmegunarsamfélaginu við hlið Mæðrastyrksnefndar, lokun á opinberum stofnunum sem ekki hlýddu fyrirmælum (eða ef ekki var um opinberar stofnanir að ræða þá er niðurskurður líka sterkur leikur), og loks persónulegt og opinbert hatur á formanni Samfylkingarinnar, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.

Maður hefur nú stundum á tilfinningunni að Herra Oddsson hefði ekkert á móti því ef kínverska leyniþjónustan hefði tekið hana með heim til að spyrja saklausra spurninga um bull eins og lýðræði, feminisma og aðgreiningu valds og viðskipta. En látum það liggja milli hluta í bili. Snúum okkar aftur að kveðjuskálinni sem hann flutti yfir sjálfum sér í erfidrykkjunni.

Aftur að skálinni
Herra Oddsson eyddi stórum hluta ræðunnar í það að svívirða Samfylkinguna og þá sérstaklega formann hennar, áðurnefnda Ingibjörgu. Það er svo sem ekkert skrýtið að formaður stjórnmálaflokks sé ekki sammála formanni annars, til þess er nú einu sinni flokkaræðið en fyrr má nú rota en dauðrota. Sérstaklega í ljósi þess að formaðurinn, Herra Oddsson, hefur nú um langa tíð ríkt yfir þeim stjórnmálaflokki sem hvað mest hefur varið og stutt íslensk stórfyrirtæki í gegnum tíðina.

Ekki þarf að leita langt aftur til þess að sjá hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hélt (með dyggum stuðningi Framsóknar) hlífðarskildi yfir Olíufélögunum með þau hjón Kristin og Sólveigu fremst í flokki. Hafi maður aðeins meira rými í minninu þá er ekki frá því að heitið Kolkrabbinn komi upp í hugann. Ég man nú ekki betur en þar hafi „innmúraðir“ eða jafnvel „frímúraðir“ Sjálfstæðismenn setið við alla katla. Og allt með dyggum stuðningi hins vel múraða Morgunblaðs. Að ónefndum hulduriddara flokksins, Kjartani nokkrum Gunnarssyni, sem fast heldur um taumana á leynifundum og sparslar yfir allar sprungur sem í fylkingunni birtast.

Að ógleymdu máli málanna, Baugsmálinu. Herra Oddsson virðist ekki geta komist yfir það að honum hafi mistekist að knésetja pörupiltana sem neituðu að spila eftir kóngsins reglum. Það sem Herra Oddsson sér ef til vill ekki er að það var hans eigin hefndarþorsti sem knésetti fjölmiðlamálið, ekki ósamræmi milli vilja hans og þjóðarinnar. Ég þori meira að segja að fullyrða að meirihluti þjóðarinnar vildi þá og vill enn að lög séu sett á eignarhald í fjölmiðlum. En frumvarpið má þá ekki vera sérsniðið að hagsmunum Sjálfstæðisflokksins. Einnig myndi ég ráðleggja mönnum frá því að rökstyðja málið með því að veifa ákveðnum blöðum í ræðustól Alþingis, það vill oft vera fráhrindandi og minna heldur á einræði en lýðræði, á ritskoðun en eðlilegar leikreglur í frjálsu landi.

Þverpólitísk nefnd hefur sett saman skýrslu þar sem málefnalegur grundvöllur náðist um hvers konar lög þurfi að setja við eignarhaldi á fjölmiðlum. Það var gert í stað þess að kosið væri um málið eins og stjórnarskráin segir til um. Herra Oddssyni var það fyrirgefið, það skildu allir að engin vill yfirgefa stjórnmálin með tapaða þjóðaratkvæðagreiðslu á bakinu eftir langt og gifturíkt starf. En engin ástæða er fyrir því að vera eitthvað að heiftúðgast út í það núna, svona sem kveðjuskilaboð til eftirmannsins. Það borgar sig nefnilega ekki að skipa mönnum fyrir úr gröfinni.

Já Herra Oddsson, illa fer það mönnum að kasta steinum úr glerhúsum.

Það er stundum sagt að ekki eigi að leyfa mönnum að skíta út sína eigin arflegð , sjaldan hefur það átt betur við en akkúrat núna.

(Mynd: Vesa Lindqvist/Matti Hurme, Nordiska rådet/Nordiska ministerrådet 2002.)

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand