„Kill all the Arabs!“

Við fyrstu sýn virðist manni að mögulega sé afstaða til deilunnar við botni Miðjarðarhafsins flokkadráttum háð. Vinstri menn standa með Palestínu, hægri menn standa með Ísraelum.

Við fyrstu sýn virðist manni að mögulega sé afstaða til deilunnar við botni Miðjarðarhafsins flokkadráttum háð.  Vinstri menn standa með Palestínu, hægri menn standa með Ísraelum.  Og vissulega styrkist það viðhorf með því að skoða félagskrár félaga eins og Frjáls Palestína og Zíon vinir Ísraels. Meira að segja vefsíður þessarra félagasamtaka eru rauð annars vegar og blá hins vegar.

Afstaða til þessarra deilna hlýtur þó að eiga sér djúpstæðari rætur heldur en skírskotun í sætisskipan franska þingsins á átjándu öld.  Getur það verið að við séum svo holl okkar flokki að við kjósum að túlka heimsmyndina algerlega út frá því þrönga sjónarhorni?

Fyrir mér hefur afstaða mín ekkert með flokk eða trú að gera.  Hún er algerlega byggð á upplifun minni á því sem er að gerast á þessum annars fallega stað.

Það var í mars, árið 2009, sem ég klöngraðist með allt mitt hafurtask í gegnum öryggishlið á Schiphol-flugvelli ásamt 13 bekkjarfélögum og einum kennara.  Þrátt fyrir að vera á evrópskum flugvelli voru spurningarnar ágengar og ítarlegar og ljóst að þetta yrði ekkert venjulegt ferðalag.  Hafi mér þótt spurningar hollenskra öryggisvarða óþarflega smámunasamar bliknar það í samanburði við spurningaflóðið sem beið mín á Ben Gurion flugvelli í Tel Aviv.  „Hvað ætlar þú að gera í Ísrael?“, „Af hverju ert þú í svona stórum hópi?“, „Ertu komin til að taka þátt í mótmælum?“.  Ég slapp þó í gegn eftir að hafa útskýrt mál mitt en mátti svo bíða í tvo tíma eftir bekkjarsystur minni, sem var yfirheyrð í lokuðu herbergi einhversstaðar bakatil.  Ástæðan: foreldrar hennar voru fæddir í Marokkó.

Áður en að ferðalagið hófst og í raun um leið og allur bekkurinn kaus það samhljóða að vinna þriggja mánaða lokaverkefni ársins í Palestínu og Ísrael, hafði ég ákveðið að afla mér heimilda frá báðum hliðum og fara til fyrirheitna landsins með hugan undirlagðan af jafnvægi og hlutleysi.

Hlutleysið fauk á þriðja degi.  Tel Aviv var vissulega áhugaverð borg, lifandi og skemmtileg og móttökur ísraelsku hippanna sem möglunarlaust leyfðu mér og bekkjarsysturminni að gista á sófunum hjá sér svo vikum skipti, voru sannarlega höfðinglegar.  En þegar ísraelskur leigubílstjóri sagði við mig á sinni gormæltu ensku: „I love Bibi [innskot höfundar: Bibi er gælunafnið á Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael], he‘s doing great.  I wish he would just get it over with and kill all the Arabs!“, þá tilheyrði hjarta mitt samstundis Palestínu.

Auðvitað dæmi ég ekki þetta flókna og pólitíska mál út frá ruglinu í fáfróðum leigubílsstjóra einvörðu, en á þriggja-mánaða tímabili lærði ég svo margt um þessa deilu, -og það sem meira var, upplifði átökin sterkt.  Þrátt fyrir að hafa kynnst frábærum og hjartahlýjum ísraelskum borgurum, þá getur það aldrei vegið upp á móti upplifun minni á misbeitingu þess valds sem Ísraelar hafa tekið sér.  Það að úrelt og gömul bók, skrifuð fyrir rúmum fimmtán hundruð árum, lofi einhverjum landsvæði á tilteknum stað getur aldrei réttlætt vegatálmana sem tefja palestínubúa (og aðra) á leið sinni á milli borga og hverfa daglega, jafnvel þótt þar séu á ferð konur á steypinum eða helsjúkt fólk, ólöglegu landnemabyggðirnar sem spretta upp eins og gorkúlur á þeim landsvæðum Vesturbakkans sem enn eru frjósöm, eða eftirlitshliðin á „landamærum“ Palestínu, sem halda Gaza-búum í algjöru fangelsi og skerða ferðafrelsi Vesturbakkabúa allverulega, allt eftir geðþótta ísraleskra hermanna.  Það réttlætir ekkert að skólabörn séu skotin þegar þau stytta sér leið yfir akra landnemabyggðanna, á svæðum sem áður tilheyrðu Palestínu en hafa nú verið yfirtekin með yfirgangi.  Það réttlætir ekkert að íbúar Gaza séu ekki frjálsir ferða sinna.  Það réttlætir í raun ekkert að ein þjóð kúgi aðra þjóð.

Svo ég stend með Palestínu, af því að ég stend með mannréttindum og frelsi og friði.  Ekki vegna þess að ég er vinstrisinnuð.

***

Þann 15. desember staðfestu stjórnvöld formlega ályktun Alþingis um formlega viðurkenningu á fresli og fullveldi Palestínu.  Ég hef aldrei verið jafnstolt af Alþingi.  Ég hef aldrei verið jafnstolt af því að vera Íslendingur.

Höfundur
Inga Auðbjörg Kristjánsdóttir

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand