Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra bauð Ungum jafnaðarmönnum til sín til að tala um málaflokka ráðuneytisins. Tóku þar á móti okkur Katrín Júlísdóttir ráðherra, Kristján Skarphéðinsson ráðuneytisstjóri og Kolbeinn Marteinsson aðstoðarmaður ráðherra.
Iðnaðarráðuneytið er eitt minnsta ráðuneytið þar sem starfa 18 manns en við það bætast undirstofnanir og starfsfólk þeirra, sem eru Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, Orkustofnun og Byggðastofnun. Ráðuneytið leggur áherslu á samvinnu milli þessara stofnana og að þær vinni sem ein heild að tilteknum verkefnum.
Á Íslandi hefur orðið eins konar vakning á málefnum stjórnsýslunar eftir hrun, ýmis umbótaverkefni hafa farið af stað og er stjórnsýslan í sífelldri skoðun. Kristján segir stjórnsýsluna andlitslausa, eins og hún kannski á að vera, ráðherra er andlit hennar í hverjum málaflokki fyrir sig og veltur frammistaða hans að miklu leyti á því hvernig fólkið innan stjórnsýslunnar vinnur. Sagði hann að aldrei í hans tíð hafi pólitík verið beitt í stjórnsýslunni heldur starfsfólki treyst fyrir sinni vinnu. Lítið er um flokkadrætti meðal starfsfólks heldur sinnir það sinni vinnu af fagmennsku sama hvaða stjórnmálaflokkur er við stjórn.
Katrín leggur mikla áherslu á að stjórnsýslan snúist um verkefnin, vaxi lífrænt og færist til eftir verkefnum hverju sinni en ekki eftir dálki í fjárlögum. Hér þarf einnig að huga að því hvaða iðnaðir eru í vexti á Íslandi, veita verði hinum nýu greinum meiri athygli og jafna áherslur í atvinnumálum.
Hugmyndir um að ráðherrar hafi pólitíkst teymi sér innan handar hafa komið upp og sagði Katrín að hún hefði velt þessu fyrir sér og hún teldi að gott væri að hafa lítið ráðgjafarteymi sem samanstæði þá af tveim sérfræðingum og aðstoðarmanni sér til aðstoðar. Aftur á móti gengi mjög vel að vinna með sérfræðingum ráðuneytisins og ríkti þar fullt traust á milli.
Fyrir liggur sameining Iðnaðarráðuneytis og Sjávar- og landsbúnaðarráðuneytis í eitt Atvinnumálaráðuneyti. Hefur ráðuneytið tekið virkan þátt í undirbúningi þeirrar sameiningar sem fyrirhuguð er í vor. Sú sameining er pólitískt verkfæri fyrir það fyrsta en einnig tækifæri til þess að efla starfsemina og stuðla að heildrænni sýn á atvinnumál landsins.
Í kjölfar eldgosins í Eyjafjallajökli myndaðist gott og náið samstarf milli ráðuneytisins og ferðaiðnaðarins. Í dag er ráðuneytið ásamt ferðaiðnaðinum að fara í sameiginlegt átak til að fjölga ferðamönnum á Íslandi yfir vetrartímann þar sem allar ákvarðanir eru teknar í sameiningu. Eitt verkefni þessu aðlútandi er mannvirkjagerð á ferðmannastöðum þar sem áhersla er lögð á íslenska hönnun í anda hefðar og í sátt við náttúru. Fyrir þessi verkefni er hægt að sækja um styrki í samkeppnissjóð og geta sem dæmi landeigendur og sveitarfélög sótt um saman í sjóðinn til að byggja upp ferðamannastaði á sínu landsvæði.
Annar sjóður, Tækniþróunarsjóður, er sjóður sem ráðuneytið telur hafa heppnast vel og væri hægt að kalla eins konar flaggskip í nýsköpun. Hlutverk sjóðsins er að styðja þróunarstarf og rannsóknir á sviði tækniþróunar sem miða að nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Stjórn sjóðsins er skipuð til tveggja ára í senn og má hver sitja tvö kjörtímabil. Er þetta gert til að tryggja endurnýjun stjórnarmanna. Hefur þessi sjóður stuðlað að raunverulegri uppbyggingu fyrirtækja og mætti fá mun meiri athygli fyrir.
Nýsköpunarmál er annar málaflokkur sem ekki hefur fengið næga athygli þrátt fyrir mikinn vöxt. Sem dæmi má nefna að í dag eru um 100 fyrirtæki sem starfa á frumkvöðlasetrinu og eru þar um 200 starfsmenn. Eru þarna verkefni sem gera þarf sýnilegri og eru nú margar flottar hugmyndir sem ekki hafa haft aðgang að lánsfé að komast á legg vegna sjóða á vegum ráðuneytisins.
Við náðum eingöngu að tipla á stóru er kom að orku- og auðlindarmálum þar sem tíminn var að hlaupa frá okkur, en Katrín lagði áherslu á hversu mikilvægt er að hugsa í heildarlausnum er kemur að orku- og auðlindarmálum fremur en að ræða við eitt og eitt fyrirtæki um minni verkefni. Sem dæmi var Katrín ekki tilbúin til þess að undirrita viljayfirlýsingu við stórfyrirtækið Alcoa því hún telur ekki að slík risafyrirtæki eigi að starfa í skjóli ríkis. Getum við ekki verið annað en sammála Katrínu og styðjum þá ákvörðun heils hugar. Í þessum málaflokki er stefnumörkun ráðuneytisins skýr og er hún framkvæmd á þann hátt að hún er brotin niður í verkefni og þeim svo hrundið af stað.
Hefðum við getað setið mun lengur með Katrínu og starfsfólki hennar þar sem verkefni ráðuneytisins eru mörg og spennandi en tími ráðherra er þéttbókaður og þökkum við henni kærlega fyrir þann tíma sem hún veitti okkur. Lukum við heimsókninni með það á tilfinningunni að þarna væri ráðherra sem væri samkvæm sjálfri sér og vinni af mikilli elju til að hinir nýju iðnaðir landsins fái að vaxa.