Jöfnum rétt samkynhneigðra para til ættleiðinga

Ýmislegt hefur áunnist í baráttunni fyrir jöfnum réttindum samkynhneigðra á við gagnkynhneigða á undanförnum árum en betur má ef duga skal. Það er til dæmis ekkert sem réttlætir núverandi takmörkun á rétti samkynhneigðra para til frumættleiðinga. Margt hefur áunnist í baráttunni fyrir jöfnum réttindum samkynhneigðra á við gagnkynhneigða á undanförnum árum en betur má ef duga skal. Það er til dæmis ekkert sem réttlætir núgildandi takmarkanir á rétti samkynhneigðra para til frumættleiðinga. Engin gild rök eru til þess að meta slík fjölskyldumunstur minna en önnur og ótti við þau er sem betur fer á undanhaldi. Samkynhneigðir eru að sjálfsögðu alveg jafn hæfir uppalendur og gagnkynhneigðir.

Þarf Ísland að vera aftarlega?
Núna hafa samkynhneigðir rétt á því að ættleiða barn maka síns, þ.e. svokallaðar stjúpættleiðingar eru leyfðar. Þeir hafa hins vegar ekki rétt á svokallaðri frumættleiðingu eða ættleiðingu barns sem ekki er barn eða kjörbarn annars hvors aðilans. Í Svíþjóð eru hins vegar í gildi lög sem heimila samkynhneigðum að ættleiða börn til jafns við gagnkynhneigða þ.e. með frumættleiðingu. Í Hollandi er sömuleiðis búið að leiðrétta lögin um ættleiðingar og fjölmörg önnur Evrópulönd eru í þann mund að gera slíkt hið sama. Skv. könnun sem birtist í DV í fyrra eru Íslendingar búnir að átta sig á því að þetta eru sjálfsögð mannréttindi og 67% aðspurðra sögðust vera fylgjandi lagabreytingu.

Ekkert jafnræði í lögum
Ættleiðingarlögin gera ráð fyrir að einstaklingar geti ekki ættleitt nema við sérstakar aðstæður þar sem ættleiðingin er án nokkurs vafa talin barninu til hagsbóta. Ættleiðingar einstaklinga heyra því til undantekninga og reglur um slíkt eru þröngt skilgreindar. Venjulega er miðað við að um hjón eða pör í óvígðri sambúð til að minnsta kosti 5 ára sé að ræða. Pör í staðfestri samvist eiga svo eins og áður sagði rétt á því að stjúpættleiða. Hindrunin fyrir fullum ættleiðingarétti þeirra er síðan sú að skv. 6. grein laga um staðfesta samvist nr. 87/1996 gilda ákvæði ættleiðingarlaga um hjón en ekki um staðfesta samvist.

Alþingi ,,allra” Íslendinga
Þingkona Samfylkingarinnar, Guðrún Ögmundsdóttir, hefur verið ötul baráttukona fyrir réttindum samkynhneigðra og nú hefur henni góðu heilli borist liðsauki í Katrínu Júlíusdóttur, fyrrverandi formanni UJ, sem komst á þing í síðustu kosningum og sem hefur ætíð borið réttindi samkynhneigðra fyrir brjósti. Mér að vitandi gildir slíkt hið sama raunar um allan þingflokk Samfylkingarinnar og ætti því að vera hægt um vik fyrir Alþingi að taka á dagskrá hina nauðsynlegu réttarbót sem breytingar á ættleiðingalöggjöfinni er.

Látum í okkur heyra
Það vakti nokkra athygli fyrir skemmstu þegar að við Ungir jafnaðarmenn í Reykjavík gengum á fund kaþólsku kirkjunnar hér á landi og báðum hana fyrir bréf til Jóhannesar Páls páfa II. Ætlunarverk okkar þá var að vekja athygli á þeirri fornaldarlegu yfirlýsingu gegn staðfestum samvistum samkynhneigðra sem nokkrum dögum áður hafði komið frá Páfagarði. Upp úr þessu öllu saman spratt mikil umræða um réttindi samkynhneigðra sem náði hámarki á Hinsegin dögum þar sem tugþúsundir Íslendinga sýndu skoðun sína í verki með því að fagna Gay-pride göngunni þrátt fyrir mígandi rigningu í miðborg Reykjavíkur. Tími er kominn til að fylgja þessu eftir og þrýsta á um réttinn til frumættleiðinga. Nú þegar við vitum öll og skiljum að það er út í hött að mismuna eftir kynhneigð þá megum við ekki gefast upp fyrr en öllu óréttlæti hefur verið úthýst.

Látum í okkur heyra!

Tengdar síður:
Samtökin 78
FSS
Konur með konum

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand