Jafnrétti kynja, fólk á flótta og loftslagsmál á dagskrá Norðurlandaráðs ungmenna

Fjöldi ályktana var afgreiddur á þingi Norðurlandaráðs ungmenna (UNR), sem fór fram í Osló um helgina. Meðal ályktana frá FNSU, regnhlífarsamtökum Ungra jafnaðarmanna á Norðurlöndunum, var ályktun um móttöku fleira flóttafólks og endurskoðun Dyflinnarreglugerðarinnar. Nikólína Hildur Sveinsdóttir og Óskar Steinn Ómarsson sátu þingið fyrir hönd Ungra jafnaðarmanna.

Nikólína, sem er alþjóðaritari Ungra jafnaðarmanna, er ánægð með að ályktunin um móttöku flóttafólks hafi náð fram að ganga. „Við sjáum upprisu öfga-hægriflokka sem berjast gegn móttöku flóttafólks en Norðurlandaráð ungmenna sendir hér skýr skilaboð um að við viljum taka við fleira fólki,“ segir Nikólína. „Einnig viljum við endurskoða Dyflinnarreglugerðina, en henni er miskunnarlaust beitt af íslenskum stjórnvöldum til að vísa umsækjendum um alþjóðlega vernd úr landi,“ bætir Nikólina við, en hún talaði fyrir ályktuninni á þinginu.

Ekki voru allir sammála um að taka ætti á móti fleira flóttafólki, en á þinginu voru einnig fulltrúar frá ungliðahreyfingum Svíþjóðardemókrata, Sannra Finna og Danska þjóðarflokksins, sem allir hafa mjög harða stefnu gegn flóttafólki. Meðal ályktana sem þessar hreyfingar lögðu fram var ályktun um að hefja umfangsmikla landamæragæslu á ytri landamærum Norðurlandanna og önnur um að taka upp skilríkjaeftirlit innan Norðurlandanna. Ungir jafnaðarmenn mótmæltu þessum tillögum harðlega og þær voru allar felldar.

Hreyfing jafnaðarmanna náði fjölda ályktana í gegn á þinginu. Þar má nefna ályktanir sem sneru að aðgerðum í loftslagsmálum, banni við örplasti, jöfnum rétti kvenna til þungunarrofs á öllum Norðurlöndum og auknu jafnrétti allra kynja í skólakerfinu. Á þinginu fór einnig fram kjör forseta UNR og var hin færeyska Barbara Gaardlykke Apol, frambjóðandi FNSU, kjörin forseti. Hún mun því tala máli ungs fólks í Norðurlandaráði næsta árið. Óskar Steinn var kjörinn varafulltrúi í stjórn UNR.

Á þingi UNR eiga sæti fulltrúar frá ungliðahreyfingum þeirra stjórnmálaflokka sem sitja í Norðurlandaráði. FNSU, norðurlandahreyfing Ungra jafnaðarmanna, er stærsta hreyfingin í Norðurlandaráði ungmenna. Þær ályktanir sem samþykktar eru á þinginu eru bornar upp á þingi Norðurlandaráðs. Þar sitja þingmenn frá öllum þjóðþingum Norðurlandanna og þar er mótuð sameiginleg norræn stefna í ýmsum málum.

Þinginu lauk í dag og í kjölfarið héldu Nikólína og Óskar Steinn til Stokkhólms, þar sem þau munu sitja fund FNSU, regnhlífarsamtaka Ungra jafnaðarmanna á Norðurlöndum.

 

 

 

Fulltrúar FNSU, samtaka Ungra jafnaðarmanna á Norðurlöndum, á þinginu.

 

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand