Í alþjóðlegum samanburði stendur Ísland mjög vel að vígi þegar kemur að mannréttindum hinsegin fólks. Samkvæmt regnbogakorti ILGA-samtakanna, alþjóðlegra réttindasamtaka hinsegin fólks, er Ísland í 12. sæti af 50 í Evrópu. En hvernig stöndum við okkur gagnvart hinsegin útlendingum sem sækja hér um alþjóðlega vernd?
Í gær bárust þær fréttir að vísa eigi hópi umsækjenda um alþjóðlega vernd úr landi. Einn umsækjendanna er hinsegin og báðir hefur upplifað ofsóknir og ofbeldi vegna kynhneigðar sinnar. Hann hefur búið á Íslandi í fjögur ár. Hann hefur eignast hér vini, fengið vinnu og dafnað vel. Þrátt fyrir þetta hefur Útlendingastofnun ákveðið, í krafti Dyflinnarreglugerðarinnar, að hann fái ekki dvalarleyfi hér á landi.
Þetta er ekki fyrsti hinsegin útlendingurinn sem íslensk stjórnvöld vísa úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun hefur ítrekað gerst sek um að misbeita reglugerðinni. Snúið veruleika venjulegs fólks á haus og sent það út í óvissuna. Með því að vísa einstaklingum í svona viðkvæmri stöðu úr landi eru íslensk stjórnvöld að bregðast siðferðislegum skyldum sínum. Ljóst er að brýn þörf er á stefnubreytingu í þessum málum.
Við þurfum að breyta viðhorfi okkar gagnvart útlendingum sem vilja setjast hér að. Í stað þess að leita leiða til að vísa fólki úr landi ættum við að leita allra leiða til að laða fólk til landsins. Íslensku samfélagi stafar engin ógn af innflytjendum. Þvert á móti felst í því mikill styrkur fyrir íslenskt samfélag að fólk alls staðar að úr heiminum vilji búa á Íslandi. Þá eiga Íslendingar, sem eru meðal fremstu þjóða heims þegar kemur að mannréttindum hinsegin fólks, að leggja sig fram um að bjóða hinsegin fólki öruggt skjól.
Á meðan beðið er eftir þessum breytingum þarf innanríkisráðherra að vakna og stöðva þessa siðlausa misbeitingu Útlendingastofnunar á Dyflinnarreglugerðinni.
Óskar Steinn Ómarsson, Ungur jafnaðarmaður