100 mannslíf

Bílar drepa. Ég er ekki að tala um bílslys, þó vissulega valdi þau dauða fjölda Íslendinga á ári hverju. Ég er að tala um svifrykið sem myndast þegar þúsundir Íslendinga setjast hver í sinn bílinn á háannatíma og keyra í takt til og frá vinnu eða skóla. Ég á við reykinn sem er svo vondur á bragðið að mörg okkar höldum niðri í okkur andanum meðan beðið er við gangbraut.

Á Íslandi er talið að hundrað manns hafi dáið ótímabært af völdum loftmengunar á síðasta ári. Loftmengunar sem rekja má að langmestu leyti til bílaumferðar. Þetta er mat Umhverfisstofnunar Evrópusambandsins, sem í nýrri skýrslu áætlar að nær hálf milljón Evrópubúa hafi dáið af sömu sökum. Hér á landi erum við að tala um tvær manneskjur í hverri einustu viku.

Söguleg mistök

Útþensla byggðar á höfuðborgarsvæðinu í allar áttir hefur reynst okkur dýrkeypt mistök. Svæðið hefur hreinlega verið skipulagt fyrir bílaumferð. Höfuðborgarsvæðið er mjög strjálbýlt í alþjóðlegum samanburði og áhrif þess á samgöngur og samgöngumynstur eru mikil. Fjöldi bíla á Íslandi er orðinn álíka mikill og fjöldi íbúa og hið dreifða skipulag veldur því að leiðakerfi Strætó hentar einfaldlega ekki nógu mörgum. Bílaflotinn veldur útblæstri gróðurhúsalofttegunda og mikilli rýrnun loftgæða á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega á háannatíma.

Fólksfjölgun á höfuðborgarsvæðinu á næstu áratugum krefst þess að við förum aðrar leiðir í skipulags- og samgöngumálum. Við þurfum að draga skynsamleg mörk um útþenslu byggðar. Við þurfum að byggja þéttar og gera ráð fyrir fjölbreyttari byggð. Í stað dýrra framkvæmda í nýjum umferðarmannvirkjum þurfum við að auka frelsi þeirra sem vilja lifa bíllausum lífsstíl. Það gerum við með því að leggja áherslu á umbætur í almenningssamgöngum og innviðum fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.

Við höfum allt að vinna. Með breyttum áherslum í skipulagsmálum og fjárfestingu í öflugu kerfi almenningssamgangna getum við breytt ferðavenjum okkar. Með breyttu ferðamynstri drögum við úr þörfinni á dýrum vegaframkvæmdum. Með fækkun bíla á götunum drögum við úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og stuðlum að hreinna, hagkvæmara og öruggara höfuðborgarsvæði. Við getum í alvöru bjargað mannslífum.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið