Icesave vitleysan nær nýjum hæðum

Ég var eflaust ekki ein um að hafa fengið stóran hnút í magann á þriðjudaginn þegar ljóst varð að Ólafur Ragnar Grímsson ákvað að synja lögum um ríkisábyrgð á Icesave staðfestingar.

Ég var eflaust ekki ein um að hafa fengið stóran hnút í magann á þriðjudaginn þegar ljóst varð að Ólafur Ragnar Grímsson ákvað að synja lögum um ríkisábyrgð á Icesave staðfestingar og vísa þeim til þjóðarinnar. Ég sá strax fyrir mér hryllinginn sem kæmi í kjölfarið. Allir þeir umræðuþættir, allt það blogg, öll þau tilgangslausu rifrildi um ekki neitt á Alþingi og í raun bara allt það bull sem venjulega fylgir umræðum á Íslandi. Nema í þetta sinn erum við þegar búin að sitja undir nákvæmlega því í marga mánuði. Allt of lengi. Allt of sjaldan hefur fólk líka verið að tala um eitthvað sem raunverulega skiptir máli. Árið 2010 átti ekki að snúast um Icesave, það átti að snúast um endurreisn.

Forsetinn tók ákvörðun
Svo leið dagurinn og margir fögnuðu og aðrir voru reiðir. Sumir voru eflaust bara bugaðir. Fólk velti fyrir sér á hvaða grundvelli forsetinn hefði tekið þessa ákvörðun eða hvort þetta væri einhvers konar tilraun hans til að efla fylgi sitt. Sjálfri fannst mér rökstuðningur hans afar hæpinn. Hann taldi sig hafa skynjað að það væri þingmeirihluti fyrir þjóðaratkvæðagreiðslunni þrátt fyrir að viku áður hafði tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave verið felld á Alþingi. Svo talaði hann um að ná sáttum í málinu meðal þjóðarinnar og eitthvað fleira fallegt. En það skiptir í raun ekki máli hvað knúði forsetann áfram. Hann hefur þennan rétt samkvæmt 26. gr. stjórnarskrárinnar og hann þarf í raun ekkert að rökstyðja eitt né neitt þegar hann nýtir sér þann rétt. Þetta stendur í stjórnarskrá og þessu hefur ekki verið breytt, þrátt fyrir að mikið hafi verið rætt um það síðustu ár.

Alvarlegar afleiðingar
Afleiðingar synjunarinnar hafa ekki látið á sér standa. Lánshæfismatið er komið í ruslflokk og atvinnulífið áhyggjufullt. Augu alþjóðapressunnar hvíla á okkur. Reyndar virðast ýmsir erlendis halda að forsetinn hafi með þessu ákveðið það einn síns liðs að við ætlum ekki að borga – en það virðist raunar einnig skilningur margra Íslendinga þó hann sé að breytast hægt og rólega. Staðreyndin er hins vegar sú að við höfum margoft sagt að við ætlum að ganga frá þessum skuldbindingum. Ekki endilega af því að okkur er það skylt, heldur vegna þess að við getum hreinlega ekki gert annað. Það er súrt en það er staðreynd. Það sem forsetinn gerði var einungis að vísa þessum tiltekna Icesave samningi til þjóðarinnar. Hann er ekki töframaður sem lét skuldina hverfa.

Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn skipta um skoðun
Það hefur komið fram á mörgum stöðum að þetta er það besta sem okkur býðst. Indefence trúir því ekki, ekki Sigmundur Davíð og ekki Sjálfstæðismenn heldur. Það hefur líka komið fram margoft að við ættum að geta staðið við samninginn eins og hann er í dag. Hann mun ekki setja okkur á hausinn, Icesave skuldin er aðeins lítill hluti af þeirri óreiðu sem þarf að greiða úr eftir hrunið og við vitum öll hverjir bera höfuðábyrgð á hruninu. Málþófið og lýðskrumið sem hefur átt sér stað síðustu mánuði átti sennilega stóran þátt í því að ýta forsetanum í þá átt sem hann kaus að fara. Þess vegna er grátbroslegt að nú þegar til kastanna kemur eru Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn búnir að skipta um skoðun. Þeir vilja enga þjóðaratkvæðagreiðslu og segjast bera hag ríkisstjórnarinnar fyrir brjósti (í alvöru strákar, það trúir ykkur enginn). Þetta er einstaklega sérstakt í ljósi þess að þessir sömu menn studdu fyrir rétt rúmri viku að vísa Icesave til þjóðarinnar. Hvað hefur breyst síðan þá? Eru þeir kannski farnir að átta sig á að það sem þeir kölluðu hræðsluáróður fyrir nokkrum dögum er bara svellkaldur veruleiki? Það er bókstaflega allt að „rætast“ og alls ekki víst að við getum, eða hreinlega höfum tíma til að fá betri samning áður en hér fer allt gjörsamlega á hliðina.

Hverjum treystir þjóðin?
Á meðan hefur ríkisstjórnin hafið undirbúning þjóðaratkvæðagreiðslu í samræmi við ákvæði stjórnarskrár og mun hún fara fram eins fljótt og auðið er. Nú standa Íslendingar í þeim sporum að þurfa að taka afstöðu til Icesave. Hvernig á fólk þá að velja hvorn kostinn það velur? Auðvitað vill í raun og veru enginn borga Icesave. Val þjóðarinnar stendur á milli þess að ganga frá Icesave í samræmi við þennan samning sem Bretar og Hollendingar hafa þegar samþykkt eða hvort við viljum hefja enn annan leiðangur og reyna að semja aftur. Hver veit svo hversu langan tíma þær munu taka eða hver fórnarkostnaðurinn af þeim verður á meðan önnur verkefni sitja á hakanum eða ná ekki fram að ganga vegna slæmrar stöðu efnahagsmála. Umræðan síðustu mánuði hefur, með örfáum undantekningum, einkennst af upphrópunum og áróðri í allar áttir. Nú er bara spurning hvorum þjóðin vill treysta, þeim sem hafa gert sitt besta til að leysa málið og verið samkvæm sjálfri sér í þeirri vinnu eða þeim sem hafa sveiflast fram og til baka í afstöðu sinni gagnvart öllum þáttum málsins og virðast ekki einu sinni trúa á sína eigin skoðun.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið