Hvernig á að kjósa forsetann?

Arnar Þór Stefánsson skrifaði grein á vefinn deiglan.com á dögunum þar sem hann velti fyrir sér þeim reglum sem gilda um framboð og kjör til embættis forseta Íslands. Arnar kemst að þeirri niðurstöðu í grein sinni að skynsamlegt sé að halda forsetakosningar í tveimur umferðum til að tryggja að forsetinn hafi meirihluta atkvæða á bak við sig, að fjölga beri meðmælendum með forsetaframboði og svo lætur hann að því liggja að lækka beri kjörgengisaldurinn úr 35 árum í 18 ár þannig að hann verði sá sami og til Alþingis og sveitarstjórna. Arnar Þór Stefánsson skrifaði grein á vefinn deiglan.com á dögunum þar sem hann velti fyrir sér þeim reglum sem gilda um framboð og kjör til embættis forseta Íslands. Arnar kemst að þeirri niðurstöðu í grein sinni að skynsamlegt sé að halda forsetakosningar í tveimur umferðum til að tryggja að forsetinn hafi meirihluta atkvæða á bak við sig, að fjölga beri meðmælendum með forsetaframboði og svo lætur hann að því liggja að lækka beri kjörgengisaldurinn úr 35 árum í 18 ár þannig að hann verði sá sami og til Alþingis og sveitarstjórna.

Fjölgum meðmælendum,…
Um meðmælendafjöldann erum við Arnar alveg sammála. Í 1. mgr. 5. gr. stjórnarskrárinnar segir að forsetaframbjóðandi skuli hafa meðmæli að lágmarki 1500 en að hámarki 3000 kosningarbærra manna. Þessi grein hefur verið óbreytt frá árinu 1944, en ef krafist væri sama meðmælendafjölda sem hlutfalls af kjörskránni núna væri lágmarkstalan 4200 en hámarkstalan 8400 (milli 2% og 4% af kjörskrá). Ég tel eðlilegt að 1. mgr. 5. gr. stjórnarskrárinnar verði breytt á þann veg að í framtíðinni verði meðmælendafjöldinn tilgreindur sem ákveðið hlutfall af kjörskrá, til dæmis 2%. Með því yrði komist hjá óþarfa umstangi við breytingar á stjórnarskrá samfara fjölgun þjóðarinnar.

…höldum í kjörgengisaldurinn…
Um það atriði hvort lækka eigi kjörgengisaldur til forsetaembættis úr 35 árum í 18 ár, verð ég að segja að mér finnst eðlilegt að þessi aldur sé nokkru hærri en í tengslum við kjör til Alþingis og sveitarstjórna. Forsetaembættið er þjóðhöfðingjaembætti og nýtur sérstöðu í stjórnskipaninni. Ég tel mikilvægt að í það veljist fólk með ákveðna reynslu og yfirsýn. Menn geta aftur á móti verið mér ósammála um þetta viðhorf og jafnvel talið það dálítið gamaldags og ég get vel skilið það.

…og könnum hvort þörf er breytinga á reglum um hvað nægir til að ná kjöri
Það er rétt hjá Arnari að samkvæmt núgildandi skipan getur fólk náð kjöri í embættið með tiltölulega fá atkvæði á bak við sig. Þannig hefur aðeins einn hinna þjóðkjörnu forseta, Kristján Eldjárn, náð því að vera kjörinn í fyrsta skipti með meirihluta atkvæða; Vigdís Finnbogadóttir fékk til dæmis aðeins ríflega þriðjung atkvæða árið 1980. Arnar bendir á að til að tryggja að forseti hafi meirihluta þjóðarinnar á bak við sig væri hægt að halda aðra umferð kosninganna þar sem tveir hinir efstu úr fyrri umferð myndu etja kappi, að því gefnu að enginn einn hefði fengið yfir helming atvæða strax í byrjun.

Nú eru kosningar afar mikilvægar og hornsteinn lýðræðisins. En það breytir því ekki að önnur umferð í forsetakosningum yrði dýr og tímafrek fyrir almenning. Það er líka hætt við að fólk þreyttist á að ganga að kjörborðinu ef kosningar yrðu of tíðar.

Og þá vaknar spurningin: Er hægt að halda forsetakosningar sem eru aðeins í einni umferð en samt reyna að tryggja að forseti hafi einhvers konar meirihlutafylgi á bak við sig?

1, 2, 3 og það varst þú…
Ég tel að þetta sé hægt með því að taka upp kerfi sem felst í því að fólk númeri alla frambjóðendurna á kjörseðlinum – sá fái númerið eitt sem fólk vill helst, númer tvö sem það vill næsthelst og svo koll af kolli. Í kosningunum árið 1996 hefði einhver til dæmis getað kosið Ólaf númer eitt, Pétur númer tvö, Guðrúnu númer þrjú og Ástþór númer fjögur, ef honum hefði sýnst svo.

Við talningu atkvæða í slíku kerfi er byrjað að telja öll atkvæði sem eru númer eitt. Ef einhver fær hreinan meirihluta strax er óþarfi að telja meira. En ef enginn fær hreinan meirihluta af atkvæðum númer eitt, eins og hefði gerst 1996, er haldið áfram og sá frambjóðandi sem hefur fæst atkvæði númer eitt „afskrifaður“. Ástþór Magnússon hefði til dæmis dottið fyrst út ’96 með sín 2,7%.

Þá hefði verið kannað hvað kjósendur sem merktu við Ástþór sem valkost númer eitt, merktu við sem valkost númer tvö. Atkvæði greidd Ólafi númer tvö á þessum kjörseðlum hefðu nú flust yfir á hann, sem og hefðu atkvæði merkt Guðrúnu númer tvö og Pétri númer tvö flust yfir á þau.

Enn hefði ekkert þeirra Ólafs, Péturs og Guðrúnar verið komið með hreinan meirihluta, þrátt fyrir viðbótina frá Ástþóri. Því hefði það þeirra sem hafði fæst atkvæði, í þessu tilviki Guðrún, verið „afskrifuð“ næst. Eins hefði verið farið með hennar atkvæði og atkvæði Ástþórs og nú hefði annar hvor þeirra Péturs eða Ólafs verið kominn með hreinan meirihluta.

Margar útfærslur eru til af svona kerfi og ein þeirra hefur meira að segja verið tekin upp við forsetakosningar á Írlandi. Af þessu öllu ætti að vera ljóst að það er alls ekki útilokað að samræma þau sjónarmið að forseti hafi breiðari stuðning á bak við sig en nú og að best sé að hafa forsetakosningar í einni umferð.

Hægt að breyta fyrir kosningarnar 2008
Ef vilji stæði til væri hægt að taka upp nýja skipan við forsetakosningarnar árið 2008. Það er reyndar afar mikilvægt að mínu mati að fyrir þann tíma verði búið að breyta reglum um meðmælendafjöldann. Á öðrum breytingum liggur kannski ekki eins mikið – en líklega er þó réttast að fundin verði heppileg lausn til frambúðar hið fyrsta svo að ekki þurfi stöðugt að vera að hreyfa við og breyta þeim greinum stjórnarskrárinnar sem fjalla um kjör forseta Íslands.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand