Hugum að nærumhverfinu!

,,Umhverfismálin eru stöðugt að verða heitari. Margir telja nóg komið af stóriðju og vilja hlífa náttúru Íslands eins og kostur er við frekari virkjunum. En það eru ekki aðeins stóriðjumálin, sem eru á milli tannanna á fólki, heldur einnig ýmis önnur mál sem varða umhverfið og má þar nefna ýmsar framkvæmdir í þéttbýli sem fólk telur valda eyðileggingu á umhverfinu.” Segir Þórður Sveinsson í grein dagsins. En hann telur framkvæmdirnar við Álafosskvosina í Mosfellsbæ og Heiðmerkumálið vera góð dæmi um slík mál.

Umhverfismálin eru stöðugt að verða heitari. Margir telja nóg komið af stóriðju og vilja hlífa náttúru Íslands eins og kostur er við frekari virkjunum. En það eru ekki aðeins stóriðjumálin, sem eru á milli tannanna á fólki, heldur einnig ýmis önnur mál sem varða umhverfið og má þar nefna ýmsar framkvæmdir í þéttbýli sem fólk telur valda eyðileggingu á umhverfinu.


Álafosskvosin

Framkvæmdirnar við Álafosskvosina í Mosfellsbæ eru þar gott dæmi. Bæjarstjórnarmeirihluti Sjálfstæðisflokks og Vinstri-grænna vill leggja veg rétt hjá kvosinni yfir Varmána, en um þennan veg færu 10.000 bílar á dag. Kyrrðin, sem nú ríkir í Álafosskvosinni, yrði þá fyrir bí og allt það sem gerir hana að náttúruperlu úr sögunni.


Þetta ætti að vera hverjum manni ljóst og bæjarfulltrúar Samfylkingar í Mosfellsbæ – og raunar einnig bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins – reyna allt hvað þeir geta að hindra eyðileggingu Álafosskvosar.

Mörgum þykir þetta mál kannski smátt í sniðum miðað við mörg önnur, en ég er á því að svo sé ekki. Ég tel það alveg jafnmikilvægt að vernda umhverfið í þéttbýlinu á Suðvestur-horninu eins og til dæmis uppi á hálendinu. Við þurfum á því að halda að geta leitað einhvers staðar í kyrrð og þess vegna þurfa að vera til náttúruperlur á borð við Álafosskvosina innan höfuðborgarsvæðisins – því að við höfum ekkert alltaf tök á því að fara út fyrir borgina – vegna vinnu og ýmissa skylduverka.


Með öðrum orðum, þá má þéttbýli alls ekki verða að einni umferðargötu- og bílastæðaklessu – sem fremur miðast við reykspúandi blikkbeljur heldur en fólk. Einhvers staðar þurfum við að fá andrúm. Einhvers staðar þurfum við að geta slakað fullkomlega á og komist burt frá öllu borgarstressinu.


Afstaða Vinstri-grænna

Það að bæjarfulltrúi Vinstri-grænna í Mosfellsbæ skuli ekki átta sig á þessu er ofvaxið mínum skilningi. Ég hélt það væri sameiginlegur skilningur okkar sem stöndum til vinstri í pólitíkinni – bæði í Samfylkingunni og Vinstri-grænum – að skipulag þéttbýlis eigi að taka mið af umhverfissjónarmiðum og hvetja til fólk til útiveru og heilbrigðra lífshátta í stað þess að fara út um allt á reykspúandi einkabíl.

Já, sannir vinstrimenn eru á móti hinum skefjalausa einkabílisma vegna þess að hann er slæmur fyrir umhverfið og felur í sér gegndarlausa sóun – einn í hverjum bíl og tilheyrandi útblástur gróðurhúsalofttegunda, svifryk og slit á götum.


Þess vegna væri bæjarfulltrúa Vinstri-grænna í Mosfellsbæ sæmra að taka sömu afstöðu og bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins og greiða atkvæði gegn eyðileggingu Álafosskvosarinnar. Það er aðeins ein ástæða fyrir því að rústa á umhverfi hennar – vantrú á að til sé nokkur önnur lausn í samgöngumálum en einkabílisminn – og ég trúi því bara ekki að bæjarfulltrúi Vinstri-grænna sé haldinn slíkri vantrú á öðrum lausnum að hann ætli að taka þátt í eyðileggingu þessa fallega svæðis.


Allir með strætó
Og ég spyr: Væri ekki auðveldlega hægt að leysa samgöngumálin í Mosfellsbæ með öðrum hætti en þessari tengibraut, til dæmis með eflingu almenningssamgangna og áherslu á að fólk fari leiðar sinnar hjólandi og gangandi?


Svo að ég leyfi mér að vera svolítið kvikindislegur, þá ætla ég að kasta fram þessari spurningu: Getur verið að Vinstri-grænir átti sig ekkert á svoleiðis lausnum – svona í ljósi þess að þeir fóru næstum því allir á einkabíl á landsþing flokksins nú um helgina?

En jæja, ég held það megi svo sem ekki gera allt of mikið úr því. Skipulag höfuðborgarsvæðisins miðast svo ofboðslega við þarfir einkabílsins að það er kannski ekkert skrýtið að fólk fari um keyrandi frekar en til dæmis að taka strætó.

En samt, þá er strætó nú ekkert svo slæmur kostur. Ég tek alltaf strætó og finnst það bara ágætt – í stað þess að sitja undir stýri sjálfur og þurfa kannski að stressa mig á alls kyns hlutum þá les ég bara góða bók og hef það huggulegt.

Heiðmerkurmálið
Nóg um það í bili. Vindum okkur yfir í annað mál. Aðfarir bæjarstjórnarmeirihlutans í Kópavogi í Heiðmörk. Þar hefur Gunnar I. Birgisson sent jarðýturnar á fallegan trjálund í landi Reykjavíkurborgar og látið rífa þar upp hundruð trjáa. Þetta hefur hann gert til að greiða fyrir lagningu vatnsleiðslu sem þjóna á Kópavogsbæ. Það að Reykjavíkurborg hafi ekki verið búin að veita framkvæmdaleyfi, sem fæli í sér heimild til að rífa upp öll þessi tré, hefur hann ekki látið stoppa sig og bara látið valta yfir náttúruna eins og ekkert sé sjálfsagðara og látið grafa allt í sundur þrátt fyrir að það sé raunar vel mögulegt að bora neðanjarðar fyrir leiðslunni. Svo þegar bent hefur verið á að leyfið vantaði hefur hann bara sagt að Reykjavíkurborg hefði átt að vera búin að veita leyfið fyrir löngu síðan og þetta sé því allt borginni að kenna.

Hvílík frekja! Í huga Gunnars I. Birgissonar á Reykjavíkurborg bara að sitja og standa eins og honum þóknast og veita leyfi ef þess er krafist. En hvað ef Reykjavíkurborg vill ekki veita leyfi til að rífa upp öll þessi tré vegna þess að hún telur umrætt svæði hafa of mikið náttúrufarslegt gildi til að slíkt sé verjandi? Skiptir sú afstaða borgarinnar engu máli? Á Gunnar I. Birgisson bara að fá sínu framgengt hvað sem tautar og raular?


Nærumhverfið skiptir máli
Þetta er auðvitað skandall, en sýnir – eins og raunar Álafosskvosarmálið líka – hversu ofboðslega mikilvægt það er að við gleymum okkur ekki alfarið í stóriðju- og virkjanamálunum heldur hugum líka að nærumhverfinu.


Þegar allt kemur til alls þá er það jú ekkert síður mikilvægur þáttur í að skapa gott og mannvænt umhverfi.

Greinin birtist í gær á vefriti Ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði – Mír.is


Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið