Ingvar Þór Björnsson, framhaldsskólafulltrúi Ungra jafnaðarmanna og ritari Bersans, Ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði ritar hugleiðingar sínar um styttingu framhaldsskólans.
Það liggur ljóst fyrir að feiknamiklar breytingar eru að eiga sér stað í íslensku menntakerfi. Framhaldsskólar landsins hafa nú unnið hörðum höndum við að skila inn tillögum að 3 ára námsskrá en eitt helsta baráttumál mennta- og menningarmálaráðherra hefur verið að stytta námstíma í framhaldsskólum úr fjórum árum í þrjú ár. Samkvæmt landsfundarsamþykktum síðustu landsþinga styðja Ungir jafnaðarmenn styttingu á almennri skólagöngu í grunn- og framhaldsskóla og telja að brýnt sé að námshraði Íslendinga komist á álíka stig og þekkist í öðrum OECD ríkjum. Hins vegar má deila um ágæti þess hvernig staðið er að styttingunni. Illugi Gunnarsson virðist vilja steypa alla skóla í sama form og lyktar tillagan af niðurskurði fremur en vilja til að bæta menntakerfið. Stefna stjórnvalda hvað varðar mál af þessu tagi ætti jafnan að vera að hver framhaldsskóli marki stefnu sína að mestu leyti sjálfur.
Brottfall framhaldsskólanema er gríðarlega alvarlegt vandamál á Íslandi en deila má um hvaða áhrif stytting náms hefur á það. Í tveggja ára gamalli skýrslu menntamálaráðuneytisins kemur fram að einungis 44% íslenskra menntaskólanema ljúka námi á tilskildum tíma. Annars staðar á Norðurlöndunum er hlutfallið oft yfir 70%. Í hagskýrslu OECD tala sérfræðingar á þessu sviði sérstaklega um að bregðast verði við því hversu hátt hlutfall nemenda hætti námi án þess að útskrifast og sé stytting námstíma til stúdentsprófs jákvætt skref í þá átt. Lengd námsins er þó líklega ekki höfuðástæða brottfalls. Skýringar þess felast miklu fremur í of mikilli áherslu á bóknám og peningaskorti ungmenna, en þess má geta að um þriðjungur nemenda útskýrir brotthvarf sitt frá námi með ófremdarástandi í peningamálum. Einnig má gera ráð fyrir að álag aukist að einhverju leyti á nemendur með tilkomu þessa nýja kerfis en aukið álag gæti stuðlað að enn frekari brottfalli. Ef námið er hins vegar skorið niður á réttum forsendum , forgangsröðun verður til fyrirmyndar í nýjum námsskrám framhaldsskólanna og námið gert einstaklingsmiðarara en það er nú, gæti stytting framhaldsskólanáms haft jákvæðar afleiðingar í för með sér og ef til vill dregið úr brottfalli. Kvennaskólanum í Reykjavík tókst til að mynda ákaflega vel upp með að bjóða upp á þriggja ára framhaldsskólanám án þess álagið yrði óbærilegt eða að nemendur kæmu illa undirbúnir fyrir frekara nám.
Það er staðreynd að það tekur íslenska nemendur lengri tíma að ljúka grunn- og framhaldsskóla en nemendur í samanburðarlöndum okkar innan OECD og myndi styttingin færa okkur nær þeirri skólaskipan sem þekkist í flestum þeim löndum sem við höfum viljað bera okkur saman við. Ef við berum okkur saman við Danmörku og Finnland er ástæðan vissulega sú að íslenskir nemar eru lengur í sumarfríi og skóladagar færri yfir árið. Erfitt er þó ( þrátt fyrir að við eigum að sjálfsögðu að gera það ) að bera sig sífellt saman við þessar þjóðir en þær skipa einmitt efstu tvö sætin þegar kemur að svokallaðri menntunarvísitölu Sameinuðu þjóðanna. Skóladagar á Íslandi eru 180 en það er sami fjöldi og til dæmis í Svíþjóð. Skynsamlegra væri þó ef til vill að horfa fremur til grunnskólans þegar kemur að styttingu náms og taka upp þann sveigjanleika í námi sem nú þegar er fyrir hendi í áfangakerfi framhaldsskólanna.
Öflugt menntakerfi er hornsteinn samfélagsins og skal ávallt vera ofarlega í forgangsröðun ríkisins. Sveigjanleiki og fjölbreytni leiðir óneitanlega af sér menntun fyrir alla. Að ein rétt námslengd til stúdentsprófs sé ákveðin er því alröng nálgun á styttingu framhaldsskóla en nauðsynlegt er að einstaklingar fái að laga námsferilinn að eigin þörfum sem eru vitaskuld mismunandi fyrir hvern og einn.