Þegar lýðræðið sigrar öfgana: dæmisaga!

SEMA ERLA SERDAR, FORMAÐUR FRAMKVÆMDASTJÓRNAR SAMFYLKINGARINNAR, RITAR UM STJÓRNMÁL Í TYRKLANDI.

Árið er 1954 í Istanbúl, Tyrklandi. Drengur að nafni Recep Tayyip Erdoğan er fæddur. Það var eflaust fáa sem óraði fyrir því að þarna væri fæddur drengur sem á næstu áratugum ætti eftir að verða einn umdeildasti stjórnmálamaður sögunnar, drengurinn sem á sínum yngri árum spilaði fótbolta og seldi límonaði á götum úti til þess að safna sér pening.

Erdoğan hóf afskipti af stjórnmálum þegar hann lærði viðskiptafræði í háskóla og trúarlegt uppeldi hans varð til þess að hann gekk til liðs við íslamska stjórnmálahreyfingu sem á stuttum tíma tryggði honum þingsæti (sem hann gat þó ekki tekið) og síðar borgarstjórastólinn í Istanbúl, höfuðborg Tyrklands og nokkrum árum síðar forsætisráðherraembættið sem hann gegndi í 12 ár með algeran þingmeirihluta. Erdoğan var þó alls ekki hættur þegar forsætisráðherratíð hans lauk en hann tók við embætti forseta Tyrklands í fyrra, fyrstur allra til þess að vera kjörinn beinni kosningu.

Leið Erdoğans á toppinn hefur ekki verið áfallalaus, en hann hefur margsýnt fram á að það þarf mikið til þess að slá hann út af laginu og Erdoğan var ekki búinn að vera lengi við völd þegar fólk fór að velta því fyrir sér hvert hann stefndi með Tyrkland, rúmlega 77 milljón manna þjóð, í vasanum.

Árið 1923, þrjátíu árum áður en Erdoğan fæddist, er tyrkneska lýðveldið stofnað. Í stjórnarskrá landsins er kveðið á um að Tyrkland sér veraldlegt lýðræðisríki sem fái fullveldi sitt frá fólkinu í landinu. Alla tíð frá stofnun ríkisins hefur áhersla verið lögð á vestræn gildi og menningu og hefur Tyrkland m.a. alla tíð sóst eftir samvinnu við ríki Evrópu og verið þátttakandi í evrópsku samstarfi.

Á síðustu 20 árum hefur Tyrklandi samt sem áður verið haldið í ákveðinni gíslingu. Allan þann tíma sem Erdoğan hefur  verið með stjórn landsins í sínum höndum hefur fólk óttast um hversu langt hann myndi ganga í því að sölsa undir sig völdum. Ljóst er að hann hefur ekki látið hluti eins og lýðræði, mannréttindi eða frelsi einstaklinga, fjölmiðla eða valdhafa stöðva sig í baráttu sinni fyrir einræðistitlinum. Trúleysi, jafnrétti og lýðræði hafa heldur ekki verið í forgangi hjá foringjanum.

Þegar Erdoğan síðan nær kjöri sem forseti Tyrklands í fyrra voru margir komnir á þá skoðun að nú væri öll von úti. Tyrkneska lýðveldið yrði undir í baráttunni við hugmyndir um stórveldi, um íslam og þau öfl sem höfðu unnið gegn þeim grundvallarhugmyndum sem tyrkneska lýðveldið er byggt á höfðu sigrað. Það varð ljóst þegar Erdoğan forseti hóf strax vinnu við breytingar á stjórnarskránni sem áttu að færa honum öll völdin á nýjan leik.

Tilhugsunin um að Erdoğan, með tvo þriðju hluta þingmanna á tyrkneska þinginu, sem myndi færa honum völdin til þess að breyta stjórnarskrá landsins eins og honum sýnist, virðist hafa skilað köldum hrolli niður bakið á flestum Tyrkjum og þegar til þingkosninga kom var ákveðið að reyna að setja punktinn við valdaníð hans í eitt skipti fyrir öll.

86% kosningabærra Tyrkja mættu á kjörstað í þingkosningunum sem fram fóru þann 7. júní s.l. Ekki tókst þeim einungis að koma í veg fyrir að Réttlætis- og þróunarflokkur Erdoğans náði ekki tveimur þriðju hluta þingsæta heldur tókst Tyrkjum að koma í veg fyrir að þeir næðu hreinum meirihluta á tyrkneska þinginu sem þýðir að í fyrsta skiptið frá því að flokkurinn var stofnaður og komst til valda getur hann ekki stjórnað einn (nema í minnihlutastjórn).

Það sem gerir þennan kosningaósigur Erdoğans og félaga hans enn sætari er að 13% Tyrkja ákváðu að greiða nýjum flokki, Lýðræðisflokknum, atkvæði sitt en auk þess að leggja miklá áherslu á jöfnuð leggur flokkurinn sérstaka áherslu á friðarviðræður á milli Tyrkja og Kúrda, og er þetta í fyrsta skiptið í sögu tyrkneska lýðveldisins sem flokkur með slíkt áherslumál kemst á þing og hafa Kúrdarnir aldrei átt jafn marga fulltrúa á þingi.

Þrátt fyrir að það sé varla hægt að biðja um meira í einum kosningum skilaði kosningaósigur Erdoğans og gott gengi Lýðræðisflokksins einnig því að kristni minnihlutinn í Tyrklandi hefur nú sterkari rödd á þinginu auk þess sem minnihlutahópar Róma og Yazidi eiga nú í fyrsta sinn fulltrúa á tyrkneska þinginu sem aldrei í sögu tyrkneska lýðveldisins hefur verið skipað jafn mörgum konum og nú.

Þann 7. júní árið 2015 sigraði lýðræðið í Tyrklandi. Friðurinn, mannréttindin og jöfnuðurinn sigruðu öfgana í Tyrklandi eftir að ríkinu hafi verið haldið í gíslingu í 20 ár af einum manni.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand