Varla er hægt að flokka málflutning forsætisráðherrans sem málefnalegt innlegg í umræðuna. Hvorug fullyrðingin stenst nánari skoðun, hvorki að Íslendingar missi forræði á eigin málum við inngöngu í ESB, né að við inngöngu í ESB verði skattar hækkaðir hér á landi í 43%. Í ræðu sem Davíð Oddsson, forsætisráðherra, hélt á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins gerði hann Evrópusambandið að sérstöku umtalsefni. Kastaði forsætisráðherra þar fram tvenns konar fullyrðingum: Annars vegar að aðild að Evrópusambandinu svipti okkur frelsi og forræði á okkar eigin málum. Orðrétt sagði forsætisráðherrann: „En hvorki samningurinn um EES né dularfullir draumar um eitthvert stökkbreytt ESB sem myndi henta okkur, geta komið í staðinn fyrir forræði á okkar eigin málum.“ Hins vegar hélt ráðherrann því fram að ef Ísland gengi í ESB myndu skattar hækka hér gríðarlega. Orðrétt sagði hann: „Þannig vill kanslarinn að skattar á fyrirtæki í öllum Evrópulöndum hækki í 43% eins og þeir eru í Þýskalandi.“
Varla er hægt að flokka málflutning forsætisráðherrans sem málefnalegt innlegg í umræðuna. Hvorug fullyrðingin stenst nánari skoðun, hvorki að Íslendingar missi forræði á eigin málum við inngöngu í ESB, né að við inngöngu í ESB verði skattar hækkaðir hér á landi í 43%.
Eins og margoft hefur komið fram, og m.a. verið staðfest af Hæstarétti Íslands, eru Íslendingar skyldir til að taka upp í landslög öll lög, reglugerðir og tilskipanir sem Evrópusambandið setur, ef þau falla innan gildissviðs EES-samningsins. Er það um 80% af allri reglusetningu bandalagsins. Um efni þessara laga og reglna hafa Íslendingar ekkert að segja. Ekki neitt. Eina aðkoma Íslendinga að þessum reglum er að okkur er skylt að láta þær gilda hér á landi.
Vissulega myndi við inngöngu í ESB aukast það magn reglna sem við þyrftum að innleiða í íslenskan rétt. Hins vegar yrði grundvallarbreyting á ferlinu við lögleiðingu Evrópureglnanna – Íslendingar hefðu um efni reglnanna að segja. Dæmi nú hver fyrir sig, hvort er meiri svipting á frelsi og forræði þjóðarinnar, að taka 80% af reglum ESB upp í landsrétt, án þess að hafa nokkurt tækifæri til að hafa áhrif á efni þeirra, eða taka 100% af reglunum upp í landsrétt og hafa tækifæri til jafns við aðrar þjóðir bandalagsins að stýra og hafa áhrif á efni reglnanna. Sérstaklega með hliðsjón af þeirri staðreynd að smáríki hafa við lagasetningu mikla vigt í málum sem snerta þau.
Ekki veit ég hvað forsætisráðherrann hefur fyrir sér í þeim fullyrðingum að kanslari Þýskalands vilji samræma skatta í Evrópusambandinu og hækka þá svo í 43%. Hins vegar er einfaldlega rangt, að kanslari Þýskalands hafi eitthvað um það að segja að skattar verði samræmdir í Evrópusambandinu, hvað þá að þeir verði hækkaðir upp í 43%. Skattar og skattamál eru ekki hluti af Evrópusambandinu. Hvert aðildarríki stjórnar sínum skattamálum sjálft. Evrópusambandið hefur engar heimildir til að stjórna skattamálum aðildarríkja og því myndi skattkerfið hér á landi ekkert breytast við inngöngu Íslands í ESB. Við gætum áfram stjórnað skattamálum okkar algjörlega sjálf. Ef einhverntímann í óráðinni framtíð kæmi fram sú tillaga að skattar ættu að verða hluti af ESB, yrðu öll aðildarríkin að samþykkja það.
Á hinn bóginn virðist forsætisráðherrann hafa gleymt því, þegar hann veifar kanslara Þýskalands og Evrópusambandinu líkt og grýlu sem við eigum að forðast, að skattar á einstaklinga hér á landi eru allt að 45%.