Það er okkur öllum í hag að hér vaxi upp ábyrg og hamingjusöm kynslóð sem hefur búið við jöfn tækifæri allt sitt líf, hvort sem litið er á efnahag, kynferði eða kynþátta. Ísland er 9. ríkasta þjóð í heimi og við höfum fullt efni á því að gera vel við verðmætustu eign þjóðarinnar sem börnin okkar eru. Börnin eru það mikilvægasta sem þessi þjóð á. Hins vegar högum við okkur í öllu tilliti ekki í samræmi við þessa staðreynd. Hvort sem litið er á barnabætur, leikskólagjöld, málefni geðsjúkra barna eða stöðu langveikra barna er ljóst að unnt er að gera betur í málefnum barna og við eigum að gera betur.
Frjáls félagasamtök gegna lykilhlutverki í íslensku velferðarkerfi. Hinn mikli fjöldi sem sækir í aðstoð slíkra samtaka í hverri viku er vitnisburður um raunveruleika sem sumir Íslendingar skilja ekki að sé til staðar í okkar ríka samfélagi.
Jöfn tækifæri til tómstunda
Í umræðunni um fátækt hér á landi gleymast stundum hin raunverulegu fórnarlömb fátæktar. Það eru börnin. Fátækt foreldra bitnar ekki síst á börnum þeirra. Það skiptir til að mynda miklu máli að öll börn hafi tækifæri til tómstunda og eðlilegs félagslífs með jafnöldrum sínum. Slík þátttaka getur haft lykiláhrif á félagslegan þroska og komið í veg fyrir einelti. Tónlistarnám og íþróttaástundun er því miður einfaldlega of þungur fjárhagslegur baggi fyrir suma foreldra að bera.
Það þarf einfaldlega að skilgreina ákveðnar tómstundir og íþróttir sem hluta af grunnskólastiginu þar sem undanfarin misseri hefur vaxandi hópur barna ekki efni á eðlilegri þátttöku í slíkum starfi. Þátttaka barna í íþróttum og tómstundum vegna kostnaðar er mikið áhyggjuefni á mörgum heimilum. Brýnt að tryggja sem jöfn tækifæri barna til íþróttaástundunar og annarra félagslegra þátta sem oft er samofin skóladegi barna.
Söfnun fyrir börn á Íslandi
Fjölskylduhjálp Íslands stendur núna fyrir söfnun undir heitinu „Hlúum að íslenskum börnum“. Þessi söfnun mun standa til 3. maí n.k. og er fyrir börn frá efnalitlum heimilum á Íslandi. Börnum verður boðið að dvelja í vikutíma í sumarbúðum eða taka þátt í leikjanámskeiðum að eigin vali og óháð búsetu. Gert er ráð fyrir að styrkja um 300 börn til slíkrar félagslegrar þátttöku. Sum þessara barna hafa aldrei fengið tækifæri til að taka þátt í slíku starfi sem þykir svo eðlilegt fyrir suma.
Söfnunarsími verkefnisins er 901-5050 og gjaldfærast 500 kr. við hverja innhringingu. Gíróseðlar munu einnig liggja frammi í útibúum Íslandsbanka en Íslandsbanki í Garðabæ er fjárgæsluaðili verkefnisins. Að sögn forsvarsmanna Fjölskylduhjálpar Íslands mun bókhald verkefnisins verða gert öllum opið næstkomandi haust. Hér er um að ræða þarft verkefni sem allir landsmenn eru hvattir til að leggja lið sitt við.
Það er okkur öllum í hag að hér vaxi upp ábyrg og hamingjusöm kynslóð sem hefur búið við jöfn tækifæri allt sitt líf, hvort sem litið er á efnahag, kynferði eða kynþátta. Ísland er 9. ríkasta þjóð í heimi og við höfum fullt efni á því að gera vel við verðmætustu eign þjóðarinnar sem börnin okkar eru.