Hin hamingjusama vændiskona

Í hinni árlegu gúrkutíð beinast augu fjölmiðla að blaðsnepli sem gengið hefur kaupum og sölum á stefnumótasíðum internetsins. Listi þessi hefur að geyma nöfn nokkurra kvenna sem allar eiga það sameiginlegt að stunda vændi. Eflaust velta landsmenn því fyrir sér hvort lögreglurannsókn sem nú hefur verið hleypt af stað eigi einfaldlega rétt á sér; ef þessar konur eru ánægðar með hlutskipti sitt sem vændiskonur – hver er þá í rétti til að svipta þeim lífsviðurværi sínu? Í hinni árlegu gúrkutíð beinast augu fjölmiðla að blaðsnepli sem gengið hefur kaupum og sölum á stefnumótasíðum internetsins. Listi þessi hefur að geyma nöfn nokkurra kvenna sem allar eiga það sameiginlegt að stunda vændi. Eflaust velta landsmenn því fyrir sér hvort lögreglurannsókn sem nú hefur verið hleypt af stað eigi einfaldlega rétt á sér; ef þessar konur eru ánægðar með hlutskipti sitt sem vændiskonur – hver er þá í rétti til að svipta þeim lífsviðurværi sínu?

Óskýr refsiákvæði
Þessi spurning hlýtur að teljast réttmæt. Á undanförnum misserum hefur umræðan um vændi helst beinst að réttarstöðu vændiskvenna sem vinnandi stéttar og að hvaða marki er þeim heimilt að stunda þessa iðju sína. Eins og íslensk hegningarlög kveða á um í dag er vændi sem tómstundaiðja ekki beint ólögleg. Skv. 206. gr. almennra hegningarlaga telst vændi ólöglegt sé það stundað manni til framfærslu*. Ennfremur segir í 2. mgr. að þeir sem hafa atvinnu eða viðurværi sitt af lauslæti annarra sé það refsivert. M.ö.o. er ekki beinlínis óheimilt að stunda eða miðla vændi í frítíma sínum, enda hafi maður lífsviðurværi af öðru sé þröng túlkun laganna höfð að leiðarljósi. Þ.a.l. er óæskilegt að fullyrða um hvort vændi sé í aukastarfi ólöglegt sem slíkt. Það gildir þó einu, því eins og réttarstaða vændiskvenna er í dag verður að telja það þeim almennt óheimilt að stunda eða auglýsa vændi til sölu.
* feitletrun DH.

Sjaldséðir eru hvítir hrafnar – og hamingjusamar hórur
Það er ekki langsótt fullyrðing að segja að flestar konur sem vændi stunda gera það af sárri neyð og eru síður en svo sáttar með starfsframa sinn. Vissulega eru þó til konur sem stunda vændi sér til ánægju, yndisauka og ekki síst vænlegra tekna. Viðtal sem tekið af fréttastofu Stöðvar 2 á dögunum við konu sem fór huldu höfði en sagðist hæstánægð með ríflegar fjárhæðir sem hún þénaði af því að selja líkama sinn. Nafn þessarar konu birtist á umtöluðum lista sem nú hefur orðið tilefni lögreglurannsóknar. Réttarstaða hennar hlýtur að teljast vafasöm. Konur í hennar stöðu eru lögbrjótar að íslenskum lögum og það verður að teljast tvíbent. Því staða hennar í sjálfu sér er ekki dæmigerð; hún er síður fangi vændismiðlara, því ímynd hinnar dæmigerðu vændiskonu vill oft verða lituð af ánauðinni.

Sænska leiðin
Sænska leiðin svokallaða hefur vakið töluverða athygli á Norðurlöndum sem og víðar. Hún byggist í grófum dráttum á því meginmarkmiði að svipta vændiskonur- og fólk þeirri ábyrgð sem felst í sölu vændis, því sá aðili sem kynlífsþjónustuna kaupir verður gerandi í hinum saknæma verknaði. Með þessu móti er reynt að koma til móts við þá neyð sem vændisfólk stendur frammi fyrir þegar það er t.a.m. fjarri heimalandi hneppt i ánauð sem þræll einhverskonar vændishringja sem sífellt virðast stækka á Vesturlöndum. Þetta fyrirkomulag gerir fórnarlömbum kynlífsþrælkunar kleift að leita til yfirvalda og fá tilheyrandi aðstoð þeirra án þess að eiga í hættu á að vera sakfelldur sem lögbrjótur vegna fyrri starfa sinna.

En þó engin alhliðalausn?
Þó virðist sem ákveðinn fjöldi fólks sé ekki sannfærður um ágæti þessa fyrirkomulags. Í raun tekur sænska leiðin á fjölmörgum hliðum vændis, nema þá helst þeirra sem vændi stunda af fúsum og frjálsum vilja. Þær vændiskonur sem sína iðju hafa stundað um áraraðir, eru færar í sínu fagi, hafa ágætis tekjur af og njóta starfa sinna. Vitaskuld er fjarstæðukennt að fullyrða að allar vændiskonur séu fórnarlömb aðstæðna. Hver gætir réttinda þessarra hamingjusömu vændiskvenna þegar aðstæðum er gjörbreytt með viðlíka hætti og gerst hefur í Svíþjóð? Sumir segja að markaðurinn hafi breyst á þann veg að vændiskonunum sé orðið ómögulegt að fylgjast með óæskilegum viðskiptavinum og samskipti þeirra á milli séu orðin heftari með þeim afleiðingum að starfsgreinin færist æ lengra undir yfirborðið.

En hvað ber þá að gera? Lögleiðing er svar þeirra sem helst gagnrýna lausnir á borð við sænsku leiðina. En hvaða lausn er svo fullkomin að hún bindur ekki aðra hnúta? Með lögleiðingu erum við að horfa upp á mun opnari markað þar sem lögmál hans fá alfarið að ráða. Mörgum finnst það sjálfsagt að konum sem kjósa að selja líkama sinn til kynlífsþjónustu sé frjálst að gera það. Í eðli sínu er það ekki svo fráleitt. En staðreyndin er sú að fæstir kjósa að leiðast út í vændi. Margir vilja líkja kynlífsiðnaðinum við hvers konar iðngreinar, s.s. rafvirkjun og pípulagnir. Notar maður ekki líkamann til þeirrar iðkunar eins og í vændi? Eflaust, en vændi er blátt áfram enginn venjulegur iðnaður.

Starfsréttindi til 90 eininga
Hvernig litist fólki á ef Iðnskólinn í Hafnarfirði myndi bjóða upp á Kynlífsbraut, eins og um almenna iðnbraut væri að ræða. Maður gæti t.d. boðið sig fram sem sjálfboðaliði við kennslu – kannski borga 500 krónur fyrir eins og á hársnyrtibraut. Eða flokkast vændi kannski undir list? Þá er aldrei að vita hvað Listaháskólinn segir. Hljómar ekki svo illa, eða hvað? Blöskrar fólki e.t.v. ekki þegar því eru sagðar sögur af mæðrum sem taka við viðskiptavinum í hádeginu meðan börnin sofa í næsta herbergi? Eðli málsins samkvæmt er engin rótgróin hefð fyrir vændi í íslensku samfélagi því varla telst hinni almennu húsmóður samboðið að selja líkama sinn – nema fólk vilji að breyting verði þar á? Á meðan svo er er ekki hægt að telja tímabært að lögleiða vændi á meðan meirihluti borgara er andvígt almennri dreifingu á því.

Barnavændi er óhjákvæmilegur fylgifiskur vændis
Einn þáttur sem gleymist of oft í þessari umræðu er jafnframt sá hryllilegasti. Það staðreynd að eftir því sem löggjafinn gefur kynlífsiðnaðinum meira svigrúm, því algengara verður barnavændi. Í Queenslandfylki í Ástralíu var vændi lögleitt um sinn eftir geysimikinn þrýsting frá hægrivæng ráðamanna. Skömmu eftir að lögin höfðu tekið gildi komu æ oftar til kasta lögreglu mál sem tengdust sölu og dreifingu á börnum í kynlífsþjónustu. Þetta er vandamál sem m.a. Hollendingar og Tælendingar hafa þurft að berjast á móti um árabil og ekkert lát virðist ætla að verða á þrælkuninni. Í Queensland var niðurstaðan hinsvegar sú að afnema fyrrnefnda lagasetningu og gera mörkin á milli barnavændis sem ólöglegs fyrirbæris hinsvegar og vændi fullorðinna annars vegar skýrara með því að gera bæði fyrirbæri ólögmæt á ný.

Hvaða aldur er svo sem hæfilegur til að hefja sjálfstæða sölu kynlífsþjónustu? Að miða hér við 18 ára aldur vekur upp margar spurningar, því fyrst það á að vera svo víðtækur réttur að selja líkama sinn ætti þá ekki að miða við 14 ár sem er samræðisaldur á Íslandi? Hvar eru þá mörkin niður í 13 ár – eða jafnvel 12? Að virða frelsi fólks til að hafa umboð með kynlífsþjónustu sem veitt er af 14 ára einstaklingum verður að teljast vafasamt. Þá er einfaldlega um barnaklám að ræða!

Frelsi til að fara illa með fólk? Vændi skaðar aðra!
Þegar litið er til beggja átta ber að gefa ýmsu gaum. Annars vegar stöndum við frammi fyrir valfrelsi til að selja og kaupa. Hins vegar er þá til staðar frelsi til að forðast ánauð og þrælkun. Við verðum að spyrja okkur þeirrar spurningar hvort hömlun á réttindum fúsra vændiskvenna sé svo mikill fórnarkostnaður. Ef skerða á frelsi fólks til að eiga í milligöngu og miðlun vændisfólks – eða á að skerða frelsi þeirra sem á unga aldri eru hnepptir í ánauð til að leita réttar síns fyrir lögreglu hvort sem aldur þeirra er 12, 14 eða 44 ára. Eigum við að búa okkur til veröld sem býður upp á barnavændi og gera Reykjavík að kynlífshöfuðstað norðursins? Við gerum okkur e.t.v. ekki grein fyrir því hvað réttur fólks til að stunda vændi er lítilfjörlegur sé hann borinn saman við nauð og úrræðaleysi þeirra sem lenda í kynlífsánauð – hvort sem það er löglegt eður ei.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand