Hið raunverulega frelsi

Hvað er frelsi? Oft hef ég spurt sjálfan mig þessarar spurningar í góðu tómi og þótt svarið vandfundið. Hægra fólkið telur sig hins vegar hafa fundið það. Að vera frjáls sé að fá að vera sem mest í friði með sína pyngju fyrir ríkisvaldinu. Óréttlátt sé að eitthvert pakk, sem kosið hefur verið af almenningi til að stjórna landinu, skuli seilast í pyngju skattborgarans eins og ekkert sé og nota peninga þaðan til að styrkja alls konar rugl eins og ballett, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Þjóðminjasafnið, kvikmyndagerð og Guð veit hvað. Hvað er frelsi? Oft hef ég spurt sjálfan mig þessarar spurningar í góðu tómi og þótt svarið vandfundið. Hægra fólkið telur sig hins vegar hafa fundið það. Að vera frjáls sé að fá að vera sem mest í friði með sína pyngju fyrir ríkisvaldinu. Óréttlátt sé að eitthvert pakk, sem kosið hefur verið af almenningi til að stjórna landinu, skuli seilast í pyngju skattborgarans eins og ekkert sé og nota peninga þaðan til að styrkja alls konar rugl eins og ballett, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Þjóðminjasafnið, kvikmyndagerð og Guð veit hvað.

Að mati hægra fólksins ætti fólk í hagsmunahópum ýmiss konar, sem stendur með skilti á götuhornum og öskrar eftir meiri peningum frá ríki og sveitarfélögum í hin og þessi verkefni, bara að skammast sín fyrir þessa „heimtufrekju“. Stúdentarnir, sem stóðu fyrir utan aðalbyggingu Háskóla Íslands í vikunni og mótmæltu skólagjöldum, hefðu að mati þessa fólks allt eins getað orgað: „Ég heimta hér með að bara einhver, sama hver, annar en ég borgi menntun mína“. Sú er að minnsta kosti skoðun Vefþjóðviljans eins og sjá má á Andríki.is í dag. Já, er það ekki ljótt að heimtufrekjan sé orðin svona mikil í samfélaginu? Hvað skal til ráðs taka?

Eftir að hafa fylgst býsna náið með þjóðmálaumræðunni árum saman hef ég myndað mér ákveðna skoðun á því hvernig svara ber þessari spurningu. Og svarið er: Ekkert! Heimtufrekja er alls ekkert vandamál í okkar samfélagi. Ef eitthvað er þá er „heimtufrekjan“ jafnvel ekki nógu mikil. En þó má kannski segja að hún sé of mikil að einu leyti, þ.e. fólk, sem fór í Háskóla Íslands og fékk menntun sína að mestu leyti greidda með skattpeningum, heimtar nú allt í einu að ungt fólk fari að borga sína menntun með eigin peningum. Það fæli í sér að þetta unga fólk þyrfti að taka því hærri námslán og sumt af því hefði jafnvel ekki efni á háskólanámi. Er það ekki heimtufrekja í háskólamenntuðu fólki að ætlast til þess að sú kynslóð, sem nú er í háskóla, sé látin borga menntun sína með háum skólagjöldum fyrst kynslóða í íslensku samfélagi? Og er það ekki heimtufrekja í þessu sama fólki að krefjast þess að þurfa ekki að greiða skatt af launum sínum svo að ungt og efnilegt fólk geti lært í háskólunum (og náttúrlega öðrum skólum líka) landi og lýð til heilla?

Jæja, sumum kunna vafalaust að þykja þessar spurningar ósanngjarnar. Hugsjónir hægrimanna séu alls ekki nein heimtufrekja heldur einfaldlega ákveðin skoðun á því hvernig fyrirkomulag þjóðfélagsins geti best orðið og réttlátast. Engin ástæða sé til að óttast þjóðfélagslegt óréttlæti þó að fólk þurfi að greiða sjálft fyrir menntun sína. Efnilegir en fátækir námsmenn fái einfaldlega skólastyrk alveg eins og í Bandaríkjunum þar sem allt er svo æðislegt. Og þó að ýmsir þeir sem haldi því fram að taka beri upp skólagjöld hafi ekki sjálfir þurft að greiða slík gjöld sé ekki um neina heimtufrekju að ræða; þeim hafi bara ekki gefist kostur á að greiða öll þessi gjöld þó að þeir hafi ólmir viljað það. Já, vesalings fólkið, hefði það ekki verið betra fyrir það að þurfa að taka lán upp á fleiri, fleiri milljónir og vera svo í 30 ár að borga þau upp? Það mætti halda það.

En æ, já: Frelsið! Ég var víst að velta því hugtaki fyrir mér. En hvað er frelsi? Jú, í huga jafnaðarmannsins er frelsi ekki það að fá að vera í friði með pyngju sína fyrir ríki og sveitarfélögum. Jafnaðarmaðurinn hefur mun háleitari hugmyndir um frelsið en svo! Í hans huga er frelsi það að hafa raunverulegt val um hvernig lífið þróast, þ.e. lenda ekki bara til frambúðar á einhverri leiðindahillu í lífinu vegna þjóðfélagsstöðu, lélegra fjárráða fjölskyldunnar o.s.frv. heldur að geta losað sig úr þess háttar fjötrum og orðið það sem hugurinn stendur til. Nú má reyndar vera að margt af hægra fólkinu telji sig einmitt hafa þessa hugsjón og satt að segja efast ég ekkert um það. Gallinn á skoðun hægra fólksins er bara sá að það gerir sér ekki fyllilega eða jafnvel alls ekki grein fyrir mikilvægi velferðarkerfisins, ódýrrar menntunar o.s.frv. til að þetta geti orðið. Það virðist halda að ef allir fái bara að vera í friði með sitt fari allt vel – en það er bara ekki svo einfalt.

Þar sem hugsjónir jafnaðarstefnunnar eru ekki í heiðri hafðar er fjölmargt fólk alls ekki frjálst. Það getur til að mynda ekki farið í háskóla bara sisvona þegar hugur þess stendur til þess. Þannig er það svo í Bandaríkjunum, svo að dæmi sé tekið, að þeir sem tilheyra hinum verst settu þjóðfélagshópum og þrá að stunda háskólanám komast bara alls ekkert í háskóla heldur húka alla sína daga annaðhvort í gettóinu eða fangelsinu án nokkurs möguleika á að láta drauma sína rætast. Það eru bara ofurheilarnir, bestu íþróttamennirnir og þeir sem eru ónáttúrlega duglegir sem komast í háskóla. Hinir geta flestir alveg gleymt „bandaríska draumnum“, hvort sem hann snýst um að komast í háskóla og því næst vellaunað starf eða eitthvað annað. Þessu er hins vegar þveröfugt farið með hina ríku. Alls kyns vitleysingar komast í góða háskóla bara vegna þess að þeir eru af ríkum ættum – eða hvað með „vin“ okkar jafnaðarmanna, George W. Bush, sem „afrekaði“ það meira að segja að verða forseti Bandaríkjanna, mörgum til mikillar armæðu?

Og hver er svo niðurstaðan af öllu þessu spjalli? Jú, hún er sú að jafnaðarstefnan snýst um að gera hvern einstakling frjálsan þannig að hann geti valið um hvernig hann hagar lífi sínu. Það er ekki nóg að þetta frelsi felist í því að ríkið sé ekki að seilast í vasa hans eftir peningum og skipta sér af honum að öðru leyti. Slíkt frelsi er aðeins formlegt. Svo að hver einstaklingur verði raunverulega frjáls verður ríkið að skapa aðstæður sem veita sem allra flestum – og helst öllum – möguleika á að velja sjálfir, ekki aðeins formlegan heldur einnig raunverulegan möguleika. Tökum dæmi: Í Suður-Afríku hafa allir frelsi að nafninu til, en möguleikar meirihluta þjóðarinnar til að nýta þetta formlega frelsi sér til heilla eru engir. Þetta fólk lifir í ömurlegum fátækrahverfum og veslast upp sökum eymdar sinnar. Er þetta frelsi? Er þetta fólk eitthvað betur sett nú en það var undir Apartheid-stjórninni?

Þórður Sveinsson, lögfræðingur og ritstjóri Mír.is
greinin birtist á vefriti Ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði, Mír.is, fimmtudaginn 25. mars.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand