Leiðari dagsins varar við því að Samfylkingin láti draga sig út í pólitík sértækra lausna og dýrra fjárfestinga skattborgara í jörðum og fyrirtækjum. Það eru til aðrar og betri leiðir til að koma vilja almennings til skila við atvinnulífið.
Samfylkingin verður að gæta þess að samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn dragi sig ekki út í forað sameignarstefnu og sértækra lausna. Aðalsmerki Samfylkingarinnar er að takast á við úrlausnarefni með almennum meðulum en ekki sértækum skyndilausnum. Það er miður að heyra hvers kyns tillögur koma fram um úrlausn ýmissa áskorana samfélags okkar.
Orkumál
Umræðan um HS Orku og Magma Energy er á villigötum þegar rætt er um það að ríkið kaupi hlut OR svo hann lendi ekki í höndum einkaaðila. Löggjafinn hefur ódýrari og sanngjarnari tól í höndum sér en að fleygja þúsundum milljóna í vandann. Hægt væri að leysa ágreining með setningu laga sem gætu þá jafnframt styrkt umhverfi orkuiðnaðarins í heild sinni.
Landnotkun í sveitum
Enn fáránlegri er sú hugmynd að Ríkið stýri landnotkun með beinu eignarhaldi á jörðum. Þannig leggur Jón Bjarnason til afturhvarf til sameignarstefnu á jörðum. Hér er verið að snyrta táneglur með steypusög.
Landið allt er skipulagsskylt og sveitarstjórnir hafa ráð með að skipuleggja allt land hvort sem það er í einkaeigu eða almannaeigu. Ef vilji er til að hafa samræmt skipulag fyrir landið í heild sinni væri nær að leggja fram frumvarp um lög til landsskipulags. Landsskipulag gæti hæglega tilgreint sérstaklega nytjasvæði ætluð til landbúnaðarframleiðslu og bægt annarri starfsemi frá. Þá mætti mjög gjarnan veita sveitarfélögunum aukinn stuðning og aðhald við skipulagsgerð sína. Margar vísbendingar eru um að þau minni ráði tæpast við verkefnið.
Jarðir verða ekki nýttar bara af því að landbúnaðarráðherra þóknast það. Ef ekki væri rembst við að steypa öll býli í sama mót og stærðarhagkvæmni væri til staðar í landbúnaðinum eins og öðrum greinum má ætla að óræktar jarðir kæmu einhverjum til gagns.
Styrkja veikt sement?
Til þess að kóróna vitleysuna er svo gólað úr sama horni að Ríkið taki fram fyrir hendurnar á fullkomlega eðlilegum viðskiptum með sement. Ef sementsfyrirtæki hér á landi getur ekki keppt við innflutta vöru þá verður bara svo að vera. Hugsanlega þarf að bæta eitthvað rekstrarumhverfi iðnfyrirtækja hér en ekki er ljóst með hvaða hætti það ætti að vera og þá þyrfti eitt yfir alla að ganga, því við þurfum að hampa því almenna á kostnað hins sértæka.