Heyr heyr herra Forseti – eða hvað?

Ekki vil ég bera það uppá núverandi ríkisstjórn að bera ein ábyrgð á þessu, ég vil meina að þarna sé um að ræða skort á lýðræðisvitund í svo ungu landi. Að lýðurinn hafi ekki lagt sig nóg fram um að heimta að valdið sé þeirra megin. Það segir sig eiginlega sjálft að stofnanir gefa ekki völd frá sér nema þær séu til þess neyddar, annað væri gegn eðli þeirra. En í gær var stórt skref tekið í átt að virkara lýðræði á Íslandi og er því kominn tími til þess að hefja umræðu um hvernig hin íslenska þjóð vilji að málum sé háttað hér eftir. Sögulegur dagur í sögu lýðveldisins Íslands. Forseti Íslands hefur beitt málskotsrétti sínum (það eru fáir eftir sem nenna að nöldra yfir því nú) og fjölmiðlafrumvarpið fer í þjóðaratkvæði.

Lýðræðisáhyggjur
Ég hef lengi haft ansi miklar áhyggjur af lýðræðinu á Íslandi. Lýðræði ber það með sér, finnst manni samkvæmt orðsins hljóman, að lýðurinn ráði. En mér hefur fundist á löngum stundum að á Íslandi sé lítið hlustað á lýðinn, að lýðræði sé lítið. Er nóg að nefna í því sambandi viðtökur okkar við kínverskum mótmælendum, þátttöku Íslendinga í stríðinu í Írak (sem við lásum fyrst um í erlendum fjölmiðlum), öryrkjafrumvarpið, Kárahnjúkamálið og fleira í þeim dúr.

Ekki vil ég bera það uppá núverandi ríkisstjórn að bera ein ábyrgð á þessu, ég vil meina að þarna sé um að ræða skort á lýðræðisvitund í svo ungu landi. Að lýðurinn hafi ekki lagt sig nóg fram um að heimta að valdið sé þeirra megin. Það segir sig eiginlega sjálft að stofnanir gefa ekki völd frá sér nema þær séu til þess neyddar, annað væri gegn eðli þeirra. En í gær var stórt skref tekið í átt að virkara lýðræði á Íslandi og er því kominn tími til þess að hefja umræðu um hvernig hin íslenska þjóð vilji að málum sé háttað hér eftir.

Ég hef ákveðna hugmynd um hvernig skuli staðið að lýðræði á Íslandi en fyrst vil ég staldra við nýorðna atburði og skoða hvernig greiða skuli úr þeirri stöðu sem nú er uppi.

Þjóðaratkvæði og fjölmiðlar
Svo fljótt sem auðið er verður þjóðaratkvæðagreiðsla um fjölmiðlafrumvarpið. Umræður hafa áður skapast um beint lýðræði sem þetta og hafa menn rekið varnagla við svona atkvæðagreiðslur, og skemmtilegt nokk, þá hafa þeir varnaglar einmitt verði þeir að svona atkvæðagreiðsla gefi fjölmiðlum hættulega mikið vald. Sem dæmi má nefna að í Bretlandi þá er það haft í flimtingum að Tony Blair reki landið í stöðugum ótta við prentmiðlana og þá sérstaklega fjölmiðla tengdum Rubert Murdoch. Fjölmiðlar eru umræðuleiðandi í samfélaginu og í ríki þar sem þjóðaratkvæðagreiðslur eru algengar þá eru ritstjórar blaða komnir með afar mikið vald yfir framkvæmdarmi ríkisins. Þeir geta sett sig upp á móti málum og stjórnað umræðunni á þann hátt að önnur hlið málsins fái mun neikvæðari umfjöllun en hin. Þetta hefur svo áhrif á úrslit atkvæðagreiðslunnar en snerti kannski ekki endilega efni málsins heldur frekar hvaða skoðanir ákveðnir menn, sem ekki eru kjörninr af þjóðinni, hafa á málunum. Svo má ekki gleyma því að þó svo að þetta frumvarp hér heima hafi líklega verið of ruddalegt í garð einstaka fjölmiðla þá er eignarhald á fjölmiðlum réttilega til umræðu um alla Evrópu vegna augljósra áhrifa þeirra á framgang umræðunnar í samfélaginu.

Með þessu er ég ekki að segja að þjóðaratkvæði sé ekki af hinu góða heldur að benda á að það skapar ákveðna hættu. Í lýðræðisríkjum sem lengri sögu hafa en Ísland hefur umræðan um eignarhald á fjölmiðlum og tengls þeirra við áhrif á kosningar nú þegar farið fram. Er það mismunandi eftir löndum hvernig brugðist hefur verið við. Í einstaka tilfelli hafa fjölmiðlabarónar orðið forsætisráherrar (á Ítalíu) en algengara er að blöðin sjálf hafa tekið þá afstöðu að gera grein fyrir skoðunum ritstjórnarinnar. Er þá afstaða fjölmiðilsins lesandanum klár þegar hann les fréttir þess og getur út frá því myndað sér sínar eigin skoðanir eða fundið blað sem er honum og hans skoðunum þóknanlegra. Því miður er þetta ekki reyndin hér nema í einstaka undantekningartilfelli. Einnig gæti ríkisstjórnin gefið út upplýsingabækling um frumvarpið, skrifað af hlutlausum aðila eða með samstarfi allra flokka, og dreifa honum inn á öll heimili í landinu. Þannig gæti hver og einn lesið sig almennilega til (eða hefði allaveganna möguleika á því) og kosið samkvæmt upplýstir skoðun sinni.
Ég vona að sú staða sem nú er komin upp vekji upp umræður um beinar og óbeinara kosningar, um hlutverk allra aðila sem að umræðunni koma, um lýðræðið og leiði tit aukins þroska í lýðræðisvitund íslensku þjóðarinnar.

Um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar nenni ég ekki að röfla, bara kjósa og meirihlutinn ræður.

Stofnum öldungardeild
Ég ætla að ljúka pistli þessum á hugmyndum mínum hvernig styrkja megi lýðræðið á Íslandi. Það sem helst vantar í íslensku stjórnkerfi er jafnvægi. Hér hafa meira og minna sömu flokkarninr setið við völd frá stofnun lýðveldisins. Þetta hefur auðvitað í för með sér mikla slagsíðu á valdastofnanir sem og á lýðræðið í heild sinni. Þjóðin fær að taka þátt í lýðræðinu á fjögurra ára fresti en kemur hvorki að stjórnarmyndun né stjórnarsáttmála. Þetta hefur í för með sér að í raun veit þjóðin ekki hvað hún er að kjósa yfir sig nema að afar ófullkomnu og takmörkuðu leyti. Þessu þarf að breyta. Ég legg til að tekin verði upp öldungadeild sem kosin er á fjögurra ára fresti og þá á víxl við almennar þingkosningar. Þyrfti öldungadeildin að samþykkja öll lög sem færu í gegnum þingið. Með þessu næðist ákveðið jafnvægi í stjórnsýsluna þar sem þjóðinni gæfist færi á að kjósa í öldungardeildina fulltrúa stjórnarandstöðunnar vilji hún tremma vald þingmeirihluta eða ýta á breytingar. Einnig mætti hugsa sér að neiti öldungardeildin frumvarpi frá þinginu þrisvar í röð yrði að rjúfa þing og kalla til kosninga eða að vísa frumvarpinu þá til þjóðarinnar. Svona fyrirkomulag þekkist víða um heim og gerir stjórnsýsluna ábyrgari, eykur á samvinnu, dregur úr valdi einfalds meirihluta og gefur meira vald í hendur þjóðarinnar. Og til þess ætti leikurinn að vera gerður.

Mig langar að enda á því að þakka forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni, fyrir hugrekkið og að gefa þjóðinni tækifæri ekki aðeins til þess að ástunda lýðræðið heldur til þess að þurfa til að gera upp við sig hvernig hún vilji að lýðræðinu sé háttað hér á landi í framtíðinni.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand