Heilsugæslan fælir

,,Góð heilbrigðisþjónusta er ein af grundvallarforsendum í ákvarðanatöku fjölskyldufólks sem er að velja sér búsetustað, þá sérstaklega ef að börnin eru mjög ung eða þörf er á tíðum læknisheimsóknum”. Segir Hilmar Kristinsson formaður Uglu – Ungra jafnaðarmanna á Suðurnesjum. Á síðustu árum hefur Reykjanesbær lagt mikið upp úr því að markaðsetja bæinn sem aðlaðandi búsetuvalkost fyrir fjölskyldufólk. Fjöldi aðfluttra á síðustu árum ber það með sér að sú markaðsetning hefur skilað þó nokkrum árangri og bæði hafa nýir íbúar flust til bæjarins auk þess sem brottfluttir Suðurnesjamenn hafa snúið aftur til heimahaganna.

En þrátt fyrir þann árangur sem náðst hefur eru enn annmarkar við það að búa hér á svæðinu. Sá sem stendur einna helst upp úr er sá skortur á viðunandi heilbrigðisþjónustu sem hefur einkennt Suðurnesin á undanförnum árum. Nú má ekki skilja mig sem svo að ég sé að setja ofan í við heilbrigðisstarfsfólk á svæðinu, en það hefur með elju og fórnfýsi gert allt sem í þeirra valdi stendur til að halda Heilbrigðisstofnun Suðurnesja gangandi þrátt fyrir mikið fjársvelti. Það er vegna þess sem margir íbúar á svæðinu fussa og sveia yfir þjónustunni en á of mörgum sviðum þarf að skera við nögl. Það er nær ómögulegt að fá tíma hjá lækni nema að því gefnu að viðkomandi sé tilbúinn að bíða í nokkra daga eða jafnvel vikur. Til að bregðast við þessum vanda reyndu forsvarsmenn heilsugæslunnar að koma á hraðþjónustu þar sem hægt var að fá tíma hjá heilsugæslulækni sem mat hvert tilvik og vísaði áfram á sérfræðing eftir þörfum ef ekki var hægt að leysa málið á staðnum. Þessari hraðþjónustu var nýlega hætt þrátt fyrir að hún hefði gefið góða raun.

Þessu ástandi eru Suðurnesjamenn löngu orðnir vanir enda þekkist ekki orðið heimilislæknir hér á svæðinu vegna mikillar starfsmannaveltu lækna. Þannig hitti ég á einu sumri fimm lækna í jafn mörgum heimsóknum sem allar voru vegna sama meinsins. Eftir þessa reynslu sæki ég mína heilbrigðisþjónustu til höfuðborgarsvæðisins og get því hætt að taka með mér nesti og þykka bók á biðstofuna.

Góð heilbrigðisþjónusta er ein af grundvallarforsendum í ákvarðanatöku fjölskyldufólks sem er að velja sér búsetustað, þá sérstaklega ef að börnin eru mjög ung eða þörf er á tíðum læknisheimsóknum. Slík dæmi þekki ég sjálfur, meðal annars hjá vinafólki mínu sem flutti fyrir nokkru úr bæjarfélaginu og veigrar sér nú við að snúa aftur vegna þess að það getur ekki treyst á góða heilbrigðisþjónustu. Allar aðrar forsendur eru til staðar en þarna stendur hnífurinn í kúnni. Þó svo að þau gætu fengið stærra húsnæði, verið í nánd við fjölskyldu og vini, stundað vinnu sína og átt kost á góðum skólum þá er sú staðreynd að þau treysta ekki heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjunum næg ástæða til þess að flytja ekki aftur heim.

Þetta ástand hefur varað svo lengi að kynslóð Suðurnesjamanna er að alast upp sem þekkir það ekki að geta talað við lækni sem viðkomandi hefur myndað trúnað við. Þegar þetta fólk kynnist því loks að geta farið til læknis, jafnvel samdægurs, þá er það ekki sérlega spennandi að flytja aftur á svæði þar sem biðin tekur margfaldan þann tíma.

Það er stórmerkilegt að þetta ástand hafi verið langvarandi hér á svæði sem telur yfir tuttugu þúsund íbúa. Ætli það sé vegna þess að svæðið hefur verið í sárri þörf fyrir þingmenn sem geta látið sig málið varða. Er enginn á þingi sem getur hvíslað þessu að heilbrigðisráðherra eða fjármálaráðherra? Kannski þurfa sumir bráðum að finna púltið.

Hilmar Kristinsson, formaður Uglu – Ungra jafnaðarmanna á Suðurnesjum.

Birtist fyrst á www.skurinn.wordpress.com 17. júlí 2008

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand