Hagur okkar allra

Staðsetning innanlandsflugs er þverpólitískt mál, eins og sjá má bæði af greinum þessa vefs, svo og annarra vefrita, svo sem þess er Heimdallur heldur úti, frelsi.is. Ég rakst á grein þar um daginn, eftir Vilberg nokkurn Tryggvason, þar sem rök eru færð að því að Reykjavíkurflugvöllur eigi að halda sínum sessi í hjarta höfuðborgarinnar. Finn ég mig knúna til að svara þeirri grein í örstuttu máli. Staðsetning innanlandsflugs er þverpólitískt mál, eins og sjá má bæði af greinum þessa vefs, svo og annarra vefrita, svo sem þess er Heimdallur heldur úti, frelsi.is. Ég rakst á grein þar um daginn, eftir Vilberg nokkurn Tryggvason, þar sem rök eru færð að því að Reykjavíkurflugvöllur eigi að halda sínum sessi í hjarta höfuðborgarinnar. Finn ég mig knúna til að svara þeirri grein í örstuttu máli.

Ef maður telur sér trú um að það sé mjög æskilegt að færa flugvöllinn, vegna þess að hann sé svo gott byggingarland og geti sparað 15.000 Reykvíkingum drjúgan spöl í vinnu og þjónustu, þá er hægt að gleyma því að hann sé dýrasta landið í Reykjavík. Ef landið á að vera 90 milljarða króna virði þá þýðir það (miðað við 15.000 manna byggð) að lóðarverð á hvern einstakling verður 6 milljónir. Fjögurra manna fjölskylda myndi borga 24 milljónir fyrir staðsetninguna. Það sér hver maður að þetta verð getur ekki gengið upp fyrir „venjulega“ fjölskyldu í Reykjavík.

Vilberg er augljóslega ekki jafn upptekinn af hugtökunum „framboð“ og „eftirspurn“ og margir félagsbræður hans. Ástæða hækkandi íbúðaverðs í Reykjavík er meðal annars aukin eftirspurn sem framboðið nær ekki að anna. Þannig er ekki unnt að segja að „venjuleg“ fjögurra manna fjölskylda myndi ekki kaupa lóð fyrir 24 milljónir þegar það er gangverðið á lóð undir íbúðarhúsnæði af þeirri stærðargráðu sem einmitt hentar „venjulegri“ fjögurra manna fjölskyldu. Þar fyrir utan gefur það auga leið, með þeim rökum sem færð eru fyrir kostum þéttbýlis, að hagstæðast og farsælast væri að byggja þarna fjölbýli. Þá horfir aðeins öðruvísi við „venjulegu“ fjögurra manna fjölskyldunni.

Það virðist rugla Vilberg að hugtakið „verðmæti“ skuli notað í fleiri en einni merkingu í þessari umræðu. Þegar talað er um verðmæti landsins, er ekki einungis átt við þá krónutölu sem borgin eða ríkissjóður koma til með að fá fyrir sinn snúð verði landið selt, heldur einnig þau verðmæti sem skapast af því að hafa blómstrandi og þéttbýla borg.

Ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna Reykvíkingar eyða dýru landi undir golfvelli, fótboltavelli og tjarnir. Þetta er allt fokdýrt land.

Hér get ég tekið undir með Vilbergi að nokkru leyti. Hinsvegar skal á það bent að það land sem helst er varið undir útivistarsvæði sem þessi er einmitt fjarri miðbænum, í jaðri borgarinnar þar sem það á að vera. Vilberg telur bílaumferð munu aukast við flutning flugvallarins. Ekki skil ég hvernig hann fær þá niðurstöðu, þar sem ein helstu rökin fyrir því að flytja flugvöllinn eru að leysa „umferðarvanda“ með þéttingu byggðar. Þær hugmyndir Vilbergs um að ferðamenn og landsbyggðarfólk muni hreinlega sniðganga borgina og miðbæinn þurfi þeir að keyra í hálftíma þykja mér eilítið hjákátlegar. Ekki fljúga ferðamenn frá Keflavík til Reykjavíkur í dag, og hvaðan koma ferðamennirnir „upprunalega“? Úr Keflavíkinni, ekki satt? Blómstrandi miðborg er eftirsóknarverð til heimsóknar. Jafnvel þó menn þurfi að keyra í hálftíma.

Í erlendum borgum s.s. Toronto og London hafa yfirvöld eytt miklu fé og tíma í að reyna að staðsetja flugvelli sem næst miðborgunum…

Hálftímakeyrsla frá miðborginni myndi væntanlega teljast mjög nálægt í þessu samhengi. Það er líka eitt að hafa flugvöll nálægt miðbænum, allt annað að hafa hann í miðbænum, eins og staðan er í Reykjavík í dag.

Og að fleygum lokaorðum Vilbergs:

Heldur fólk kannski að það sé alger tilviljun að það geti rekist á fræga leikara vera að versla á Laugaveginum?

Nei, það tel ég ekki vera tilviljun. Ég tel það heldur ekki munu verða tilviljun eftir að flugvöllurinn verður færður á Suðurnesin. Laugavegurinn mun þá væntanlega vera farinn að blómstra sem verslunar- og menningarsvæði miðborgarinnar. Í dag er Laugavegurinn lítið annað en verslunarmiðstöð án gjaldfrjálsra bílastæða og því illa samkeppnishæf við aðrar verslunarmiðstöðvar. Reykvíkingum hefur fjölgað og miðbærinn um leið minnkað því þar komast ekki fleiri fyrir. Haldi sú þróun áfram, verður miðbærinn ekki lengur miðbær áður en langt um líður.

Það sem miklu skiptir einnig í þessari umræðu er hagur landsbyggðarinnar af því að flugvöllurinn hverfi úr Vatnsmýrinni. Menn virðast blindaðir af rauða dreglinum sem liggur inn í höfuðborgina heilögu og sjá ekki þá framför sem gæti orðið í landsbyggðar¬málum samhliða framför í skipulagsmálum sem þessu. Hagur Reykjavíkurborgar er í fyrsta lagi hagur allrar þjóðarinnar, ekki einungis borgarbúa, því stór, þéttbýl og öflug höfuðborg hefur að sjálfsögðu áhrif á þjóðarhaginn allan. Sú þjónusta og starfsemi sem menn svo sækja með flugi til Reykjavíkur myndi hugsanlega festast í sessi í minni plássum víðsvegar um landið. Hverra hagur er það? Jú, okkar allra. Akureyri myndi blómstra sem höfuðborg norðursins og pressa myndast á aukið fjármagn til heilbrigðisþjónustu og annarrar opinberrar starfsemi annarstaðar en í höfuðborginni.

Það er ekki um neinn hagsmunaárekstur að ræða í þessu máli. Flutningur Reykjavíkur¬flugvallar úr miðborg Reykjavíkur er hagur okkar allra.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand