Hækkum laun kennara og umönnunarstétta

,,Fólkið sem vinnur þessi störf er stoðirnar í íslensku velferðarkerfi og þær þarf að styrkja. Reynslu og þekkingu þeirra er mikilvægt að halda í og starf þessa fólks er forsenda þeirra framfara sem hafa orðið á Íslandi. Frekari þróun velferðarkerfisins er þannig forsenda frekari þróunar samfélagsins í heild“. Segja Anna Dröfn Ágústsdóttir og Ásgeir Runólfsson.

Á nýafstöðnu þingi Ungra jafnaðarmanna var þess krafist að laun umönnunarstétta og kennara yrðu hækkuð verulega. Nú er svo komið að mest aðkallandi vandamál íslensks samfélags er lág laun þessara stétta.

Ekki er hægt að manna allar stöður í skólum landsins sökum manneklu þar sem lærðir kennarar með mikla starfsreynslu eru að hverfa úr starfi vegna lágra launa og erfiðlega gengur að fá nýja starfskrafta. Áhrif manneklu á leikskólum eða í öðrum umönnunarstörfum má sjá víða í samfélaginu þar sem dæmi eru um að foreldar geti ekki mætt til vinnu eða í skóla vegna lokana á leikskólum. Fólk verður að geta treyst á dagvistunarúrræði fyrir börn sín þar sem það er ein af forsendum eðlilegs atvinnu- og fjölskyldulífs.

Umræddir hópar hafa í gegnum tíðina gengið undir heitinu „kvenna­stéttir“ sem er í raun réttnefni. Meirihluti þeirra sem vinna þessi störf er konur og má því spyrja sig hvort það sé ástæðan fyrir því að launin eru alltof lág.
Merkingarlaust er að tala um á tyllidögum að þetta séu stéttirnar sem vinni mikilvægustu störfin, ef hugur fylgir ekki máli þegar kemur að því að semja um laun.

Fólkið sem vinnur þessi störf er stoðirnar í íslensku velferðarkerfi og þær þarf að styrkja. Reynslu og þekkingu þeirra er mikilvægt að halda í og starf þessa fólks er forsenda þeirra framfara sem hafa orðið á Íslandi. Frekari þróun velferðarkerfisins er þannig forsenda frekari þróunar samfélagsins í heild. Sem dæmi má nefna hvernig leikskólar hafa tekið miklum og jákvæðum breytingum og eru í dag skilgreindir sem fyrsta skólastigið.

Brýnt er því að leiðrétta laun kvennastéttanna og viðurkenna mikilvægi þeirra í næstu kjarasamningum. Annars er hætta á að frekari flótti verði úr stéttunum og að hæft fólk, karlar og konur, sæki ekki í að mennta sig til þessara starfa sökum þess hve lág kjörin eru. Þegar talað er um að leiðrétta laun kvennastéttanna þá er átt við að hækka verði þau meira en sem nemur almennri launaþróun. Það verður að vera forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar og sveitarfélaga.

„Kvennastéttum“ hefur verið færð aftur von því á síðastliðnu hálfa ári hefur Samfylkingin bæði sest í ríkisstjórn og nú nýlega aftur í meirihluta borgarstjórnar. Síðasta stóra skrefið steig Steinunn Valdís, núverandi alþingiskona Samfylkingarinnar og þáverandi borgarstjóri, þegar hún hafði forgöngu um að hækka laun leikskólakennara þrátt fyrir háværar úrtöluraddir.

Ungir jafnaðarmenn munu gera það sem í þeirra valdi stendur til að vinna þessum málum brautargengi. Mikill hiti var í umræðum um þessi mál á landsþinginu og sá mikli kraftur sem var í þinginu mun án efa skila sér inn í starf Samfylkingarinnar.

Greinin birtist í Fréttablaðinu þann 19. október 2007

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand