Guð gaf mér eyra, svo nú má ég heyra…

Full ástæða er til að hafa áhyggjur af stjórnarháttum íhaldsmanna og B-deildar þeirra. Formhlið stjórnskipunarinnar er ef til vill í lagi en til þess að hægt sé að telja ríki til lýðræðisríkja er ekki síður mikilvægt að vinnubrögð og viðhorf þeirra sem starfa í umboði fólksins endurspegli virðingu fyrir lýðræðislegum gildum. Stjórnskipulega hlið lýðræðis verður því að skoða í samhengi við lýðræðislega stjórnarhætti og ýmis atriði við framkvæmd stjórnskipulagsins undanfarin ár hafa vakið upp spurningar um hversu lýðræðislegt íslenskt þjóðfélag er. Vanvirðingu stjórnvalda við lýðræðislega stjórnarþætti má meðal annars sjá í því að framkvæmdavaldið hefur í æ ríkara mæli ekki haldið sig innan lagaramma án þess að það hafi verið hægt að bregðast við því með neinum hætti. Guð gaf mér eyra, svo nú má ég heyra…?

„Hvernig liði þér ef þú gætir ekki talað? Ef alla þína skólagöngu gætir þú ekki tjáð þig við hin börnin/samnemendur án þess að nota túlk?“ Ég var spurð að þessari spurningu um daginn og satt best að segja vafðist mér tunga um tönn. Þar sem ég er málglöð og félagslynd að eðlisfari er þessi tilhugsun framandi. Ég vissi ekki hverju ég átti að svara enda óhugsandi fyrir mig að setja mig í þessi spor.

Félagsleg einangrun er oftar en ekki staðreynd fyrir þá sem eru heyrnarskertir. Þeir búa í samfélagi sem viðurkennir ekki mál þeirra sem opinbert tungumál og táknmálskunnátta almennings er ekki sem best væri á kosið. Samskiptaörðuleikar í hinu daglega lífi er regla fremur en undantekning og fólk með skerta heyrn mætir fordómum í samfélaginu. Skemmst er frá því að segja að það hefur þurft að ganga í gegnum margskonar pyntingar gegnum aldirnar af fólki sem taldi heyrnarleysi vera af hinu illa og bæri að laga hið snarasta, m.a. var heitri olíu hellt niður eyra fólks til þess að það fengi heyrn. Heyrnarlausir hafa sitt eigið menningarsamfélag. En það er ekki sjálfgefið fyrir heyrnarlausan einstakling að hafa aðgang að þessu samfélagi. Einstaklingurinn þarf að samsama sig samfélaginu í gegnum táknmál.

Einn af hverjum þúsund sem fæðast, fæðist heyrnarlaus, og um eitt af hverjum 22 börnum fæðist með skerta heyrn. Ef að ég mætti færa þetta upp á mig þar sem spurningunni hér að ofan var beint að mér um daginn, þá þýða þessar tölur að það hafa verið rúmlega þrír í mínum 100 manna árgangi úr grunnskóla sem hafa verið heyrnarskertir og ef tekið er mið af meðaltalinu þá mætti ætla að um það bil 15 manns hafi haft skerta heyrn í grunnskólanum á Sauðárkróki þegar blómaskeið mitt var þar, fyrir rúmum átta árum. Ég man ekki eftir því að fræðsla af einhverju tagi hafi staðið mér til boða, ekki var mér kennt hvernig ég ætti að hafa samskipti við þá sem hefðu skerta heyrn. Mér var hinsvegar kennd danska, enska, lífsleikni, íslenska, saumar og smíðar ásamt fleiri góðum fögum.

Í dag er ég furðu lostin yfir því; ef ætla mætti að um 15 manns hefðu verið heyrnarskertir í skólanum mínum hvers vegna var okkur ekki kenndur grunnur í táknmáli, hvers vegna var okkur ekki kennt að hafa samskipti við heyrnarlausa? Það gefur auga leið að það er eitthvað sem kemur til með að gagnast okkur einhvern tímann á lífsleiðinni. Grunnskólakrökkum er gert að læra dönsku til þess að geta borið sig sem skyldi í fyrrum herraríki okkar, krakkar eiga að kunna að búa til fatahengi úr viðarbútum og sauma vettlinga og pils en ekki hvernig á að tjá sig við samlanda okkar sem búa við annað tjáningarkerfi en meirihluti landsmanna. Hvað á það að þýða?

Um 80% heyrnarlausra í heiminum fá ekki neina menntun, mannréttindi þeirra eru ekki virt og verðleikar þeirra vanmetnir. Í ályktun Heimssambands heyrnarlausra (WFD) frá árinu 1991 segir m.a. að það verði að finna leiðir til þess að þróa táknmálið, fjölga notendum táknmáls og auka gæðin í kennslu heyrnarlausra. Þrátt fyrir að nú séu liðin 15 ár síðan þessi ályktun var gefin út á hún fyllilega rindi við okkur í dag. Þetta er mál sem eflaust verður alltaf hægt að bæta. Þess vegna skora ég á menntamálaráðherra að auka mikilvægi fræðslu og kennslu á táknmáli og menningu heyrnarlausra. Það verður að gerast og það verður að gerast sem fyrst.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand