Af hetjum og baráttufólki

Ungir jafnaðarmenn hvetja Íslendinga til að líta Evrópu- og alþjóðasamstarf jákvæðari augum. Í ljósi mikilla sviptinga í Evrópu er mikilvægara en aldrei fyrr að Íslendingar heltist ekki úr lestinni í alþjóðavæðingunni, og taki virkan þátt í utanríkisstarfsemi. Ella getur þröngsýni og hræðsla við að stíga stærri skref í milliríkjasamskiptum leitt til einangrunar með tilheyrandi vandamálum, hvort sem er á sviði viðskipta, samfélags- eða menningarmála. Þann 21. janúar sl. var ár liðið síðan að vinkona mín eignaðist hana Birgittu Hrönn. Slíkt hefði verið gleðiefni ef hún hefði fæðst lifandi en henni var ekki ætlaður þessi heimur og er hennar sárt saknað af syrgjandi móður og föður. Í stað þess að einbeita sér að missinum ákvað vinkona mín og maður hennar að gera eitthvað til þess að láta gott af sér leiða – þau hófu baráttu. Baráttu um aukna þjónustu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í Reykjanesbæ.

Það er hægt að sitja og hugsa um hvað ef, hvað ef skurðstofan hefði verið opin en slíkt leiðir ekki til neins en það er hægt að reyna að koma í veg fyrir að slíkar vangaveltur geti átt sér stað og það er einmitt það sem vinafólk mitt gerir. Þau vilja að hin góða þjónusta sem veitt er á stofnunni verði til staðar allan sólarhringinn með von um að slíkt geti bjargað mannslífum. Þetta er óeigingjörn barátta að mínu mati, þau vilja að stúlkan sem fékk ekki að vaxa og dafna hafi þó með sinni komu í heiminn hrundið af stað atburðarás sem leiðir til einhvers góðs.

Frá því að baráttan hófst hefur einhver skriður komist á málið en þó virðist vera í raun óhugsandi að ná inn slíku fjármagni sem þarf til að kosta rekstur skurðstofunnar allan sólarhringinn og svo er það annað, óvíst er að starfsfólk fáist til að vera til taks og búa í Reykjanesbæ – þar sem lítið stoðar að hafa svæfingarlækni og skurðlækni sofandi í Reykjavík þegar bráðaástand hefur skapast, Reykjanesbrautin er jafnlöng í báðar áttir –

Framtíðin
Ef til vill fer að rofa til þar sem að nú nálgast sveitarstjórnarkosningar og alþingiskosningar, eins og beljurnar sem fagna vorinu verður maður var við stjórnmálamennina sem eru æstir í að gera hvað sem er fyrir mann lofi maður þeim atkvæði sínu. Það er nú nokkuð ljóst hvert mitt atkvæði fer en engu að síður þurfa stjórnmálamenn á Íslandi að hafa sig alla við að halda í fylgið, þar sem ansi margir íslenskir kjósendur eru ekki flokksbundnir eða flokkshliðhollir og kjósa það sem þeim sýnist. Loforð um byggingar, skurðstofur, akbrautir, göng eða fjármagn er auðvelt að setja en öllu erfiðara virðist vera að halda þessi loforð. Ekki veit ég hvort vinkonu minni hafi verið lofað einhverju í þessum málum en það eina sem ég bið um er að við gleymum ekki þeim baráttum sem eru háðar á degi hverjum hér á Íslandi í stað þess að muna bara eftir þeim sem eru háðar á fjögurra ára fresti og lyktar með kosningum.

Upp á hvern dag eru einstaklingar að drýgja hetjudáðir og baráttufólk er að finna í hverju horni. Að gráta barn sitt er fyrir henni ennþá staðreynd þó svo margir hafi gleymt þessari frétt – það sem er fyrir einum frétt er raunveruleiki annars. Ég vona að við munum eftir Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og ég vona að hún fái það fjármagn sem hún þarf til þess að sjúkrahússviðið geti sinnt í framtíðinni um 80% af þörf Suðurnesjamanna fyrir sérhæfða sjúkrahúsþjónustu. – eins og segir á vef heilbrigðisráðuneytisins í viljayfirlýsingu ráðherra um uppbyggingu á svæðinu dagsettri 28. apríl 2003. Vinkona mín er nú ólétt á ný og er hrædd, það væri yndislegt ef aðrar konur myndu aldrei upplifa þessa ógn eða hræðslu – sakleysið hefur verið tekið úr meðgöngunni.

Fyrir þá sem vilja fylgjast með þessum málum geta heimsótt síðu Birgittu Hrannar á barnalandi.is – http://www.barnaland.is/barn/28008 Ég tek það fram að ég skrifa þessa grein með samþykki vinkonu minnar og leyfi.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand