Það sem af er nýju árþúsundi hafa ýmis vopn verið lögð upp í hendurnar á þeim sem vilja ala á tortryggni og misklíð milli Vesturlandabúa og múslima. Sennilega ber þar hæst ólögmæta innrás Bandaríkjanna og fleiri vígfúsra ríkja í Írak 2003. Í september 2005 þóttist Jyllands-Posten hafa sitt til málanna að leggja, ætlaði að afhjúpa sjálfsritskoðun fjölmiðla gagnvart íslam en tókst í staðinn að afhjúpa sjálfhverfu þeirra.
Það er ekki óalgengt að frjálslyndir jafnaðarmenn eigi erfitt með að sjá hvað á að vera frjálslynt við stefnu frjálshyggjumanna. Þeir vilja meina að það sé sjálfkrafa samasemmerki á milli kapítalisma og einstaklingsfrelsis, og hafa ekki upp á neinar lausnir að bjóða fyrir fólk sem er fátækt, háð fíkniefnum eða hefur á einhvern hátt orðið undir í lífinu. Lausn þeirra er einföld, líkt og hugmyndafræði þeirra. Hún er að segja einfaldlega: „Þeim var nær.“ Getuleysi þeirra til þess að setja sig í spor annarra er algert. Því á greinarhöfundur líkt og margir aðrir jafnaðarmenn stundum erfitt með að sjá mun á þeim stjúpsystrum frjálshyggjunni og íhaldsstefnunni, og furðar sig á því hvernig nokkur getur trúað því að frjálshyggjumenn berjist fyrir raunverulegu frelsi. Það þarf því ekki að koma á óvart að hægrimenn skuli ekki geta sett sig í spor kvenna sem eru þungaðar gegn vilja sínum og mæli því gegn frelsi kvenna til fóstureyðinga. Um daginn birtist grein á vefriti ungra frjálshyggjumanna gegn fóstureyðingum og í kjölfarið önnur af sama meiði á hugsjonir.is.
Í fyrsta lagi má benda greinarhöfundum á að hvernig svo sem fólk skilgreinir fóstur þá þykir það sýnt að það að banna fóstureyðingar dregur ekki úr fjölda þeirra heldur einungis fjölgar lífshættulegum ólöglegum fóstureyðingum. Í öðru lagi má benda á að það fer enginn í fóstureyðingu sér til skemmtunar eða til þess að deyða líf, heldur er slík ákvörðun sársaukafull og erfið. Í þriðja lagi má benda á að þótt þeir telji sig eiga auðvelt með að slá sig til riddara og halda því fram að þeir séu málsvarar ófæddra barna, þá er augljóst að þeim er útilokað að setja sig í spor kvenna sem verða fyrir nauðgun og verða ófrískar í kjölfarið. Ætli þeir geri sér grein fyrir því hvernig er að vera í þeirri stöðu? Ætli þeir geti skilið muninn á því að skrifa um það greinar og því að þurfa að ganga með og fæða slíkt barn? Ekki finnst mér það líklegt. Fyrir konur eru ótímabærar og óæskilegar þunganir hins vegar raunverulegur möguleiki.
Hvort umræddir greinarhöfundar og skoðanabræður þeirra muni nokkurn tíman geta sett sig í spor annarra og sýnt réttindum kvenna til fóstureyðinga skilning veit ég ekki. Það væri fróðlegt að sjá þá halda því fram að ef þeir yrðu óléttir myndu þeir aldrei fara í fóstureyðingu. Og fyrst þeir þykjast vera málsvarar ófæddra barna, hversu langt vilja þeir ganga í að skerða sjálfsforræði þungaðra kvenna? Á að banna þeim að borða óhollan mat, keyra bíl eða stunda áhættusamar íþróttir? Hvað sem líður þeirra afstöðu styð ég rétt kvenna til þess að ráða yfir eigin líkama og eigin framtíð. Karlmenn eiga ekki að ráða yfir líkömum kvenna þótt þeir hafi vissulega gert það í gegnum aldirnar í krafti karlaveldsins. Það er eitthvað sem frjálslynt fólk hlýtur að vera sammála um að verður að breyta.