Flokkur ríkisstyrkja og innflutningstolla

,,Þetta gat Sjálfstæðisflokkurinn auðvitað ekki sætt sig við, enda er hann flokkur ríkisstyrkja og innflutningstolla. Ef Ólafur meinar eitthvað með því að hann vilji minni ríkisafskipti af landbúnaði, þá hvet ég hann til þess að vera samkvæmur sjálfum sér og kjósa Samfylkinguna í vor.” Segir Þorsteinn Kristinsson varaformaður Ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði.

Ólafur Örn Nielsen skrifar grein á vefrit Félags ungra sjálfstæðismanna í Garðabæ um daginn undir heitinu „Hvað vilt þú?“. Í grein sinni telur Ólafur upp alls kyns hluti sem hann vill, og ganga þeir reyndar allir út á minni ríkisafskipti. Þetta eru til dæmis upptaka skólagjalda, frjáls sala áfengis, stöðvun ríkisafskipta af landbúnaði og fleira. Í lok greinarinnar segir Ólafur síðan: „Þetta er það sem ég vil. Hvað vilt þú? Sjálfstæðisflokkurinn er sá flokkur sem vill ekki stjórna þér. Hafðu þessa spurningu hugfasta þegar þú gengur til kosninga í vor.“


Það skýtur skökku við að ekkert af því sem Ólafur telur upp er á stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins, nema þá kannski upptaka skólagjalda á vissum sviðum. Þannig hljóta loforð Ólafs að teljast nokkuð innantóm.


Með þessu er ég alls ekki að segja að sé sammála Ólafi og öllu því sem hann heldur fram, en það vill þó svo til að ég – sem og margir aðrir jafnaðarmenn – er hlynntur því að ríkið hætti að skipta sér af landbúnaði og leyfi frjálsa verslun með þær vörur.


Í þessu sambandi vil ég benda Ólafi á að hafa tvennt í huga.


Annars vegar er það nýgerður samningur um sauðfjárrækt sem Árni Matthiesen fjármálaráðherra skrifaði upp á nýverið, en samkvæmt honum er íslenska ríkið skuldbundið til að greiða hátt á annan tug milljarða króna til þess að efla sauðfjárrækt á Íslandi fram til ársins 2013. Nú þegar, greiða skattgreiðendur um 16 milljarða á hverju ári í stuðning við landbúnaðarframleiðslu. Rúmur helmingur þess stuðnings er fjárstuðningur sem tekinn beint úr vasa skattgreiðenda, en restin er í formi innflutningstolla sem og annarra hamla sem eru til þess ætlaðar að koma í veg fyrir að erlend framleiðsla keppi við þá íslensku. Staðan er þannig að Ísland á heimsmet í ríkisstuðningi við landbúnað, og jafnframt þurfum við að borga hæsta matvælaverð í heimi.


Við þessar aðstæður telja sjálfstæðismenn réttast að auka ríkisstuðning við landbúnaðarframleiðslu um fleiri milljarða!


Hitt sem ég vil benda Ólafi á að skoða eru tillögur Samfylkingarinnar í þessum efnum. Nú fyrir ekki svo löngu kynnti þingflokkur Samfylkingarinnar tillögur til þess að stuðla að lægra matarverði. Þær tillögur fólust meðal annars í því að fella niður innflutningtolla á matvælum í áföngum, á ekki lengri en tveggja ára tímabili. Með öðrum orðum, að leyfa fólki að velja sjálft hvort það kaupir íslenskt kjöt eða erlent. Þetta gat Sjálfstæðisflokkurinn auðvitað ekki sætt sig við, enda er hann flokkur ríkisstyrkja og innflutningstolla.


Ef Ólafur meinar eitthvað með því að hann vilji minni ríkisafskipti af landbúnaði, þá hvet ég hann til þess að vera samkvæmur sjálfum sér og kjósa Samfylkinguna í vor.

Greinin birtist í dag á vefriti Ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði – Mír.is

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand