Flatur skattur – flagð undir fögru skinni?

Fyrirhugaðar skattabreytingar eru umfram allt leiðrétting á þeim ójöfnuði sem ríkt hefur í íslensku samfélagi um árabil, en ekki leið til þess að hegna almenningi vegna athafna einstakra auðmanna í samfélaginu.

trickledown

Fyrirhugaðar skattabreytingar eru umfram allt leiðrétting á þeim ójöfnuði sem ríkt hefur í íslensku samfélagi um árabil, en ekki leið til þess að hegna almenningi vegna athafna einstakra auðmanna í samfélaginu. Að viðhalda samfélagi sem býður upp á ókeypis heilbrigðis- og velferðarþjónustu og öflugt menntakerfi opið öllum, kostar peninga. Fyrir mitt leyti vil ég leggja lóð á vogarskálarnar í að skapa réttlátara samfélag, ég hef fengið aðgang að þeirri þjónustu sem ríkið hefur upp á að bjóða, og hef aldrei verið beðin um tékkheftið.

trickledownHugleiðingar um skattkerfi og fyrirhugaðar breytingar á tekjuskattslögum.

„Þú færð 10 á prófinu, ef útkoman verður 0% skattur alla leið“. Þess orð eru greypt í huga minn, en þau voru látin falla í tengslum við skattlagningu fyrirtækja á alþjóðlega vísu, í námskeiði sem ég sat eitt misserið í námi mínu við Háskóla Íslands. Hugsanlega átti þessi athugasemd kennarans að vekja kátínu nemenda, en einhvern veginn var mér ekki skemmt.

Núll skattur alla leið. Orðin eru ágæt til að hugsa um þá ímynd sem hugtakið skattur hefur fyrir litla eyju út í ballarhafi sem gera átti að alþjóðlegri fjármálamiðstöð auðmagnsins, þar sem menn maka krókinn og keppast um hver á flottari Range Rover. Í samfélagi þessarar þjóðar er hugtakið skattur af hinu illa. Markmiðið er enda lögmæt hámörkun hagnaðar og lögmæt lágmörkun skattgreiðslna. Það verður að viðurkennast að ég hef ímugust á röksemdafærslum sem ganga út á að skattur sé af hinu illa, að menn eigi að hafa fullan ráðstöfunarrétt yfir sínum tekjum og gefi bara sjálfir til „góðgerðarstarfsemi” eða „samfélagsins“, eins og menn orða það með yfirlætistón. Fólk geti bara sjálft greitt fyrir sína heilbrigðis- og menntaþjónustu og básúna frelsi einstaklingsins eins og það sé lofað af Drottni. Nú spyr ég: Hvað er að þessu rökum? Jú, það er augljóst ef að er gáð. Þau lúta aðeins og einvörðungu að einstaklingnum sem hugsar allt út frá persónulegum gróða og hagnaði. Samfélag þar sem hagnaður er sjálft markmiðið, og sjálf lífsgæðin. Hún gerir ráð fyrir ójöfnuði, og augljóst er að í slíku samfélagi væri fjármagnið það sem veröldin snýst um. Á einstaklings- og frjálshyggju byggðist m.a. það skattkerfi sem við búum við, og stendur nú til að breyta.

Ólík hugmyndafræði að baki skattkerfum
Menn sem aðhyllast enn einstaklingshyggjuna, sem og aðrir, hafa harkalega gagnrýnt aðgerðir ríkisstjórnarinnar, nánar tiltekið þær sem breyta lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt, og m.a. koma á stigskiptum skattþrepum (e. progressive tax). Menn segja að slíkt skattkerfi og áðurnefndar skattahækkanir séu aðeins, og til þess eins að brúa bilið, í tekjum ríkissjóðs til að borga fyrir hin svokölluðu IceSave reikninga og önnur útgjöld sem hafa dunið á ríkinu vegna hrunsins. Séu slíkar hækkanir til þess fallnar að letja menn frá vinnu og hvetji til fólksflutninga hér á landi, svo ekki sé nefnt röksemdafærsluna um að með skattahækkunum sé verið að hegna duglegu fólki. Hér verður ekki farið í hvernig ríkisstjórnin kaus að framkvæma þær breytingar, en ljóst er að sennilega er þetta fyrsta útspil núverandi ríkisstjórnar í leiðréttingu á skattkerfi sem byggir á míglekri pólitískri hugsjón.

En hvað vitum við um ágæti flatrar skattprósentu, sem ríkisstjórn einstaklings – og frjálshyggjunnar barðist ötult fyrir? Ef skoðuð eru sjónarmið sem liggja til grundvallar skattlagningu, er það annars vegar sjónarmið um hámarksskilvirkni og sjónarmið um jöfnuð. Það er alveg ljóst að stefnumótun fyrri ríkisstjórna í skattamálum tók ekki mið af sjónarmiðinu um jöfnuð, enda er talið útilokað að beina sjónum sínum að hámarksskilvirkni samfélagsins og að ná fram markmið um jöfnuð. Ef við samþykkjum að jöfnuður sé almannagæði og grundvallarréttindi þá þarf ennfremur að borga fyrir hann.

Að þessu sögðu, er rétt að benda á að fyrir var Ísland með einna lægstu skattaálagningu á fyrirtæki í heiminum. Ísland var á lista Alþjóðaefnahagsstofnunarinnar (OECD) með hópi annarra landa sem taldar voru fjármálaparadísir fyrir fyrirtæki, næst fyrir ofan skattaparadísirnar. Tekjuskattur fyrirtækja á Norðurlöndunum var á milli 28% og 30% meðan tekjuskatturinn var samtals 18% hér á landi (sumarið 2008 stóð ennfremur til að lækka hann frekar!). Fjármagnstekjuskattur var jafnframt 10%. Skattstefna þáverandi ríkisstjórna var því einstaklega hægrisinnuð, lengra til hægri en skattkerfi Breta og Bandaríkjamanna, en báðar þær ríkisstjórnar búa við fjölskipt skattkerfi. Tilgangur ríkisstjórnarinnar var að flöt skattprósenta og lágir skattar myndu laða erlent fjármagn að og þannig kæmu frekari tekjur í ríkisskassann til lengri tíma litið. Voru sérstakar röksemdafærslur að það yrðu jú tekjuskerðingar fyrstu árin, en hin lága skattprósenta átti til lengri tíma litið að skila hagnaði! Vissulega fór meira fjárstreymi í gegnum ríkissjóð. Geir Haarde, fyrrum forsætisráðherra, fullyrti ennfremur að ríkissjóður stæði vel og væri nánast skuldlaus þegar kreppan dundi á landinu. Samkvæmt tölfræðilegum upplýsingum er sú fullyrðing ósönn. Árið 2007 skuldaði ríkissjóður 54% af vergri þjóðarframleiðslu (GDP), sú tala er reyndar ekkert svo há í alþjóðlegu samhengi, en t.a.m má nefna að Noregur skuldaði rúmlega 25% sama ár. Við töldum okkur vera í sama hópi þjóða, og spyrja má hvers vegna hagnaður ríkissjóðs var ekki notaður til að greiða niður skuldir. Árið 2006 kom ennfremur út skýrsla á vegum Alþjóðaefnahagsstofnunnarinnar þar sem talið var að eyðsla í ríkisstarfsemi væri vandamál, og lagt var til að tekið væri föstum tökum á útgjöldum ríkisins og þau takmörkuð og lagt til að ríkissjóður einfaldlega sparaði. Í niðurstöðunni er sérstaklega áréttað að ójafnvægi stafaði að mestu leyti af þeim skattabreytingum sem hefðu verið gerðar árið 2003, þ.e lækkun skatta í samræmi við kenningar um hina flötu skattprósentu, afnám hátekjuskatts og eignarskatts, lækkun tekjuskatts á fyrirtæki í alþjóðlegt lágmark.

Afleiðingar flatrar skattprósentu
Ef skoða á reynsluna af hinni flötu skattprósentu í alþjóðlegu samhengi má visa til reynslu Eistrasaltsríkjana, sem kölluð hafa verið The Baltic Tigers, vegna aðgerða þarlendra stjórnvalda í að koma á kapitalísku hagkerfi. Eftir að ríkin urðu sjálfstæð eftir hrun Sovíetríkjanna, litu þau til hægrisinnaðra kenninga um hið frjálsa markaðssamfélag, og einn liður þess var að koma á flatri skattprósentu m.a. í ljósi þess að hann ætti að færa meiri tekjur inn í rikissjóð, væri vinnuhvetjandi og því hefði hann í för með sér lægri atvinnuleysisprósentu. Eistrasaltslöndin fengu klapp á bakið frá alþjóðasamfélaginu fyrir vel heppnaðar skattaaðgerðir. En hverjar eru afleiðingarnar? Tekjurnar hafa ekki verið jafn miklar og vonast var til, og það þýðir að þjóðirnar hafa ekki geta staðið undir að greiða það velferðarkerfi sem þjóðin heldur úti. Lettland hefur t.d. farið mjög illa út úr fjármálakrísinu og þurfti að fá lánveitingu upp á 10,5 billjónir dala til að halda samfélaginu gangandi, m.a. frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Evrópusambandinu og Norðurlöndunum. Lettland horfir nú fram á enn frekari lántöku. Ljóst er að þessi ríki eru í mjög slæmum málum.

Dæmið af Eistrasaltsríkjunum minnir um margt á stöðu Íslands, þó svo að margir þættir skilji að í efnahagskerfinu. Reyndin er sú að flest ríki, sem hafa búið við flata skattprósentu, eru nú í slæmri stöðu, m.a. vegna þess að flatur skattur hefur gert það að verkum að skera þarf niður fjárhagsáætlanir til ýmissa ríkisstofna. Megingagnrýni á hina flötu skattprósentu, virðist ennfremur að rætast, þ.e að hún dregur úr skattbyrði á auðmenn samfélagsins á meðan skattbyrðin verður þyngri fyrir meðaltekju- og láglaunafólk. Kannast einhver við þessa reynslu? Hver hefur reyndin verið af hinum flata skatt ríkisstjórnar sjálfstæðis- og framsóknarflokksins. Að ójöfnuður hefur skapast í samfélaginu og þeim einum var hyglt sem höfðu fjármagn á milli handanna. Aukinheldur var skattastefnan mun hægrisinnaðri en annarra kapítalískra ríkja. Gordon Brown, fyrrum forsætisráðherra Breta, sagði t.d. um flata skattprósentu árið 2005 að það væri ósanngjörn hugmynd í skattkerfi sem skapaði ójöfnuð þar sem: „the millionaire (pays) exactly the same tax rate as the young nurse, the home help, the worker on the minimum wage.“

Leiðrétting á skattkerfinu í átt að auknum jöfnði
Þjóðir og fræðimenn hafa ekki verið sammála því hvaða skattkerfi virkar best, þ.e. er í sjálfu sér einnig pólitískar spurningar sem liggja því að baki og ennfremur ákvörðun sitjandi ríkisstjórna hvaða hagsmuni ber að hafa að leiðarljósi við dreifingu gæða. Hér er hins vegar mjög mikilvægt að hafa í huga að flest ríki í heiminum notast við stigskiptan þrepaskatt. Í þeim hópi eru flest ríki í Evrópu auk Bandaríkjanna og Japan. Er því mælst með að fremur sé litið á skattahækkanir ríkisstjórnar sem eðlilegt útspil, í takt við það kerfi sem aðra þjóðir viðhafa, enda hefur það vart dulist neinum að þær hugmyndir þáverandi ríkisstjórnar að gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð hafa mistekist hrapalega. Fyrirhugaðar skattabreytingar eru umfram allt leiðrétting á þeim ójöfnuði sem ríkt hefur í íslensku samfélagi um árabil, en ekki leið til þess að hegna almenningi vegna athafna einstakra auðmanna í samfélaginu. Að viðhalda samfélagi sem býður upp á ókeypis þjónustu fyrir alla, svo sem heilbrigðis- og velferðarþjónustu og öflugt menntakerfi opið öllum, kostar peninga. Fyrir mitt leyti vil ég leggja lóð á vogarskálarnar í að skapa réttlátara samfélag, ég hef fengið aðgang að allri þeirri góðu þjónustu sem ríkið hefur upp á að bjóða, og hef aldrei verið beðin um tékkheftið til að svo verði. Framangreindar skattabreytingar, eru hvað sem öðru líður, einn þáttur í að leiðrétta það ranglæti sem ýmsir hópar hafa þurft að sæta vegna ívilnanna annarra hópa. Breytingarnar eru réttlætismál, til þess fallnar að skapa hér samfélag sem hefur félagshyggju og jöfnuð að leiðarljósi, í stað hins stéttskipta samfélag auðmagnsins.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand