Fiskurinn – sameiginleg auðlind þjóðarinnar?

sjavarutvegur

Árið 1984 var kvótakerfið fest í lög með það að markmiði að tryggja verndun fiskistofna og fyrsta árið var úthlutunin án endurgjalds. Margir þeir sem fengu úthlutað hafa mokgrætt á henni og margar byggðir landsins þannig orðið af mikilli atvinnu. Eftir að “kvóta-framsals-brask-kerfið” kom til, þá var það fjármagnseigandinn sem hafði öll vopnin – gat yfirboðið “góða og gegna byggðarsjómanninn”, sem sá sér ekki fært að neita. Þar með var kvótinn farinn úr byggðarlaginu. Svona var öllum sjónarmiðum nema um gróða eytt.

sjavarutvegurÍ ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu er orðið “réttlæti” ofsalega áberandi á hinum ýmsu sviðum. Sjávarútvegur hefur verið mitt svið síðan ég var krakki og skortur á “réttlátu” fiskveiðistjórnunarkerfi er það sem er mér hugleikið – ekki síst þegar ég hugsa um atvinnumöguleika ungs fólks.

Saga sjávarnytja er samofin sögu okkar sem þjóðar – en þörfin fyrir kerfi til að takmarka veiðar kom ekki fyrr en síðar. Áður sóttu menn ekki langt í fiskinn – og þá helst til búbótar fyrir eigið heimili. En með komu stærri báta – og síðar öflugra togara þá var hægt að sækja lengra út á miðin og margfalda aflafenginn. Árið 1984 var kvótakerfið fest í lög með það að markmiði að tryggja verndun fiskistofnanna, en kerfið virkar þannig að hvert skip fær úthlutun aflaheimildar fyrir hvert fiskveiðiár. Í grunninn er miðað við veiðireynslu, og fyrsta ár kerfisins var úthlutunin án endurgjalds.

Í núverandi kerfi eru aflaheimildirnar eins og hver önnur eign – þær má selja og leigja, og það er kannski helst þar sem mig langar til að staldra við. Á þennan hátt hefur nefnilega orðið til heilmikið brask með auðlind sem hlýtur að eiga að teljast þjóðarinnar. Margir þeir sem fengu endurgjaldslausa úthlutun hafa mokgrætt á henni með framsali og margar byggðir landsins og íbúar þeirra þannig orðið af mikilli atvinnu bæði á sjó og í landi.

Sjávarútvegurinn hefur þannig verið drifin áfram af ógurlegu gróðasjónarmiði og í raun úr öllu samhengi við aðrar atvinnugreinar. Þvert á löngun mína til fallegra væntinga til manneskjunnar þá held ég að því megi halda fram að hver maður hafi sitt verð. Áður en kvótakerfið kom til þá voru þeir sem sóttu sjóinn menn sem höfðu það að atvinnu að veiða og koma aflanum til byggðarinnar sinnar og skapa þannig atvinnu. Síðar, eftir að “kvóta-framsals-brask-kerfið” kom til, þá var það stóri fjármagnseigandinn sem hafði öll vopnin í hendi sér – gat boðið nógu hátt til þess að “góði og gegni byggðarsjómaðurinn” sá sér ekki fært að segja nei og þar með kvótinn hans jafnvel farinn úr byggðarlaginu. Svona var öllum sjónarmiðum nema hreinum gróða eytt.

Fiskveiðilöggjöfin hefur verið endurskoðuð í gegnum tíðina – en mikið frekar í orði en á borði sbr. fyrstu tvo málsliði 1. gr. Laga um stjórn fiskveiða nr. 116/2006 ; Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Líklega eru ekki margir sem telja að markmiðum þessarar greinar hafi verið náð. Raunin hefur orðið sú að stærstur hluti kvótans safnast á hendur afar fárra – og margar byggðir líða hart fyrir. Ég ætla ekki að efast um hæfni þessara stærstu til að veiða, vinna og selja – það hefur jú sannað sig, enda mikið fjármagn að baki sem er í grunninn tilkomið vegna brasksins í krafti framsals. Mín skoðun er sú að þeim byggðarlögum sem í dag hafa stærstu verksmiðjurnar sé langt í frá borgið – dæmin um hið gagnstæða eru einfaldlega of mörg. Það eru nefnilega einmitt þau sem ættu að láta málið sig varða því þau eru háð geðþótta “kvótagreifana” um að vera um kyrrt.

Sjávarútvegurinn er arðbær – en við nánari athugun þá virðist núverandi fyrirkomulag aðeins henta stærstu kvótaeigendunum og þá helst fyrir þær sakir að þeir geta leigt út frá sér dýrar fisktegundir en sleppt því að veiða þær ódýrari (sem eru jafnvel bara til vara vegna löndunarskyldu) sem falla þá óveiddar niður. Handhafar aflaheimilda hafa þannig frjálsar hendur um það hvort verðmæta- og atvinnusköpun á sér stað í þjóðfélaginu!

Sem ung áhugamanneskja um sjávarútveg þá finnst mér framsalskerfið vera lýti á annars fallegri hefð okkar sem fiskveiðiþjóð. Flötur ungs fólks sem hyggst vera í sjávarútvegi – og hefur jafnvel hug á að mennta sig í geiranum – er sá að það á um fátt annað að velja en að vinna undir risunum. Tækifærin til að stofna fyrirtæki í sjávarútvegi eru lítið sýnileg – nema menn ætli að treysta á aðkeyptan afla.

Eins og áður sagði þá er farið með kvótann á sama hátt og aðrar eignir – er það eðlilegt ef maður hugsar um sjávarútveg í samhengi við aðrar atvinnugreinar? Mér finnst miður hvernig stjórnvöld hafa í gegnum tíðina klekkt á þjóðinni með ótrúlegum dansi við hagsmunaöflin í greininni (LÍÚ) – lotið fyrir þeim um að auka kvóta og afnumið álögur á óunninn fisk (Einar K. Guðfinnsson 2007). Því síðarnefnda ætti sannarlega að breyta í ljósi aðstæðna því með því væri möguleiki á að skapa hátt í 1000 störf – ef fiskurinn væri unninn hér heima!
Réttlætiskennd minni hefur oft verið ofboðið – ekki síst þegar ég heyri sjálfstæðismenn taka upp sama sérhagsmunadansinn og áður fyrir kvótaeigendur og tala eins og endurskoðun kerfisins muni eyðileggja atvinnuveginn. Staðreyndin er hins vegar sú að fiskurinn í sjónum verður til svo og aðilar til að veiða hann – burtséð frá því að þá verður til kerfi byggt á réttlátum grunni fyrir menn og byggðir og í það skiptið væri “rétt gefið” til allra – líka komandi kynslóða sem hafa hug á sjávarútvegi.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand