Eftir að hafa setið frábæran fund UJ um mansal á Íslandi vakti það mig til mikillar umhugsunar. Upp kom á fundinum málefni tengt mansali, kvennfyrirlitning. Kvennfyrirliting. Árið (næstum) 2010. Ég trúi ekki að ég sé að skrifa þetta.
Konur eru meira en helmingur mannkyns og svo ótrúlegafáránlegaviðbjóðslega margir telja þær af einhverjum ástæðum óæðri karlkyninu.
Eftir að hafa setið frábæran fund UJ um mansal á Íslandi vakti það mig til mikillar umhugsunar. Upp kom á fundinum málefni tengt mansali, kvennfyrirlitning. Kvennfyrirliting. Árið (næstum) 2010. Ég trúi ekki að ég sé að skrifa þetta.
Konur eru meira en helmingur mannkyns og svo ótrúlegafáránlegaviðbjóðslega margir telja þær af einhverjum ástæðum óæðri karlkyninu.
Í samfélagi ungs fólks er allt morandi í fordómum gagnvart konum og eftir því sem ég tala við fleiri og sé hvað fleiri skrifa þá minnkar von mín um jafnrétti kynjanna. Ég fæ vonleysistilfinningu. Mér líður eins og meirihluti fólks sem ég þekki hugsi ekkert út í jafnrétti, finnist feministar vera ógeðslegar konur (og loðnar í þokkabót), og í öllum þeirra gjörðum kemur ekkert annað í ljós en að þeim finnist í raun konur verri en karlar. Og þetta á líka við um stelpur sem ég þekki. Trúiði þessu, mínar eigin kynsystur?
Í útskriftarferðum menntaskólanema er vinsælt að strákarnir skelli sér á næturklúbba að horfa á naktar konur dansa (sem samkvæmt fjöldamörgum rannsóknum eru mjög líklega fórnarlömb mannsals – það eru afar fáar konur sem dansa sér til skemmtunar og vegna atvinnufrelsisins sem þær hafa) og einhverjir leigja sér vændiskonur. Tvítugir strákarnir! Það er ekki nóg fyrir þá að horfa á samstúdínur sínar spranga um á bikini á ströndinni heldur þurfa þeir að borga sig inn á staði, það er bara eitthvað svona sem er gert, skiljiði.
Í tengslum við hópíþróttaferðir til útlanda hjá eldri strákum í handbolta og fótbolta er það nánast undantekning ef einhver af strákunum kaupir sér ekki hóru. Það er bara eitthvað svona sem er gert og er svolítið fyndið, eflir liðsandann, þið skiljið.
Í gær setti félagi minn status á Facebook sem stóð eitthvað í þá átt að konur kynnu ekki að keyra, því ein kona var svo lengi af stað á ljósum að hann dúndraði aftan á hana. Af því að þessi kona fór ekki jafn hratt og hann vildi eru allar konur lélegir bílstjórar. Og svo bætti hann við að þær ættu ekki að hafa kosningarétt.
Ég gat auðvitað ekki á mér setið enda með endæmum góður bílstjóri og sagði í kaldhæðni að auðvitað væru allar konur lélegir bílstjórar. Svaraði hann „fyrst að svara er Brynhildur Bolladóttir, datt mér ekki í hug“ og vísaði til þess að ég er víst talin öfga-feministi af ýmsum (og mér sem finnst ég ekki nægur feministi). Annar blandaði sér í umræðuna og sagði orðrétt „eins og aðrir feministar áttu að fara upp á fjall og skjóta þig· (þessi setning er tilefni í aðra grein um hvað fólk lætur útúr sér á netinu en myndi aldrei segja beint út framan í það). Hvað ætli ungi herramaðurinn myndi gera ef ég hefði tekið við skilaboðum hans, gengið upp á fjall og skotið mig? Nei bara pæling.
Svo ekki sé byrjað á öllum hópunum sem fólk gengur í á þessum annars ágæta samskiptamiðli. „Félag íslenskra karlrembusvína“ og „Við viljum afturkalla kosningarétt kvenna og takmarka menntun þeirra“. Fólki finnst þetta massíft fyndið. Ekki mér. Hvað er fyndið við þetta? Ég sé það ekki. Og stelpurnar sem ganga í hópinn og skrifa “snilldar grúppa!” Hvað er að þeim? Hvar eru mæður þeirra og feður með rétthugsun að leiðarljósi í uppeldinu? Ég minni hér á málsháttinn „öllu gamni fylgir nokkur alvara“ og tel hann eiga fyllilega við hér. Þetta er undirliggjandi fordómar, jafnvel þótt allt sé í gríni gert.
Það er hefð innan allmargra deilda innan Háskóla Íslands að halda kvenna- og karlakvöld. Fólk merkir sig með bandi hvort það sé á lausu, í sambandi eða svona bæði og (?). Svo er hópnum skipt í tvennt, karlarnir fara á strippbúllu (sem eru löglegar, hvað er það Samfylking í ríkisstjórn?) og konurnar fá kannski kynningu um hjálpartæki ástarlífsins. Frábært hjá fólki á æðsta menntunarstigi að mæta á þessar samkomur og þykja ekkert athugavert við allt saman. Ekkert athugavert! Fæstum þykir það. Trúiði því?
Eigum við að byrja að ræða fyrirsagnirnar á visir.is um frægu konurnar og appelsínuhúðina þeirra? Ég er næstum farin að lesa mbl.is aftur.
Í dag birtist svo grein eftir Steinunni Valdísi Óskarsdóttur þingmanns Samfylkingarinnar þar sem hún telur Sigmund Davíð og Höskuld Þórhallsson tala niður til kvenna á Alþingi. Þetta er þá ekki bara vandamál á æðsta menntunarstiginu, heldur líka í æðstu stofnunum landsins? Hjálpi mér Guð og blessi hann Ísland.
Þá er það aðalmálið – hvað ætlum við að gera til að bæta hugarfar kynslóðanna?
Mun ný kynslóð vaxa úr grasi sem hugsar eins og foreldrar sínir, verður fangi klámvæðingar og ójafnræðis? Ungi maðurinn sem sagði mér að skjóta mig er nýbakaður faðir og þegar ég spurði hvort hann ætlaði að temja dóttur sinni þetta hugarfar sagði hann „já, það verða sko engar helvítis rauðsokkur á mínu heimili“
Ég hef áhyggjur. Miklar og þungar áhyggjur. Eitthvað stórkostlegt þarf að breytast og ég biðla til allra feminista og jafnréttissinna að hjálpa mér í baráttunni svo ég fyllist ekki þessu vonleysi og segi eins og í íþróttunum KOMA SVOOO! BERJAST BERJAST BERJAST!