
Í grein sem birtist á erlendri vefsíðu í dag varar Katrín Jakobsdóttir við því að ríki heims skerði réttindi hælisleitenda og flóttafólks. Þetta skrifar Katrín á vef Progressive International, eins konar alþjóðlegrar hreyfingar vinstrisinnaðra leiðtoga.
Sama dag og greinin birtist kemur dómsmálaráðherra fram í sjónvarpsfréttum og ver frumvarp ríkisstjórnarinnar sem gerir nákvæmlega það sem Katrín varar við í grein sinni; það skerðir réttindi hælisleitenda og flóttafólks.
Í fréttatímanum í kvöld sagði talskona Rauða krossins að frumvarp ríkisstjórnarinnar myndi afnema heimild íslenskra stjórnvalda til að taka til efnismeðferðar mál fólks sem nýtur verndar í ríkjum eins og Grikklandi og Ungverjalandi. Ríkjum þar sem flóttafólk nýtur engra tækifæra til menntunar og takmarkaðs aðgengis að heilbrigðisþjónustu. Ekki einu sinni alvarlega veik börn í þessari stöðu ættu von á vernd á Íslandi.
Á meðan Katrín talar fyrir mannúðarstefnu í málefnum flóttafólks á alþjóðlegum vettvangi, ræðst hún að réttindum þess í ríkisstjórn á Íslandi. Væntanlega til að þóknast Sjálfstæðisflokknum. Fólk hefur verið kallað falskt af minna tilefni.
Óskar Steinn Jónínuson Ómarsson, varaforseti Ungra jafnaðarmanna.