Ef við lítum yfir litla míkró-samfélagið sem hið háa Alþingi Íslendinga er, er nokkuð augljóst að hópurinn er einkar einsleitur. Uppistaðan eru hinir nafntoguðu miðaldra hvítu karlmenn og næsti hópur á eftir þeim eru miðaldra hvítar konur. Þrátt fyrir að síðasti forsætisráðherra landsins hafi verið fyrsti opinberlega samkynhneigði kjörni forsætisráðherra heimsins er enginn á Alþingi í dag opinberlega samkynhneigður eða fulltrúi hinsegin samfélagsins. Það þýðir að hinsegin fólk, sem gæti verið á bilinu 12 til 15% þjóðarinnar ef allir hópar eru taldir með (sam-, tví- og pankynhneigðir, ókynhneigðir, trans og intersex) hafa engan fulltrúa á þingi en ættu að hafa 7-9. Allir aðalþingmenn eru af íslensku bergi brotnir og skjannahvítir á hörund, (fyrir utan Árna Pál, en litaraft hans orsakast af öðrum þáttum en kynþætti). Á Íslandi eru ríflega 9000 íbúar fæddir í Póllandi. Þó fæstir þeirra séu með íslenskan ríkisborgararétt, þá borga allflestir þeirra skatta, en eiga sér engan fulltrúa. Á Alþingi er hvorki 1,8 þingmaður af pólsku bergi brotnu, né heldur neinn annar fulltrúi innflytjenda. Fólk á aldrinum 18-30 eru um 19% þjóðarinnar. Þar af leiðandi gæti viðmiðunarfjöldi þingmanna undir þrítugu verið um 11, en þeir eru 2 (og eiga þann vafasama heiður að verma 1. og 2. sætið í keppninni um hvaða þingmaður talaði minnst á síðasta þingi).
Já, þingmannahópurinn samsvarar illa fjölbreytni Íslendinga og hafa hér aðeins örfáir þættir verið tíundaðir. Ennþá er talsverður kynjahalli, en merkilega margir skarta húðflúri, -eða 23% samkvæmt óformlegri könnun vefritsins Nútímans. Þegar litið er á heildarframboðslista flokkanna er þó öldin önnur. Flestir flokkar leitast við að endurspegla fjölbreytileikann á listum sínum og reyna að tikka í sem flest box hvað varðar þjóðerni, kynhneigð og aldur. Þrátt fyrir það raðast einsleitur hópur í efstu sætin, sem eru þeir sem raunverulega hljóta sæti á Alþingi.
Nýverið kynnti Stefan Löfven, formaður jafnaðarmanna í Svíþjóð, ríkisstjórn sína þar sem að ráðherrasæti eiga meðal annars tveir einstaklingar fæddir í Tyrklandi, einn í Íran, einn í Bosníu og einn af gambískum bakgrunni. Jafnframt eru tveir ráðherrar undir þrítugu. Allt er þetta duglegt og gott fólk sem á hlutverk sín fyllilega skilið, óháð bakgrunni, en þrátt fyrir það hlýtur maður að spyrja sig; hvað veldur skorti á fjölbreytileika í íslenskum stjórnmálum?
Greinin birtist fyrst sem leiðari í 1. tbl. Jafnra og frjálsra 2014. Inga Auðbjörg Kristjánsdóttir ritaði greinina.