Er ekki kominn tími til að slútta geiminu?

…en er það virkilega eðlilegt að hér skuli skuldir heimilanna vera orðnar langt umfram ráðstöfunartekjur? Er það eðlilegt að ungt fólk hefji sitt fjármálalíf með því að gefa sig bankakerfinu á vald næstu áratugina? Er það eðlilegt að hér skuli allur hagvöxturinn meira og minna byggjast á einhverjum ímynduðum spekúlasjónum og flippi þar sem tiltölulega barnungir jakkafataklæddir drengir tala upp gengi á hinum og þessum hlutabréfum án þess að nein verðmæti séu á bak við? Ísland í dag er að mörgu leyti skemmtilegt og framsækið þjóðfélag. Hér er einhvers konar gullgrafarastemning sem aldrei fyrr – standandi partý, mikill kaupmáttur og djamm hið mesta. En eru veisluhöldin kannski full dýru verði keypt?

Jú, það verður að segjast eins og er. Góðærið svokallaða – þreytt sem orð þetta er orðið – virðist byggt á einum mælikvarða. Efnalegri „velsæld“, bullandi hagvexti og sívaxandi landsframleiðslu. Það er í sjálfu sér nokkuð gott mál en er það virkilega eðlilegt að hér skuli skuldir heimilanna vera orðnar langt umfram ráðstöfunartekjur? Er það eðlilegt að ungt fólk hefji sitt fjármálalíf með því að gefa sig bankakerfinu á vald næstu áratugina? Er það eðlilegt að hér skuli allur hagvöxturinn meira og minna byggjast á einhverjum ímynduðum spekúlasjónum og flippi þar sem tiltölulega barnungir jakkafataklæddir drengir tala upp gengi á hinum og þessum hlutabréfum án þess að nein verðmæti séu á bak við?

Nei, auðvitað er það ekki eðlilegt. Það er í fyrsta lagi fáránlegt að hér skuli gildismat efnishyggjunnar og auðhyggjunnar eitt ráða því hvað teljist velsæld eður ei. Allt er mælt út frá krónum og aurum og því hvernig meðalkaupmáttur og meðalhagsæld ímyndaðs meðal-Íslendings hefur vaxið. Þessa plötu spilar ríkisstjórnin linnulítið en við hin vitum vel að efnalega velsældin hefur æ misjafnar skipst niður, eftir því sem valdatíð stjórnarherranna hefur dragnast áfram. Flestir hafa væntanlega heyrt samlíkinguna um að þó að manni sé eflaust að meðaltali heitt – þá geti hann þess vegna verið með annan fótinn í ísköldu vatni en hinn í brennandi heitu.

Dæmum um vaxandi misskiptingu má víða finna stað. Til dæmis í síhækkandi Gini-stuðlinum sem Þjóðhagsstofnun sáluga mældi alltaf reglulega, en eftir að stjórnvöld lögðu hana niður eru þær upplýsingar ekki birtar að fyrra bragði. Þorvaldur Gylfason, hagfræðiprófessor, lét enda svo um mælt fyrir stuttu síðan að það þyrfti að toga Gini-stuðulinn ,,uppúr stjórnvöldum með töngum”. Allavega bendir þessi feluleikur þeirra til þess að menn sé kannski hálf skömmustulegir innst inni með hið breikkandi bil á milli þeirra sem hafa og þeirra sem hafa ekki.

En ójöfnuðinn sér fólk einnig í sínu daglega umhverfi. Til dæmis í samgöngumálum borgarinnar. Gengið er út frá því að fólk eigi bíl og þeir sem ekki eiga bíl – og nota strætó – eru álitnir: a) Öryrkjar. b) Gamlingjar. c) Börn og ungmenni frá fátækum heimilum. d) Geðsjúklingar. Þetta er auðvitað dálítil einföldun, en segir þó sína sögu um þá forgangsröðun sem er viðhöfð, einkabílnum í vil. Með þeim afleiðingum að í staðinn fyrir að byggja upp almenningssamgöngur sem fólk úr öllum stéttum notar, þá er öllu tjaldað til fyrir þá neysluglöðu „sem stífla allar hafnir með innflutningi á amerískum pallbílum!“ einsog Steingrímur J. Sigfússon orðaði það ágætlega í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í byrjun þessa mánaðar.

Annað dæmi sem ég ætla að taka um misskiptinguna, er enn alvarlegra og eflaust hafa fáir pælt verulega í því. Það er sú fáránlega verðlagning sem er á alls kyns heilsufæði og hollustuvarningi. Hvort sem fólk verslar þessar vörur í stórmörkuðum eða í þartilgerðum heilsubúðum, er algert hneyksli að það skuli vera á fárra færi að borða hollan mat. Og á ég þá enn eftir að nefna hið ofurtollaða grænmeti og ávexti. En á meðan er óhollustan nánast ókeypis og er farið fremur frítt með uppstillingar á henni í stórmörkuðunum. Sama á við með skyndibitamatinn allan. Hann er ótrúlega ódýr miðað við heilsumatsölustaði. Þessi ameríska ,,matvælapólitík” (sem best sést í myndinni SuperSize Me!) mun með tímanum leiða til stéttaskiptingar þar sem ríka fólkið er grannt en fátæka fólkið feitt. Eitthvað annað en á tímum aðalsins, þar sem hástéttin var búttuð og feit – en fátæklingarnir að sama skapi að detta í sundur. Ef ekkert verður að gert mun fátæka fólkið deyja langt á undan hinum sökum ótímabærs heilsubrests.

Það er kominn tími til að segja misskiptingunni, fátæktinni og neysluæðinu stríð á hendur. Það er ekki láglaunafólkið og lífeyrisþegarnir sem eru að keyra allt um koll í efnahagslífinu. Heldur millitekjufólkið, hátekjufólkið og síðan ofurtekjufólkið. Það versta er hins vegar að krafan um aukna neyslu á öllum sviðum veldur því að margir sogast með inní dansinn við gullkálfinn. Ótalmargir munu halda jól útá krít eftir tvo mánuði og fullt af fólki ,,siglir” utan tvisvar, þrisvar á ári. En á meðan situr hópur gamals fólks, öryrkja, atvinnulausra og láglaunafólks, sem verður æ afskiptari vegna þess að allir hinir eru svo uppteknir af því að eyða nýjustu tekjuskattslækkun ríkisstjórnarinnar.

Það er óþægilegt að segja það, en við þurfum að slútta þessu partýi fyrr en síðar. Ástandið núna minnir óneitanlega á árið 1987 þegar neyslan var yfirgengileg og fólk reisti sér hurðarás um öxl. Næsta ár gæti því hæglega orðið einsog árið 1988 þegar allt var komið í kalda kol. Atvinnuvegir voru að stöðvast úti á landi og hér syðra fóru fleiri og fleiri hús undir hamarinn. Vissulega yrði slæmt ef við fengjum slíkt ástand upp á nýtt (einsog gæti gerst ef ekki verður gripið í taumana). En það góða í þessari samlíkingu er sú staðreynd – að 1988 var Sjálfstæðisflokknum hent út úr ríkisstjórn og hægt var að moka flórinn eftir þá. Með þeim árangri að loksins komst á stöðugleiki um og uppúr 1990.

Kannski er ein lítil kreppa einnar messu virði eftir allt saman. Sérstaklega ef hún verður til þess að beina sjónum stjórnvalda og almennings að því sem mestu máli skiptir í lífinu. Og ekki spillir fyrir ef hægt verður loksins að kasta víxlurunum út úr musterinu!

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand